fbpx
Fimmtudagur 24.apríl 2025
Fréttir

Þórdís stígur fram: „Ótrúlega skrýtin tilfinning að lenda í hakkavél samfélagsmiðlanna“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 22. júlí 2020 15:59

Þórdís Björk Þorfinnsdóttir. Mynd: Fréttablaðið/Auðunn

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórdís Björk Þorfinnsdóttir leikkona birti í dag langan pistil á Facebook-síðu sinni þar sem hún hugleiðir atburði síðustu daga, en Þórdís hefur orðið fyrir gífurlega aðkasti og mátt þola skilaboðasendingar sem innihéldu morðhótanir og hótanir um nauðgun og misþyrmingar.

Forsagan er sú að Þórdís lét misskilinn brandara falla á Instagram-reikningi sínum um Kópasker og Raufarhöfn, athugasemd sem var tilkomin vegna veðurfars, en Þórdís var á leikferðalagi með Leikhópnum Lottu:

Jæja þá erum við búin að koma á helv.. Kópasker. Keyrðum á Kópasker og Raufarhöfn bara til að geta krossað það út af listanum, mæli alls ekki með að koma hingað, bara alls ekki gera það.“

Í pistli sínum tekur Þórdís fram að hún beri engan kala til samfélaganna á Kópaskeri og Raufarhöfn. Hún dæmi líka engan fyrir gjörðir einstaklinga sem þurfa hjálp, en þar vísar hún til hinna ofbeldisfullu skilaboða sem henni hafa verið send. Þórdís segir enn fremur:

„Ég held að við séum öll sek um að dæma fólk á samfélagsmiðlum. En ég held að mikið væri unnið ef allir reyndu að staldra við, íhuga hverju það skilar að ata einhvern auri og leyfa helst öðrum að njóta vafans.“

Þórdís segist áður hafa fengið líflátshótanir fyrir það eitt að búa til tónlist með rapphljómsveitinni Reykjavíkurdætur sem féll ekki að smekk sendenda.

Henni þykir það sérkennileg upplifun að reyna að hunsa öll þessi skilaboð og halda áfram með líf sitt. Þá veltir hún upp þeirri spurningu hvort það hafi verið rétt af henni að biðjast afsökunar á brandaranum:

„Einnig hef ég séð marga verja mig á samfélagsmiðlum með þeim orðum að ég hefði aldrei átt að biðjast afsökunar og mér hafi verið frjálst að hafa skoðanir á veðri, vindum og þessum bæjum. Að hluta til er það alveg rétt en það sem mér þykir skipta máli er að ég særði greinilega fólk án þess að gera mér í fyrstu grein fyrir því og það leið mér einfaldlega illa með. Ég vildi því gjarnan biðjast afsökunar og gerði það strax. Það olli mér vonbrigðum að sú afsökunarbeiðni var nánast hunsuð.“

Ljóst er að hremmingar undanfarinna daga hafa ekki rænt Þórdísi skopskyninu því hún segir að það sé talsverður skellur að verða þekkt fyrir mislukkað grín, þar sem húmor hennar sé allajafna góður. Hún segir einnig frá skemmtilegu atviki sem átti sér stað mitt í þessum samfélagsmiðlastormi. Pistill Þórdísar er afritaður í heild hér að neðan en einnig er tengill á færslu hennar neðst:

„Síðustu dagar hafa verið lærdómsríkir. Það er ótrúlega skrýtin tilfinning að lenda í hakkavél samfélagsmiðlanna og sjá ókunnugt fólk rífast um hvort að gjörðir mínar hafi verið réttar eða rangar. Á sama tíma höfum við í Lottu verið á þeysireið um landið að setja upp sýningar og ekki laust við að maður sé svolítið tættur.

Eins og komið hefur fram fékk ég mikið af ógeðslegum hótunum í kjölfar færslu á Instagram. Mig langar til þess að taka það sérstaklega fram að ég ber engan kala til samfélaganna á Kópaskeri og Raufharhöfn. Ég dæmi engan fyrir gjörðir einstaklinga sem þurfa greinilega hjálp. Það væri bæði heimskulegt og ósanngjarnt.

Ég held samt að þetta fáránlega mál geti samt kennt okkur margt um hvernig við hegðum okkur á samfélagsmiðlum. Fólk virðist dæla út skoðunum sínum og gagnrýni á einhverja einstaklinga án þess að hika, jafnvel þó að það viti ekki neitt um þann sem um ræðir eða í hvaða samhengi hlutir voru settir fram.

Af tveimur skjáskotum var skyndilega búið að úthrópa mig sem hrokafulla forréttindakonu (svo það sé kurteisislega orðað) og margt verra. Mér ofbauð sérstaklega þegar sveitarstjóri var farinn að stíga fram og saka mig um slíkt í viðtali við fjölmiðil.

Ég held að við séum öll sek um að dæma fólk á samfélagsmiðlum. En ég held að mikið væri unnið ef allir reyndu að staldra við, íhuga hverju það skilar að ata einhvern auri og leyfa helst öðrum að njóta vafans.

Þessi gagnrýnisstormur sem ég lenti í varð til þess að vanstilltir einstaklingar misstu stjórn á sér. Ég hef áður fengið svipaðar hótanir, aðallega útaf þeim glæp að búa til tónlist með Reykjavíkurdætrum sem fellur ekki að smekk þeirra.

Það er eiginlega hálfsúrealískt að vera kominn á þann stað að reyna bara að hunsa skilaboð sem þessi og halda áfram með mitt líf. Það þurfti því að benda mér á að þetta væri eitthvað sem yrði að stöðva og þessvegna ætla ég að leggja fram kæru. Ég brenn ekki af einhverjum hefndarþorsta gagnvart þessum einstaklingum. Ég vil að þeir fái alvarlegt tiltal og fræðslu svo að þessi hegðun þeirra þróist ekki út í eitthvað enn alvarlegra.

Einnig hef ég séð marga verja mig á samfélagsmiðlum með þeim orðum að ég hefði aldrei átt að biðjast afsökunar og mér hafi verið frjálst að hafa skoðanir á veðri, vindum og þessum bæjum. Að hluta til er það alveg rétt en það sem mér þykir skipta máli er að ég særði greinilega fólk án þess að gera mér í fyrstu grein fyrir því og það leið mér einfaldlega illa með. Ég vildi því gjarnan biðjast afsökunar og gerði það strax. Það olli mér vonbrigðum að sú afsökunarbeiðni var nánast hunsuð.

Ég tækla helst erfiðleika með húmor. Þótt ég segi sjálf frá þá er hann yfirleitt nokkuð góður og því er talsverður skellur að ég er að verða þekkt fyrir mislukkað grín. Það sama gildir ekki um skemmtilega konu sem kom með börnin sín og karlinn á Lottu-sýningu á meðan stormurinn var í hámarki.

Hún borgaði fyrir sig og börnin en benti svo á eiginmanninn og sagði: „Fær hann ekki frítt. Hann er frá Kópaskeri,“ sagði hún og skellihló.

Þetta atvik var ótrúlega skemmtilegt og mér þótti afar vænt um það. Gleymum því ekki gleðinni og hegðum okkur með ábyrgum hætti á samfélagsmiðlum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Kynferðisbrotamaður framseldur frá Íslandi – Dæmdur fyrir brot gegn barnungri stúlku í heimalandinu

Kynferðisbrotamaður framseldur frá Íslandi – Dæmdur fyrir brot gegn barnungri stúlku í heimalandinu
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Guðni rifjar upp samtal: „Við hlustuðum ekki frekar en fyrri daginn“ – Segir lýsingar Úlfars vera sláandi

Guðni rifjar upp samtal: „Við hlustuðum ekki frekar en fyrri daginn“ – Segir lýsingar Úlfars vera sláandi
Fréttir
Í gær

Verslingar verulega ósáttir við Guðmund Inga – „Við teljum þá hugsun bæði hættulega og ósanngjarna“

Verslingar verulega ósáttir við Guðmund Inga – „Við teljum þá hugsun bæði hættulega og ósanngjarna“
Fréttir
Í gær

Alfa brýnir okkur til að tilkynna til barnaverndar ef okkur grunar að barn verði fyrir ofbeldi

Alfa brýnir okkur til að tilkynna til barnaverndar ef okkur grunar að barn verði fyrir ofbeldi