Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær ríkið til að greiða Steinbergi Finnbogasyni eina og hálfa milljón í bætur vegna ólögmætrar handtöku og að hafa sætt gæsluvarðhaldi að ósekju í þrjá daga og sex klukkutíma. Í niðurstöðu dómsins er það tiltekið að í valdbeitingu lögreglu gegn Steinbergi hafi falist ólögmæt meingerð í hans garð.
Forsaga málsins er sú að í febrúar 2016 var Steinbergur handtekinn á skrifstofu héraðssaksóknara þangað sem hann hafði verið boðaður í skýrslutöku. Var honum þá tilkynnt að hann hefði stöðu sakbornings í því sama máli og hann var áður verjandi sakborninga. Af skrifstofu héraðssaksóknara var Steinbergur svo fluttur á lögmannsstofu sína þar sem lögreglumenn framkvæmdu húsleit á skrifstofu Steinbergs. Var Steinbergur, samkvæmt niðurstöðu dómsins, þar látinn sæta handjárnun á meðan húsleit á lögmannsstofu hans fór fram, og var hann leystur úr handjárnunum að þeirri leit lokinni. Þá var farið með Steinberg á heimili hans og eiginkonu þar sem önnur húsleit fór fram. Að þeirri leit lokinni var farið með Steinberg í fangaklefa þar sem hann dvaldi í eina nótt, og svo í einangrunarvist í tvær nætur til „við lélegar aðstæður í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg.“ Í heild var Steinbergur í haldi í þrjá daga og sex klukkutíma, sem fyrr segir.
Athygli vekur að við aðalmeðferð málsins komu fram andstæður í framburði lögreglumanna sem fluttu Steinberg á milli staða hins vegar, og framburði Steinbergs sjálfs annars vegar. Steinbergur sagðist hafa verið járnaður, en lögreglumenn segja svo hafi ekki verið.
Í fyrri umferð aðalmeðferðar komu tveir lögreglumenn fyrir dóm sem vitni og sögðu Steinberg aldrei hafa verið settan í handjárn. Kom þar fram ágreiningur um þessa meintu valdbeitingu lögreglunnar. Steinbergur sagðist sjálfur hafa þurft að dúsa í handjárnum allt frá handtöku á skrifstofu héraðssaksóknara og þar til leit á skrifstofu hans var lokið.
Í ljósi ágreiningsins var fallist á þá leið að leiða alla lögreglumenn sem að handtókunni og húsleitinni komu í vitnastúku. Sagði einn málkunnugur viðmælandi DV að það hefði verið „heil hersing leidd í vitnastúkuna, allt að átta lögreglumenn.“ Aðspurðir hvort Steinbergur hafi verið handjárnaður sögðu lögreglumennirnir ýmist afdráttarlaust nei, vísuðu í skýrslur sínar um málið eða sögðust ekkert muna.
Hvergi er þess getið í lögregluskýrslum að Steinbergur hafi verið handjárnaður, að því er segir í dómnum.
Fyrir dóm komu svo tvö vitni að húsleitinni á lögmannsstofunni. Lýstu vitnin framkvæmd húsleitarinnar og sögðu Steinberg hafa verið handjárnaðan á meðan henni stóð. Gátu vitnin gefið mjög greinargóða lýsingu á ástandi Steinbergs og sögðu hann hafa verið handjárnaðan. Tóku þær því undir frásögn Steinbergs.
Svo fór að dómurinn mat framburð kvennanna tveggja trúverðugari en framburð fjölda lögreglumanna og lögregluskýrslu. Í niðurstöðu dómsins segir:
Hvað varðar þá framkvæmd á handtöku stefnanda, þá er af hans hálfu sérstaklega vísað til þess að hann hafi verið færður í handjárn þá þegar við handtökuna á starfstöð héraðssaksóknara og hafður í þeim á meðan á húsleit stóð á starfsstöð hans, þar sem hann hafi síðan verið leystur úr handjárnum. Bar stefnandi sjálfur um þetta fyrir dómi en jafnframt komu tvö vitni fyrir dóminn sem kváðust hafa séð stefnanda í handjárnum á starfsstöð hans. Verður í ljósi framangreinds, og þrátt fyrir að handtökuskýrsla greini ekki frá þeirri valdbeitningu, að ganga út frá því að stefnandi hafi þá verið fluttur í handjárnum á starfsstöð sína þar sem húsleit fór fram.
Í niðurstöðu dómsins má enn fremur lesa að mistök hafi verið gerð við ritun handtökuskýrslna og að það sé mat dómsins að Steinbergur hafi vissulega verið handjárnaður:
Verður að átelja þau mistök af hálfu lögreglu að þessa hafi ekki verið getið í handtökuskýrslu og að engar skýringar skuli nú liggja fyrir um nauðsyn til þess að stefnandi sætti svo íþyngjandi valdbeitingu aðrar en þær að slíkt sé stundum talið nauðsyn við flutning handtekinna manna, án þess að það hafi verið rökstutt í greint sinn. Verður því að fallast á það með stefnanda að notkun handjárna hafi eins og á stóð verið óþarflega meiðandi fyrir stefnanda, og sú óútskýrða framkvæmd hafi verið til þess fallin að auka á miska hans, en í framburði lögreglumanna fyrir dómi kom fram að það úrræði væri sjaldgæft í slíkum aðstæðum.
Afar athyglivert þykir að dómurinn hafi tekið svo afdráttarlausa afstöðu gegn vitnisburði svo margra lögreglumanna auk lögregluskýrslu og ljóst að í niðurstöðu dómsins fellst véfenging á vitnisburði lögreglumannanna fyrir dómi og trúverðugleika lögregluskýrsla sem þeir skrifa. Þess má geta að í 142. gr. hegningarlaga stendur:
Hver, sem skýrir rangt frá einhverju fyrir rétti eða stjórnvaldi, sem hefur heimild til heitfestingar, skal sæta fangelsi allt að 4 árum. Hafi skýrsla verið heitfest skal virða það refsingu til þyngingar.
Aðspurt um viðbrögð við dómnum vísaði embætti héraðssaksóknara á skrifstofu ríkislögmanns. Ekki náðist í Guðrúnu Sesselju Arnardóttur, verjanda ríkisins í máli Steinbergs, né nokkurn annan hjá skrifstofu ríkislögmanns. Símtölum til ríkislögmanns er beint annað vegna sumarleyfa og fyrirspurnum DV í tölvupósti var ekki svarað.