Tveir starfsmenn Lögreglunnar á Suðurnesjum hafa kvartað til fagráðs lögreglu vegna eineltis á vinnustaðnum. Þetta kemur fram í kvöldfréttum RÚV, en málið er nú á borði dómsmálaráðuneytisins.
Umræddir Starfsmenn eiga að hafa leitað til fagráðs lögreglunnar fyrir um mánuði. Þeir eiga að hafa kvartað yfir tveimur yfirmönnum, sem nú eru í veikindaleyfi.
Samkvæmt RÚV er annar einstaklingana sem kvartað var yfir Alda Hrönn Jóhannsdóttir, sem er yfirlögfræðingur hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Hún er hvað þekktust fyrir að hafa verið í stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á LÖKE-málinu árið 2016. Málið var látið niður falla.
Auk þess hefur uppsögn fulltrúa hjá embættinu frá því í fyrra verið metin ólögmæt. Uppsögnin var á sviði sem að Alda Hrönn stýrir. Ríkið hefur viðurkennt bótaskyldu vegna uppsagnarinnar.