fbpx
Fimmtudagur 24.apríl 2025
Fréttir

Flugfreyjur líklegar til að samþykkja samning í skugga tortryggni og efasemda

Heimir Hannesson
Mánudaginn 20. júlí 2020 15:34

mynd/Pjetur Sigurðsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allar líkur eru á að nýr samningur Icelandair við Flugfreyjufélag Íslands verði samþykktur í yfirstandandi atkvæðagreiðslu félagsmanna Flugfreyjufélagsins. Atkvæðagreiðsla hófst í dag í kjölfar kynningarfundar um efnisleg atriði samningsins, og stendur yfir til 27. júlí. Icelandair sagði sem kunnugt er upp öllum flugfreyjum og óskaði ekki eftir frekari vinnuframlagi þeirra eftir að þær felldu samninginn.

Vísir greindi frá því í gær að Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hafi ekki viljað greina frá því hvort flugfreyjunum yrði sagt upp aftur, færi svo að þær felldu samninginn. Samkvæmt heimildamanni DV eru þessi orð veigamikil í ákvarðanatöku flugfreyja sem kjósa nú um kjarasamninginn. „Þær hafa engan annan kost en að samþykkja þetta, þó það verði súr biti að kyngja,“ sagði einn viðmælandi DV.

Rímar það við aðra viðmælendur sem standa nú frammi fyrir vali milli þess að samþykkja samninginn eða missa vinnuna endanlega og freista þess að endurráða sig á grundvelli kjarasamnings við annað flugfélag.

Titringur, úlfúð og tortryggni í háloftunum

DV sagði frá því fyrr í dag að það andaði köldu á milli flugmanna og flugfreyja um þessar mundir af ýmsum ástæðum. Samkvæmt heimildamönnum DV er það vægt til orða tekið og segja þeir algjört alkul ríkja. Algjör vinslit hafi orðið á milli fjölda fólks í stéttunum tveimur og ljóst að það mun taka langan tíma fyrir sárin að gróa. Þar með sé þó ekki öll sagan sögð, því flugfreyjur og flugmenn eru í mörgum tilfellum meira en bara samstarfsfólk. Hjónaband flugmanna og flugfreyja séu algeng og gætir nú tortryggni meðal flugfreyja gagnvart þeim flugfreyjum sem giftar eru flugmönnum.

Enn fremur ganga nú sögusagnir um að Icelandair hafi haft samband við hóp af yngri flugfreyjum með stuttan starfsaldur hjá Icelandair í von um þær væru „tilbúnar í slaginn“ kæmi til þess að nýtt félag yrði stofnað eða nýr kjarasamningur flugfreyja gerður við Íslenska flugrekstrarfélagið, sem er „hitt“ stéttarfélag flugfreyja á landinu. Þó sögusagnirnar séu óstaðfestar, þykja sögusagnirnar sjálfar vera til vitnis um tortryggnina og vantraustið sem nú er uppi á milli flugfreyja, flugmanna og Icelandair.

Flugmenn svöruðu kallinu

Í kjölfar uppsagna Icelandair í síðustu viku sendi félagið póst á alla flugmenn sína og óskaði eftir að þeir skráðu sig á upprifjunarnámskeið til að gerast öryggisfulltrúar um borð í vélum Icelandair. Í því bréfi biðlaði Ásgeir Gunnar Stefánsson, aðstoðaryfirflugstjóri félagsins til flugmanna og sagði:

Í ljósi yfirstandandi viðræðna milli um áframhaldandi samstarf Icelandair og áhafnar í farþegarými og tilkynningar Icelandair í dag þurfa allir að vera á tánum [on high alert] til að tryggja gott samstarf áhafnameðlima um borð í flugvélum Icelandair, þrátt fyrir skiptar skoðanir. Þetta er sérstaklega mikilvægt öryggi um borð í flugvélum. Við biðjum alla flugstjóra um að gera þetta að umfjöllunarefni á áhafnafundum sínum fyrir flug. [Tölvupóstur var sendur á ensku, hér birtur í íslenskri þýðingu blaðamanns].

Þeir flugmenn sem svöruðu kallinu voru úthrópaðir mannleysur á lokuðum Facebook hópi flugfreyja og nafnbirtir.

Sjá nánar hér: Flugfreyjur reiðar flugmönnum – „Þetta eru mannleysurnar sem við köllum samstarfsfélaga okkar“

Icelandair reynir að lægja öldurnar

Icelandair er nú sagt róa öllum árum að því að lægja þessar öldur og koma rekstrinum sínum í samt horf. Er það sagt næsta „stóra verkefni“ stjórnenda félagsins. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair er nú unnið með virkum hætti að því að tryggja góðan starfsanda hjá félaginu. Aðstæður hafa „reynt á,“ en félagið stóli nú á að endurvekja góðan starfsanda. „Þrátt fyrir að tímabundið ójafnvægi milli hópa skapist þá á starfsmannahópurinn sér langa sögu um gott samstarf. Stjórnendur félagsins hafa trú á því að starfsfólk taki höndum saman, enda ærin verkefni framundan.“

Ennfremur hefur DV eftir fulltrúa Icelandair, að gott samstarf áhafnarmeðlima sé ein stoð flugöryggis. Samskipti verða að vera góð til að réttar upplýsingar komist manna á milli. Miði þjálfun áhafna meðal annars að því að tryggja rétt viðhorf í samskiptum og reglulega er minnt á mikilvægi þess.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Kynferðisbrotamaður framseldur frá Íslandi – Dæmdur fyrir brot gegn barnungri stúlku í heimalandinu

Kynferðisbrotamaður framseldur frá Íslandi – Dæmdur fyrir brot gegn barnungri stúlku í heimalandinu
Fréttir
Í gær

Guðni rifjar upp samtal: „Við hlustuðum ekki frekar en fyrri daginn“ – Segir lýsingar Úlfars vera sláandi

Guðni rifjar upp samtal: „Við hlustuðum ekki frekar en fyrri daginn“ – Segir lýsingar Úlfars vera sláandi
Fréttir
Í gær

„Það er líka hugrekki í því fólgið að viðurkenna veikleika sína og sleppa“

„Það er líka hugrekki í því fólgið að viðurkenna veikleika sína og sleppa“
Fréttir
Í gær

Halla biðst afsökunar á samúðarkveðjufíaskóinu – „Ég get ekki lofað ykkur því að ég geri ekki fleiri mistök“

Halla biðst afsökunar á samúðarkveðjufíaskóinu – „Ég get ekki lofað ykkur því að ég geri ekki fleiri mistök“