fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fréttir

Gasljóstrun: Sálarmorð með litlum líkum á sakfellingu

Tobba Marinósdóttir
Sunnudaginn 19. júlí 2020 11:00

mynd/getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gasljóstrun er mjög alvarlegt andlegt ofbeldi þar sem ráðskast er með skynjun þolandans á þann hátt að hinn síðarnefndi fer að efast um skynjun sína, minni og jafnvel geðheilsu.

Hugtakið „gasljós“ kemur upphaflega frá breska leikritinu Gas Light (1938) en þekktari er þó kvikmyndin sem gerð var eftir leikritinu og skartar Ingrid Bergman í aðalhlutverki. Kvikmyndin fjallar um eiginmann sem beitir konu sína vísvitandi blekkingum með því að dempa reglulega gasljós í húsi þeirra hjóna sem hann neitar svo að hafa gert. Markmiðið er fá hana til að efast um skynjanir sínar, minni og geðheilsu. Gasljós er því skírskotun í mjög alvarlegt tilfinningalegt og andlegt ofbeldi og af því tagi sem einstaklingar sem gjarnan eru með narsísíska persónuleikaröskun beita.

Gasljóstrun hefur verið vinsælt umfjöllunarefni í kvikmyndum og bókum á borð við Girl on the train. Ætla má að sálfræðifléttan sem er oft á köflum mjög ótrúleg, sem er einmitt inntak ofbeldisins, þyki svo ævintýraleg að það sé efni í skáldskap. Lýsa þolendur atburðarásinni gjarnan sem „lygilegri“, svo úthugsuð og galin sé hún.

Flestir hafa einhvern tíma á lífsleiðinni mætt svo kröftugum andmælum að þeir fara að efast um eigið ágæti og upplifun. Til að byrja með eru ásakanirnar ekki endilega djúpstæðar eða með neinn sjáanlegan tilgang.

Jú ég setti bíllykilinn víst á borðið þegar ég fór. Eða hvað? Gerði ég það ekki?

Það er kraftur andmælanna og lengd og viðvera ásakananna sem fá flesta til að efast. En hvað er til ráða og hvenær er ástandið orðið sjúklegt?

„Stærsta og algengasta birting gasljóstrunar er að ofbeldismenn kenna alltaf brotaþolanum um ofbeldið sem viðkomandi verður fyrir,“ segir Jenný Kristín Valberg, ráðgjafi hjá Kvennaathvarfinu. Jenný bjó sjálf við alvarlegt ofbeldi í 13 ár og hefur verið ötull talsmaður gegn ofbeldi. Hún skrifaði meistararitgerð í kynjafræði 2019 um upplifun kvenna af íslenskum og erlendum uppruna sem fara úr ofbeldissamböndum.

Réttlæting ofbeldismannsins

Orðræðan „ég þarf að gera þetta við þig vegna þess að þú gerðir þetta og hitt,“ fylgir gjarnan á eftir þar sem leitast er við að réttlæta gjörðir þess er beitir ofbeldinu.

Í kjölfarið eru skapaðar aðstæður þar sem brotaþoli nær ekki að koma sínum sjónarmiðum á framfæri né ögra stöðu ofbeldismannsins, að sögn Jennýjar.

„Ef þetta er alltaf þér að kenna er brotaþoli orðinn fullur af skömm og sektarkennd og brotnar niður undan álaginu sem fylgir því að gera aldrei neitt rétt. Þá upplifir hann sig einskis virði. Viðkomandi verður týndur og það verður lítið eftir af sjálfsmyndinni og brotaþoli fer jafnvel að raða markmiðum og vilja ofbeldismanns ofar sinni eigin velferð. Með mikilli gasljóstrun missir brotaþoli getuna með tímanum til að bregðast við og ná sjálfstæði sínu til baka. “

Allir á heimilinu undir

Hún segir að gasljóstrun sé ekki kynbundin í sjálfu sér en slíkt andlegt ofbeldi sé algengur undanfari annars konar ofbeldis. „Þetta er algengt form á ofbeldi í mjög nánum samböndum þar sem oft er um kynbundið ofbeldi að ræða. Það er búið að grafa undan því að þú getir tjáð þína upplifun á atburðum og innræta þér að það þurfi að öskra, berja í veggi eða þaðan af verra af því að brotaþoli bregst ekki rétt við óskum ofbeldismannsins.“

Ofbeldið nær almennt til allra á heimilinu.  „Yfirleitt eru það allir á heimilinu sem eru undir. Ofbeldismaðurinn líður bara ákveðna hegðun og vill fá ákveðna svörun frá heimilisfólkinu.“

Kvikmyndir og bækur hjálpa

Aðspurð um hvort vinsælar kvikmyndir og bækur þar sem ofbeldi er til umræðu skili einhverju til brotaþola segir hún svo vera. „Öll aukin umræða er upplýsandi. Fyrir einstakling sem hefur verið einangraður eins og gerist mjög oft í ofbeldissamböndum þá er oft aðgengi af afþreyingarefni og fréttamiðlum. Það er kannski helsta tengingin við samfélagið því það er hugsanlega búið að loka á heimsóknir og vinasambönd. Öll umræða skilar sér. Við finnum það ef það er eitthvað sem rís hátt í umræðunni að fleiri leita til okkar.“

Sá sem býr við ofbeldið finnur fyrir samsvörun og áttar sig á því að það sé verið að lýsa kunnuglegum aðstæðum.

Þú ert svo mikil tepra

Brotaþolar átta sig oft síðast á því að verið sé að beita þær kynferðisofbeldi í nánu sambandi að sögn Jennýjar. Almennt sé auðveldara að samsvara sér við andlegt, líkamlegt og fjárhagslegt ofbeldi því það sé meira í  umræðunni en kynferðislegt ofbeldi á heimilinu og það sé því oft síðasta vígið til að falla. Það sé oft verið að reyna að halda í nándina og að sú hlið sambandsins sé þó í lagi. „Það er gríðarlega mikið um kynferðislegt ofbeldi í nánum samböndum. Orðræða á borð við þú ert svo mikil tepra er ætluð til þess að þrýsta á að látið sé undan vilja þess sem beitir ofbeldinu. Mörkin eru alltaf færð lengra og lengra með klám og kynlífsvæðingunni. Hvað telst eðlilegt er ekki lengur svo ljóst. Allt það sem þér líður vel með og ert róleg með er eðlilegt. Allt annað sem er verið að nuða, suða og pressa og hvetja þig til að gera umfram það sem þér líður vel með og ert róleg með, er kynferðislegt ofbeldi.“

Jenný segir þetta vera algengt sérstaklega hjá ungum konum og algengt er að ofbeldismaðurinn hóti að hætta með þeim því þær séu svo miklar teprur. Þannig séu mörkin sífellt færð lengra. Veruleikinn sé sá að það er mjög alvarlegt að verða fyrir kynferðisofbeldi í nánum samböndum.

Erfitt að sækja rétt sinn

„Mín reynsla er sú að ef þú situr uppi með andlegt og fjárhagslegt ofbeldi, að það er ekki mikið af þeim málum að fara fyrir dóm. Það er erfitt að sækja rétt sinn þegar þú hefur ekki lögregluskýrslu og/ eða áverkavottorð sem styður framburð þinn. Það hefur þó ýmislegt breyst sem betur fer. Ekki fyrir svo löngu síðan var almenna reglan að brotaþoli þurfti að mæta í sáttarmeðferð til sýslumanns með ofbeldismanninum. Það er ekki lengur svo,“ segir Jenný.

Hún segir fjölda kvenna sitja eftir með engar eignir og jafnvel skuldum vafnar. Þeirra helsta hugsun sé oft að forða sér og börnum sínum úr þeim hörmulegu aðstæðum sem þau eru í.

Í meistararannsókn Jennýar ræddi hún við tíu konur sem fóru úr ofbeldissamböndum. „Eitt mál fór í opinber skipti og það tók þrjú ár og tók nánast síðasta andardrátt konunnar því þetta reyndi svo á. Engin hinna kvennanna kom vel út fjárhagslega. Mjög margar treystu sér ekki í að fara í hart með fjárskipti og margar þeirra reyna að gefa eftir í eignaskiptum í von um betra gengi í umgengnis- og forræðismálum.“

Þegar farið er fyrir dóm þarf að vera hægt að sýna að báðir aðilar geti boðið upp á sambærilegar aðstæður sem er erfitt ef annar aðilinn situr á eignunum og neitar að ganga frá fjárskiptum. „Það er ekkert í lögunum okkar sem segir að báðir aðilar eigi að víkja og eignin sé fryst þangað til að fjárskiptum er lokið. Þetta tekur svo langan tíma að margar konur gefast bara upp og gefa allt frá sér.“

Brjóta ítrekað á nýjum konum

Jenný segir dæmi þess að til þeirra leiti konur sem hafi lent í sama ofbeldismanninum og erfitt sé fyrir þær að vara við slíkum aðilum sé engin kæra eða dómur í kerfinu. „Tölur um komur kvenna í athvarfið segja okkur að hér á landi séu margir ofbeldismenn en það eru alveg dæmi um að það er að koma kona eftir konu, að flýja sama ofbeldismanninn. Þeim er ekki lagalega stætt á að nafngreina opinberlega menn ef þeir hafa ekki verið ákærðir.“ Jenný segir það einnig oft vera valdatæki ofbeldismanna að kæra til baka.

Við heimildaöflun um gasljóstrun koma orðin siðblinda og narsissismi oft upp. Jenný segir að engin markviss greining sé í gangi á þessum mönnum og því sé erfitt að flokka þá en það sé rauði þráðurinn að sá sem beitir ofbeldi virðist skorta samkennd og getu til að setja sig í spor annarra.

Brotaþolinn tók eigið líf

DV hefur undir höndum átakanlega upptöku samtals tveggja kvenna þar sem ein konan sannfærir hina um að falla frá ákæru á hendur sambýlismanns síns. Þar eru því „vinkona“ konunnar og konan að tala saman og ljóst að „vinkonan“ rekur þar erindi mannsins sem beitt hafði konuna grófu ofbeldi. Á upptökunni beitir „vinkonan“ öllum þeim aðferðum til gasljóstrunar sem lýst er hér að ofan.

Á upptökunni segist konan ekki ráða við þetta lengur og muni fremja sjálfsmorð. „Vinkonan“ gerði lítið úr þessum orðum konunnar og skipti snarlega um umræðuefni. Spjalla þær svo áfram og er ljóst á samtalinu að bæði er mikill aðstöðumunur og allt sem „vinkonan“ segi miði markvisst að því að brjóta konuna niður og fá hana um að efast um réttmæti þess sem hún er að gera, þ.e. að kæra eiginmann sinn. Konan batt skömmu síðar endi á líf sitt.

Lagalegur vítahringur

Af samtölum við lögfróða karla og konur er ljóst að málaflokkur andlegs ofbeldis á sér hvergi samastað í íslenskum lögum. Aðspurðir sögðu allir viðmælendur DV að erfitt væri að heimfæra andlegt ofbeldi á refsiákvæði í almennum hegningarlögum. Ljóst sé að saksókn vegna málaflokksins er erfið og saksóknarar bundnir þeirri reglu að hefja ekki saksókn nema hún sé líkleg til þess að leiða til sakfellingar. Málin þykja ólíkleg til sakfellingar þar sem fá dómafordæmi eru til um heimfæringu andlegs ofbeldis á ákvæði hegningarlaga sem fjalla um ofbeldi, hótun þar um, beitingu nauðungar eða brot í nánu sambandi.  Þar sem dómafordæmi skortir verða saksóknir fátíðari, sem eykur enn fæð dómafordæmanna. Þannig verður til viss vítahringur aðgerðaleysis í dómskerfinu.

Þennan vítahring má hugsanlega líkja við þann sem var uppi í tengslum við lagalega stöðu brota í nánu sambandi. Þau skilaboð sem send voru árum saman út til brotaþola af réttarkerfinu voru þau að ógjörningur væri að sakfella fyrir slík brot, enda brotin þess eðlis að sjaldgæft var að vitni væru að verknaðinum og sönnunarfærsla fyrir dómi því bara orð á móti orði. Þessi lagalegi vítahringur var ekki rofinn fyrr en með breytingum á lögum árið 2016 þegar sérstök grein í hegningarlögum tók gildi um brot í nánu sambandi. Langt er þó til lands segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins. „Afar sjaldgæft er að dómur falli í málum sem þessum. Hafi brotaþolar kært á annað borð er undantekning að dómur falli í málinu.“

Undantekning ef andlegt ofbeldi fer fyrir dóm

Sigþrúður segir að staða þolenda andlegs ofbeldis sé enn viðkvæmari í réttarkerfinu og dæmi um að þolendur þess upplifi ofbeldið sem þær voru beittar sem léttvægara en líkamlega ofbeldið. Þó er það þannig, segir Sigþrúður, að algengt sé að afleiðingar andlegs ofbeldis vari lengur en hins líkamlega. „Líkaminn grær og marblettir hverfa, en hið andlega situr eftir á sálinni, sjálfsmyndinni og hangir hjá konunni lengur,“ segir Sigþrúður.

Jón Þór Ólason, lögmaður og lektor í refsirétti við Háskóla Íslands segir að dómstólar hafi vissulega ekki tekið til umfjöllunar mörg tilvik af andlegu ofbeldi. Þó séu þeir farnir að taka mun meiri tillit til andlegrar líðanar fórnarlamba ofbeldisbrota og andlegt tjón þeirra metið til refsiþyngingar og bóta af meiri þunga. Þannig hafi andleg líðan brotaþola hlotið aukna refsivernd en áður. Enn fremur hafa dómstólar tekið víðari heimfærslur saksókna á refsiákvæði til greina. Þannig hafa brotum sem eru heimfæranleg á tiltekin ákvæði hegningarlaga fjölgað. „Dómarar eru að ganga lengra til að vernda persónuhelgi, friðhelgi einkalífsins og kynfrelsi,“ segir Jón Þór. Bendir hann enn fremur á að engum kafla hafi verið breytt jafn oft á undanförnum árum í hegningarlögum en kaflanum um kynferðisbrot. Jón Þór segir að heilt yfir sé sönnun erfið í málum tengdum andlegu ofbeldi. Samt sem áður hafa verið stigin stór skref í rétta átt á undanförnum árum með stofnun neyðarmóttöku kvenna og barnahúss og óskandi að sú góða vinna haldi áfram. „Vissulega þarf meira til í þessum málum.“

DV bendir á að leiki minnsti vafa á að þær séu beittar ofbeldi má hringja í Kvennaathvarfið í síma 561 1205. Kvennaathvarfið tekur einnig á móti símtölum frá karlmönnum og hefur veitt viðtöl í Bjarkarhlíð en Bjarkarhlíð tekur á móti fólki af öllum kynjum 18 ára og eldri.

Þessi frétt birtist fyrst í nýjasta helgarblaði DV. Fyrir frekar upplýsingar um áskrift að DV má senda póst á askrift@dv.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Guðmunda þekkir það vel að vera aftast í röðinni og gleymast – „Ég lifi það ekki af að bíða svo lengi, henni varð á að hlæja“

Guðmunda þekkir það vel að vera aftast í röðinni og gleymast – „Ég lifi það ekki af að bíða svo lengi, henni varð á að hlæja“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“
Fréttir
Í gær

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum
Fréttir
Í gær

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?
Fréttir
Í gær

Læti í Loðmundarfirði vegna friðlýsingar – „Það eru persónulegar erjur manna á milli“

Læti í Loðmundarfirði vegna friðlýsingar – „Það eru persónulegar erjur manna á milli“
Fréttir
Í gær

Rútuslys á Hellisheiði

Rútuslys á Hellisheiði
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi