„Ég byrjaði að tala um þetta vegna þess að ég hef verið í tölvuleikjum mest allt lífið og áreitnin sem ég verð fyrir frá sumum strákum þegar ég spila er svo ógeðsleg að ég hef fengið nóg,“ segir Jana en hún á karlkyns vini sem spila líka og þeir fá ekki sama ógeð yfir sig og hún.
„Þó að strákar fái líka skít frá öðrum leikmönnum þegar þeir spila tölvuleiki á netinu og það séu oft sagðir ógeðslegir hlutir við þá fá þeir ekki kynferðislega áreitni og það er ekki ráðist á þá á sama hátt. Svo er mér mikið kennt um ef liðið mitt tapar leikjum bara vegna þess að ég er stelpa.“
Umræðurnar sem mynduðust undir deilingunni í Facebook-hópnum voru gríðarlega miklar en þegar þetta er skrifað eru komnar tæplega 300 athugasemdir. Þessar athugasemdir eru jafn mismunandi og þær eru margar en margir hrósuðu Jönu fyrir að opna á umræður um vandamálið. Þó voru einnig einstaklingar sem sögðu Jönu að meðal annars „hætta að væla“ og að „svona sé þetta bara“.
Einn strákur virðist ekki sjá vandamálið. „Hættu þessu helvítis væli, það lenda allir í eitthver skonar áreiti á netinu,“ sagði hann. Annar kemur síðan með athugasemd sem fær dræmar undirtektir í hópnum. „Fæ stundum bara of mikið blóð í drjólann og ræð ekki við mig, þessir sem eru að áreita eru líklegast flestir með sama vandamálið.“ Stelpa nokkur svarar honum og spyr hvort hann fatti ekki hvað þetta er ógeðsleg athugasemd. „Hljómar eins og eitthvað sem nauðgarar segja.“
Þá segir annar strákur að þetta sé ekki kynbundið vandamál. „Ég get lofað ykkur öllum hér og nú að svona 98% af þessum gaurum, sem að eru með leiðindi við þessa stelpu eru alveg jafn ógeðslegir við aðra menn í tölvuleikjum líka. Það að þú sért stelpa gefur honum bara ákveðin skotfæri, en værir þú gaur myndi hann bara hlaða kjaftinn á sér með öðrum skotfærum,“ segir Gretar.
Hann segir þó að það geri hegðunina ekki ásættanlega. „En þetta er ekki kynbundið vandamál og er ekki vandamál sem að verður leyst á meðan þessir tölvuleikir seljast í milljónatali þrátt fyrir alla umræðuna. Ég þróaði mér þykkt skinn, og einfaldlega mute-a þá allra verstu ef þeir eru constantly á mic-num. Ef þetta grey er síðan að reyna að gefa mér callout þá er það eiginlega bara too bad, hann fórnaði réttinum til að tjá sig við mig með hegðun sinni, og score-ið okkar fær þá bara að þjást fyrir það. Ég mæli með að aðrir geri það sama eða svipað ef að ætlunin er að spila multiplayer á næstunni.“