fbpx
Föstudagur 25.apríl 2025
Fréttir

Vilhjálmur Bjarnason: Smámenni innheimta smálán

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 17. júlí 2020 11:00

Vilhjálmur Bjarnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að setja ný lög til höfuðs smálánafyrirtækjum er álíka gagnlegt og áfengisbannið snemma á síðustu öld. Meira vit væri í að láta á það reyna hvort starfsemi smálánafyrirtækja standist lög í dag.

Þetta er kjarninn í grein sem Vilhjálmur Bjarnason viðskiptafræðingur og fyrrverandi þingmaður birtir í Morgunblaðinu í dag. Þar tiltekur hann greinar í samningalögum og hegningarlögum sem gefa til kynna að smálánastarfsemi gæti verið ólögleg, en þessar greinar taka til neyðar og báginda. Í samningalögunum segir:

„Hafi nokkur maður notað sér bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu eða léttúð eða það, að hann var honum háður, til þess að afla sér hagsmuna eða áskilja sér þá þannig að bersýnilegur mismunur sé á hagsmunum þessum og endurgjaldi því er fyrir þá kom eða skyldi koma, eða hagsmunir þessir skyldu veittir án endurgjalds, skal gerningur sá, er þannig er til kominn, ógildur gagnvart þeim aðila er á var hallað með honum.“

Í hegningarlögunum segir um þetta:

„Hafi maður notað sér bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu eða það, að hann var honum háður, til þess að afla sér með löggerningi hagsmuna eða áskilja sér þá, þannig að bersýnilegur munur sé á hagsmunum þessum og endurgjaldi því, sem fyrir þá koma eða skyldi koma, eða hagsmunir þessir skyldu veittir án endurgjalds, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum.“

Vilhjálmur segir einfalt að fylgja því eftir hvort fyrirtæki nýti sér neyð og bágindi í lánaviðskiptum: „Slík fjármálafyrirtæki eru eftirlitsskyld, lúta eftirliti fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Neytendastofa hefur einnig eftirlitshlutverk.“

Þá segir Vilhjálmur afar vafasamt að birta nöfn þeirra sem lenda í vanskilum með smálán í vanskilaskrá Creditinfo:

„Það að færa vanskil þessara krafna í miðlæga vanskilaskrá hjá Creditinfo er mjög vafasamt þar sem ekki hefur verið dæmt um lögmæti slíkra krafna. Það að Creditinfo taki við kröfum, sem lýstar eru í vanskilum frá hinum og þessum er meira lagi vafasamt. Það er einnig áhyggjuefni og enn vafasamara ef Creditinfo hefur starfsleyfi á grundvelli löggjafar sem er úr gildi fallin. Hvar er Persónuvernd nú?“

Lagafrumvarp til ills

Samfylkingin hefur lagt fram frumvarp til laga um starfsemi smálánafyrirtækja. Vilhjálmur telur það ekki vera til góðs, mun vænlegra væri að láta reyna á hvort starfsemin standist núverandi lög. Lagasetning um smálánafyrirtæki myndi efla starfsemina fremur en hitt:

„Gjörvöll Samfylkingin hefur lagt fram frumvarp til laga „um starfsemi smálánafyrirtækja“. Lagasetning af þessu tagi væri sennilega hið versta vopn til varnar þeim sem lenda í þeirri ógæfu að lenda í klóm smálánafyrirtækja. Og tilraun til góðverka til þess eins að vernda óhæfuverk.

Á það hefur verið bent að lagalegur grunnur þessarar lánastarfsemi er mjög veikur. Smálánafyrirtæki virðast ekki innheimta með lögsókn og lýsa vart kröfum í þrotabú. Umboðsmaður skuldara virðist aðeins taka tillit til höfuðstóls smálána.

Löggjöf eflir aðeins þessa tegund lánastarfsemi, smálánafyrirtækjum til góða.“

Hefur lítið álit á lögmönnum sem stunda innheimtu smálána

DV ræddi við Vilhjálm og Ásmund Friðriksson þingmann um smálánastarfsemi þann 5. júlí. Vilhjálmur sagði þá að ættingaj viðhéldu starfseminni með því að greiða upp skuldir lántaka við smálánafyrirtækin. Það sé rangt því líklega standist kröfurnar ekki fyrir á dómi. Á þá reyni hins vegar aldrei því smálánafyrirtækin virðist aldrei sækja mál fyrir dómi. Vilhjálmur fer einnig yfir þetta í Moggagreininni. Hann segir ennfremur að líklega myndi bara standast innheimta á höfuðstóli skuldarinnar fyrir dómi.

Vilhjálmur lýsir jafnframt yfir litlu áliti sínu á lögmönnum sem stunda smálánastarfsemi. Í viðtalinu við DV sagði hann:  „Menn sem eru löglærðir en stunda bara innheimtu – það er ekki hátt ris á þessari lögfræði.“

Í greininni í Morgunblaðinu kallar hann slíka lögmenn „lögsmámenni“ og segir: „Lögmaður sem einungis stunda innheimtu er ómerkur lögmaður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Tvö kaffihús Starbucks opna í miðbæ Reykjavíkur

Tvö kaffihús Starbucks opna í miðbæ Reykjavíkur
Fréttir
Í gær

Lögregla varar við svikum – „Textinn er áhugaverður svo ekki sé meira sagt“

Lögregla varar við svikum – „Textinn er áhugaverður svo ekki sé meira sagt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Það er líka hugrekki í því fólgið að viðurkenna veikleika sína og sleppa“

„Það er líka hugrekki í því fólgið að viðurkenna veikleika sína og sleppa“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Halla biðst afsökunar á samúðarkveðjufíaskóinu – „Ég get ekki lofað ykkur því að ég geri ekki fleiri mistök“

Halla biðst afsökunar á samúðarkveðjufíaskóinu – „Ég get ekki lofað ykkur því að ég geri ekki fleiri mistök“