„Ég er ekki að fara að hætta þessu,“ segir Ólafur Stefánsson, fyrrverandi handboltamaður, í upphafi pistils sem hann birti á Facebook-síðu sinni í dag. „Nobody cries for an unborn child,“ segir Óli og veltir því fyrir sér hvers vegna börn hér á landi læri ekki það sem þau hafa áhuga á.
„Enginn er að pæla í því að grunnskólabörnin okkar eru, frá kl 8-14, alla virka daga, EKKI að læra það sem hverju þeirra gæti mögulega þótt áhugavert og gætu orðið snillingar í og breytt heiminum með; ljósmyndun, tölvuleikir, forritunarleikir, Yousician (söngur, píanó, gítar….), kvikmyndagerð/-klipping, tölvuteikning, leirgerð, stop-motion, tungumál (duolingo), borðspil, næringarvitund, brúðugerð, tækniwhatever (-legó, róbot, drónar….), stærðfræðileikir/-forrit, lesa sögur að eigin vali, dans, græða pening, húmor/brandarar, þjóðsögur/ævintýri, náttúruskoðun, fará söfn, leiklistast/improvæsa“
Óli bendir á furðuleikann í því að ef börn vilja læra eitthvað af þessu þá þurfa foreldrarnir að borga háar upphæðir fyrir námskeið og þess háttar. „Við borgum ríkinu um 2 milljónir á ári til að gera hvern grunnskólanemanda hamingjusaman og færan í að breyta heiminum til hins betra,“ segir Óli og heldur áfram. „Í dag er þessum peningi varið í ensku (sem er í næstum öllu sem við gerum anyway), íslensku (sem er í næstum öllu sem við gerum hvort sem er), lestur (skil það smá), stærðfræði (sem hver getur lært á eigin hraða með endalaust af kennsluforritum), dönsku (halló?), saga (er til dæmis á Wikipedia fyrir hvern að skoða) og eitthvað fleira vesen, allir lærandi sama stöff ca á sama tíma í lífshlaupinu!“
Hann gerir sér grein fyrir því að fólk geti kallað hann hugsjónamann eða óraunhæfan. „Við erum að fara inn í megaskringilegan heim, flóknari og flóknari með harðari og harðari samkeppni. Ef við þurfum óttaáróður til að opna augun; ef við breytum þessu ekki hratt (sem er ekki að fara að gerast innan frá) þá erum við að dæma börnin okkar til að vera vinnuvélar einhvers afls sem ég hef ekki hugmynd um hvernig lítur út. Erum það jafnvel nú þegar.“
Þá segir Óli að önnur leið sé að valdefla börnin, skapa möguleika fyrir þau og treysta að áhugi þeirra leiði þau og allan heiminn á fallegan stað. Að lokum biður Óli fólk um að senda sér tölvupóst ef það hefur eitthvað til málana að leggja. „Ef þið eigið í fórum ykkar jákvæða sýn á þetta með dæmum/í-myndum þá bombið á mig, hér eða á meil (olinuleiki@gmail.com). Ég þarf ekki að heyra hvað er að. Við erum öll sérfræðingar í því. Setjum orku og hugrekki í að hugsa jákvæð, möguleg scenarios og PRÓFUM, lendum í, gerum öðruvísi, ruglumst, finnum upp, …“