Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula viðvörun á Vestfjörðum. Gríðarlegri rigningu er spáð á Vestfjörðum, auk þess sem skriðuföll gætu átt sér stað vegna rigningarinnar. Viðvörunin gildir til miðnættis annað kvöld.
Fólk er hvatt til að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.
Lögreglan á Vestfjörðum segir um málið:
„Snarpar vindhviður við fjöll, varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Talsverð eða mikil rigning, einkum norðan til. Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum og hætta á flóðum og skriðuföllum. Einnig er aukið álag á fráveitukerfi.“