Þau Jóhanna Sigríður Sigurðardóttir og Finnur Einarsson verða borin til grafar í dag, fimmtudag 9. júlí.
Útförin fer fram í Lindakirkju í Kópavogi kl 13:00.
Finnur og Jóhanna létust í mótorhjólaslysi á Vesturlandsvegi þar sem hann liggur um Kjalarnes sunnudaginn 28. júní og hefur talsverð umræða skapast í kjölfar slyssins um ástand vega á Íslandi, sérstaklega með tilliti til öryggi mótorhjóla. Nýlagt og vitlaust blandað malbik er talið hafa átt þátt í slysinu.
Mótorhjólaklúbburinn HOG Chapter Iceland mun standa heiðursvörð í jarðarförinni. Enn fremur hefur verið gert ráð fyrir sérstöku svæði á bílastæðinu fyrir mótorhjól, enda má gera ráð fyrir að umtalsverður fjöldi vina þeirra Jóhönnu og Finns úr mótorhjólaheiminum muni mæta til að kveðja þau Hönnu og Finn.
Sniglarnir, Bifhjólasamtöl lýðveldisins, birta eftirfarandi tilkynningu á Facebook í dag:
Útför Finns og Hönnu fer fram frá Lindakirkju, fimmtudaginn 9. júlí, kl. 13:00. HOG Chapter Iceland verður með nokkur hjól nálægt dyrum kirkjunnar og félagar í Chapternum standa heiðursvörð þegar kisturnar verða bornar út, en gengið verður yfir í kirkjugarð Kópavogs. Chapter Iceland þakkar öllu mótorhjólasamfélaginu fyrir stuðninginn á þessum erfiðu tímum. Afmarkað hefur verið sérstakt svæði á bílastæðum við Lindakirkju fyrir mótorhjólafólk sem hyggst mæta á hjólum sínum eins og sést á meðfylgjandi mynd. Vinsamlegast deilið þessum skilaboðum. Mynd frá HOG Chapter Iceland.