fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

Brunaeftirlit HMS lagt niður og endurreist á Sauðárkróki

Heimir Hannesson
Fimmtudaginn 9. júlí 2020 18:22

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. mynd/Ernir Eyjólfsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 1. janúar sameinaðist Íbúðalánasjóður og Mannvirkjastofnun undir einn hatt og undir nýju nafni, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Segir í frétt á heimasíðu hinnar nýstofnuð HMS að sameiningin muni stuðla að heildstæðri yfirsýn yfir húsnæðis- og mannvirkjamál „á einum stað.“ Nú á að flytja brunasvið stofnunarinnar á Sauðárkrók og enginn starfsmannanna ætlar með.

HMS auglýsti í vikunni eftir starfsfólki á nýrri starfstöð brunasviðs á Sauðárkróki, en fyrir var HMS með starfsemi þar. Er ekki að sjá annað en að auglýst sé eftir öllum stöðugildum brunasviðs að nýju. „Viltu efla brunavarnir á Íslandi og byggja upp nýtt eldvarnasvið á Sauðárkróki?“ segir í auglýsingunni.

Atvinnuauglýsing HMS í Fréttablaðinu.

DV hafði í síðustu viku eftir slökkviliðsmönnum, byggingafulltrúa og brunaverkfræðingum að ljóst sé að færsla brunasviðs HMS til Sauðárkróks mun koma til með að veikja getu sviðsins. Almennu brunaeftirliti er sinnt af yfir 120 aðilum hér á landi. Má þar nefna brunaeftirlit slökkviliða, byggingafulltrúum, heilbrigðiseftirlitum sveitarfélaganna, Vinnueftirlitinu sem og HMS. HMS starfar sem nokkurskonar „móðurstöð“ eftirlitsaðilanna og hefur verið lýst sem eftirlitsaðila eftirlitsaðilanna. Sagði einn viðmælandi DV að nauðsynlegt væri að hafa öfluga stjórnsýslu í þessum málaflokki, enda þurfa slökkvilið landsins oft að beita íþyngjandi þvingunaraðgerðum gegn eigendum mannvirkja sem uppfylla ekki kröfur um brunavarnir. Þá reyni á að hafa öflugan bakhjarl með reynslumikla menn í brúnni sem geta stutt við ákvarðanatöku. Þetta sé sérstaklega mikilvægt fyrir minni slökkvilið sem eiga að sinna eftirliti með nágrönnum sínum í litlum sveitarfélögum.

Hringlandaháttur í stjórnsýslunni

Brunasvið HMS var eitt sinn undir Mannvirkjastofnun, áður en hún sameinaðist Íbúðalánasjóði eins og fyrr segir. Fyrir það heyrði málaflokkurinn undir Brunamálastofnun, áður en hún var svo seinna sameinuð í Mannvirkjastofnun. Talsverður hringlandaháttur hefur því verið með þessa mikilvægu eftirlitsstofnun og virðist það hafa bitnað á gæði þjónustunnar sem hún veitir. Þótti stofnunin, samkvæmt heimildamönnum DV, ekki taka almennilega við sér fyrr en Davíð Snorrason tók við rekstri sviðsins. Varð viss bylting í rekstri brunasviðs þegar Davíð tók við.

Nú óttast menn spekileka úr deildinni og að sú stofnanaþekking sem byggð hefur verið upp á undanförnum árum hverfi að fullu. Færsla sviðsins út á land á sér ekki langan aðdraganda en er í grunninn liður í áætlun ríkisstjórnarinnar að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. „Hefðbundin kjördæmapólitík, eins og við höfum áður séð,“ sagði heimildamaður DV. Færslan var kynnt af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, í maí á þessu ári á fundi á Sauðárkróki. Yfirskrift fundarins var efling brunavarna og átak í málaflokknum. Heimildamenn DV sem sátu fundinn segja að þó brunavarnir hafi vissulega verið umræðuefni fundarins hafi undirtónn um að fjölga störfum á Sauðárkróki verið aðalatriðið. Það sé það sem heimamenn tóku af fundinum.

Mikil umræða hefur skapast um brunaeftirlit eftir brunann á Bræðraborgarstíg 1. Mynd/Sigtryggur Ari

Færslan sögð liður í að efla brunavarnir – aðrir segja kjördæmapot Ásmundar Einars

Á fundinum var kynnt skýrsla starfshóps um stöðu brunavarna á Íslandi og þar sagt að nauðsynlegt sé að stórefla brunaeftirlit og gerð brunavarnaráætlana, og gerðar tillögur að úrbótum. Í tilkynningu um fundinn, þar sem flutningurinn norður á land var jafnframt kynntur, er látið í veðri vaka að tilfærslan sé eitthverskonar svar við úrbótatillögum skýrslunnar. Enn er óljóst hvernig tilfærsla brunaeftirlits HMS á Sauðárkrók passar inn í þær úrbótatillögur, en ljóst er að heimildamenn DV eru á algjörlega öndverðu meini við þær ályktanir. Samkvæmt þeim er tilfærslan hápólitískt kjördæmapot sem mun rýra faglegt starf sviðsins og eyða stofnanaminni þess.

Að málaflokkur brunavarna heyri undir félags- og barnamálaráðherra kann að þykja einkennilegt, en það er komið til vegna sameiningar Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar, sem fyrr segir. Málaflokkurinn er því nýkominn undir hatt ráðherrans en sameiningin tók gildi 1. janúar á þessu ári. Ráðherrann Ásmundur Einar er sem kunnugt er þingmaður Framsóknarflokksins sem lengi hefur haft það að markmiði að fjölga opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri pirraður á því hvernig RÚV talar um Miðflokkinn

Snorri pirraður á því hvernig RÚV talar um Miðflokkinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þórhallur sendi Íslandsbanka bréf vegna vaxtahækkunarinnar – Þetta er svarið sem hann fékk

Þórhallur sendi Íslandsbanka bréf vegna vaxtahækkunarinnar – Þetta er svarið sem hann fékk