Þó að COVID-19 hafi ekki lagst þungt á marga sem smitast hafa af kórónuveirunni sem veldur sjúkdómnum, þá hafa afleiðingarnar fyrir suma sjúklinga verið skelfilegar og langvarandi. Sjúkdómurinn virðist óútreiknanlegur.
Fólk sem greindist með COVID-19 hefur þurft á almennri endurhæfingu á Reykjalundi að halda þrátt fyrir að hafa ekki lagst inn á spítala í baráttu sinni við veiruna. Þetta segir Magdalena Ásgeirsdóttir, yfirlæknir á Reykjalundi, í viðtali við Læknablaðið.
„Fólkið sem fékk vægari lungnaeinkenni en glímdi við önnur einkenni, eins og vöðvamáttleysi, gríðarlega þreytu eða úthaldsleysi er nú að koma til okkar eitt af öðru í endurhæfingu,“ segir Magdalena.
Madgalena segir dæmi um fólk sem sé ennþá mjög slappt til heilsunnar mörgum vikum og jafnvel mánuðum eftir veikindin.
Hópurinn sem hefur notið endurhæfingar á Reykjalundi í kjölfar COVID-19 er breiður í aldri, eða frá fertugu og upp í áttrætt. Magdalena segir meðhöndlunina líkjast þeirri sem fólk njóti eftir alvarlega lungnabólgu og fjölkerfasýkingar.
Magdalena segir að ekki sé mælt með endurhæfingu fyrr en 8 vikum eftir að fólk smitist. „Þetta er kerfislægur sjúkdómur sem leggst á fleiri líffæri en lungun; heilann, æðakerfið og hjartavöðvann,“ segir hún. Hann geti myndað blóðtappa og allskonar bólgur.