Þyrla Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Eyjafirði voru kallaðar út á tólfta tímanum í dag vegna fiskibáts sem lenti var í vanda.
Báturinn varð vélarvana vestur af Hrólfsskeri og rak hratt að bjargi í Ólafsfjarðarmúla.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar óskaði eftir aðstoð báta í grenndinni sem brugðust hratt við og áður en þyrla Landhelgisgæslu og björgunarsveitir komust á svæðið hafði tekist að koma bátnum í tog og var hann dreginn til hafnar á Dalvík. Einn var um borð í bátnum og sakaði hann ekki.
Þetta kom fram í tilkynningu Landhelgisgæslunnar til fjölmiðla.