Ferðamönnum var gert að yfirgefa veitingastaðinn Fernando´s í Keflavík í gærkvöldi, þar sem þeir gátu ekki framvísað niðurstöðum úr skimunarprófi vegna Covid-19 en biðin eftir niðurstöðum getur tekið sólarhring.
Þetta kemur fram á vefsíðunni Veitingageirinn.is.
Þar lýsir gestur veitingastaðarins því hvernig starfsmennirnir báru sig fagmannlega að við að útskýra fyrir ferðamönnunum að þeir mættu ekki vera meðal almennings fyrr en niðurstöður úr skimunarprófinu lægju fyrir og því yrði að vísa þeim af staðnum:
„Það komu gestir (túristar) þangað inn í kvöld á meðan við vorum þar og þau voru spurð og beðin um að framvísa niðurstöðum úr covid prófi sem þau voru ekki búin að fá.
Útskýrt var fyrir gestunum á kurteisan hátt að þau mættu ekki vera innan um annað fólk og ættu að halda sig á hótelinu þangað til niðurstöður úr prófinu liggur fyrir og í framhaldi var þeim vísað til dyra en jafnframt boðin velkomin eftir að þau hefðu fengið sínar niðurstöður.“
Bið komufarþega eftir niðurstöðum skimunarprófa við landamærin getur tekið sólarhring, en tilkynnt er um niðurstöðurnar í rakningarappinu Rakning C-19, eða með smáskilaboðum. Þeir sem greinast jákvæðir fá tilkynningu símleiðis, en komufarþegum er bent á að gæta að smitvörnum og huga að heilsu sinni og annarra meðan beðið er niðurstaðna.
Samkvæmt upplýsingum DV hefur starfsfólk í verslunar – og þjónustustörfum margsinnis þurft að hafa slík afskipti af ferðamönnum hér á landi frá því að byrjað var að hleypa inn ferðamönnum þann 15. júní. Sumir gleymi að framvísa staðfestingunni, meðan aðrir telji það ekki skipta máli, en þá sé þeim bent á að yfirgefa svæðið, með tilliti til annarra.