Veðrið lék við gesti á hátíðarhöldum dagsins í Kópavogi. Haldið var upp á 17.júní með óvenjulegum hætti þetta árið og haldnar hverfishátíðir auk þess sem Menningarhúsin í Kópavogi buðu upp á dagskrá við húsin og bílalest með skemmtikröftum fór um bæinn.
„Við urðum að fara nýjar leiðir vegna fjöldatakmarkana en vildum bjóða íbúum Kópavogs upp á gleði og skemmtun í tilefni þjóðhátíðardagsins. Niðurstaðan varð að efna til hátíðarhalda víða um bæinn með áherslu á börn og ungmenni og það er skemmst frá því að segja að dagurinn heppnaðist afar vel,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs í tilkynningu frá Kópavogsbæ.
Alls staðar var vel mætt og góð stemning en plássið nægt fyrir gesti og gangandi. Hverfishátíðirnar fóru fram við Fífuna, Salalaug, Fagralund og Kórinn og var boðið upp á dagskrá og tívolítæki. Við Menningarhúsin var meðal annars sirkus, sumarleikur, ærslabelgurinn sívinsæli og nýr gosbrunnur við húsin sló í gegn hjá gestum.
Fjöldi listamanna og skemmtikrafta komu fram í Kópavogi í dag, þeirra á meðal Saga Garðarsdóttir, Ísgerður Elfa, Villi Neto og Villi naglbítur, GDRN, Jón Jónsson, Friðrik Dór, Herra Hnetusmjör, Lína langsokkur og Ronja ræningjadóttir.