Pétur Jóhann Sigfússon, skemmtikraftur, hefur beðist afsökunar vegna myndbands sem birtist af honum á Instagram-síðu grínistans Björns Braga Arnarssonar. Myndbandið vakti mikla athygli í vikunni sem nú er að líða, en í því þótti Pétur Jóhann sýna ansi fordómafulla hegðun.
Afsökunarbeiðni Péturs birtist á Facebook-síðu hans. Hann segir að markmið sitt hafi ekki verið að særa fólk og að hann hafi lært af málinu.
Hegðun hans var harðlega gagnrýnd í vikunni, meðal annars af baráttukonunni Semu Erlu Serdar, sem sagði myndbandið sýna ótrúlega fordóma í garð kvenna og rasisma. Í kjölfarið bárust Semu grófar hótanir frá meintum stuðningsmönnum Péturs og félaga hans sem í myndbandinu bregður fyrir. Sema Erla hefur kallað eftir því að Pétur svari fyrir hegðun sína
Afsökunarbeiðni Péturs er eftirfarandi:
„Elsku þið öll.
Myndband sem tekið var af mér í einkasamkvæmi um síðustu helgi hefur farið sem eldur í sinu á samfélagsmiðlum. Ég biðst einlægrar afsökunar á framgöngu minni í þessu myndbandi og þykir leitt að hafa sært. Það var ekki ætlun mín að særa. Það er alveg ljóst að ég hef lært af þessu máli og þeirri umræðu sem af því hlaust.“