Fréttablaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að Arnar Þór, sem er fæddur 1973, hafi verið tveggja ára þegar Tryggvi var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknar á hvarfi Guðmundar Einarssonar. Tryggvi losnaði úr fangelsi 1981 þegar Arnar Þór var á áttunda ári. Hann var ættleiddur tólf ára gamall árið 1985.
774 milljónir hafa verið greiddar í bætur þremenninganna sem voru sýknaðir og eru á lífi og til aðstandenda Sævars Marinós Ciesielski og Tryggva Rúnars sem báðir eru látnir.
Lögin kveða á um að greiða skuli bætur til sýknaðra, sem eru á lífi, og á sama grundvelli skuli greiða mökum og börnum hinna látnu bætur. Samkvæmt erfðalögum fellur erfðaréttur niður við ættleiðingu en í fyrrnefndum lögum er ekki minnst á rétt erfingja heldur eftirlifandi maka og barna.
Fréttablaðið segir að í kröfu Arnars Þórs komi fram að óumdeilt sé að hann sé sonur Tryggva Rúnars og að hann hafi ekki fengið greiddar bætur vegna frelsissviptingar föður hans. Upphæð kröfunnar byggir á að eftirlifandi eiginkona Tryggva Rúnars og dóttir, sem Tryggvi ættleiddi, hafi fengið 85 milljónir í bætur og því krefst Arnar Þór sömu upphæðar.