Fréttablaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, hafi gefið skýrslu fyrir dómi í gær. Hann var meðal annars spurður um húsleit sem var gerð á lögmannsstofu Steinberg en þar var lagt hald á mikið af gögnum. Þar á meðal var mappa sem var merkt með nafni skjólstæðings Steinberg og sakbornings í málinu sem var til rannsóknar.
Eitt af álitaefnum málsins er hversu langt lögreglan megi ganga við húsleitir hjá lögmönnum. Var Björn spurður um þetta.
„Það var ekki leitað hjá honum sem verjanda, heldur var leitað hjá honum sem sakborningi. Ef lögmaður er grunaður um að hjálpa umbjóðanda sínum við að fremja það brot sem er til rannsóknar er lögreglu rétt að rannsaka það.“
Svaraði Björn.
Steinbergur gaf einnig skýrslu í gær. Hann sagðist aldrei hafa orðið fyrir eins miklu áfalli og þegar hann var handtekinn. Hann hafi mætt á skrifstofu héraðssaksóknara til að vera viðstaddur skýrslutöku hjá skjólstæðingi sínum sem var sakborningur í umfangsmiklu peningaþvættismáli. Þess í stað hafi hann verið handtekinn og látinn sæta einangrun í fangelsinu á Skólavörðustíg. Hann krefst 10 milljóna í bætur.