Markaður Fréttablaðsins segir í dag að Icelandair Group íhugi að láta reyna á kjarasamningsákvæði fyrir dómi til að hægt verði að ráða flugfreyjur, sem standa utan Flugfreyjufélags Íslands, til starfa, ef samningar nást ekki við Flugfreyjufélagið.
„Þetta hlýtur að vera einn af þeim valkostum, sem Icelandair verður að skoða, þar sem staða félagsins er mjög erfið.“
Hefur Markaðurinn eftir Jóni Karli Ólafssyni, stjórnarformanni TravelCo og fyrrverandi forstjóra Icelandair Group. Hann sagði að í flestum kjarasamningum Icelandair séu ákvæði um að félagsmenn viðkomandi stéttarfélaga eigi forgangsrétt að störfum hjá félaginu. Hann sagði að ólíklegt megi teljast að þessi forgangsréttarákvæði standist ef starfsmaður velur að standa utan stéttarfélags.