Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Þar er haft eftir Þórhalli Viðarssyni, einum eigenda B5, að þeir hafi ekki átt annarra kosta völ en að fallast á þessar hækkanir.
„Spurningin sem við höfum staðið frammi fyrir er hvort við viljum setja félagið í þrot eða borga það sem þeir fara fram á. Fyrir mér er þetta ekkert annað en ofbeldi.“
Er haft eftir honum um viðskiptin við Eik Fasteignafélag.
Fram kemur að hækkanir á leigu á undanförnum misserum hafi verið knúnar áfram í skjóli þess að ef ekki yrði fallist á þær fengi B5 aðeins að vera opinn til klukkan eitt á nóttunni. Það myndi gera út af við reksturinn er haft eftir Þórhalli.
Fasteignafélagið var ekki tilbúið til að endurskoða áður samþykktar hækkanir þegar samkomubann var sett á og staðnum var lokað með tilheyrandi tekjufalli. Leigan hækkaði því um hálfa milljón þann 1. apríl auk vísitölutengdra hækkana og er hún nú rúmlega 3,5 milljónir á mánuði.