fbpx
Laugardagur 04.janúar 2025
Fréttir

Flugfreyja Icelandair hjólar í félagið – „Við erum ekki þarna til „leyfa“ mönnum að slá mann á rassinn“

Jón Þór Stefánsson
Þriðjudaginn 12. maí 2020 18:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórunn Elva Þor­geirs­dóttir, flug­freyja hjá Icelandair birti í dag langa Facebook-færslu þar sem hún húðskammaði flugfélagið sem henni þykir ekki bera nægilega virðingu fyrir starfsstéttinni sinni.

„Gjörsamlega fáránlegt“

Hún segist hafa verið stoltur starfsmaður Icelandair í mörg ár, en nú sé það breytt, þar sem að flugfélagið sverti nú orðspor flugfreyja sem sé kennt um fall fyrirtækisins.

„Fyrst að fyrirtækið sem við höfum verið stolt af því að vinna fyrir í mörg ár virðist vera í svona góðri PR vinnu við það að „sverta okkur“ flugfreyjurnar, að lesa að við séum svona miklar prímadonnur og okkur að kenna að mögulegt fall fyrirtækisins verði að veruleika verð ég bara að tjá mig. Það að vilja lækka grunnlaunin okkar sem eru nú þegar lægri eða jafnhá lægstu launum landsins hjá VR og Eflingu er gjörsamlega fáránlegt.

Eftir tæp fjögur ár sem fastráðin flugfreyja eru grunnlaunin mín 298 þúsund krónur fyrir 100% starf. Þegar til lífeyrissjóðsgreiðslna, orlofs, veikindaleyfis og eða nú síðast Covid er það þessi tala sem skiptir máli. Hvað þá þegar ég þarf svo mögulega að þiggja atvinnuleysisbætur sem verða aðeins 80% af þessari tölu.“

Þórunn lýsir þá ítarlega þeim erfiðu aðstæðum sem flugfreyjur vinna við og laununum sem stéttin fær greidd sem henni finnst ekki til sóma. Hún segir að þrátt fyrir allt það segi þær ekki neitt heldur brosa bara.

„Það vita kannski fáir en flugfreyjur fá ekki greidda “per vakt” heldur greidda “block” eða þegar flugvélin fer frá hliði og kemur aftur að hliði á áfangastað. Það þýðir að þegar við erum úti í vél í töfum, bilunum, veðri með brjálaða farþega eða öllum hinum fjandanum sem kemur upp erum við ekki á launum. Þegar við komum heim úr vinnu 6 tímum eftir að hafa lent á hliði vegna tafa á flugvöllum, töskubönd biluð, beðið eftir hjólastólaþjónustu og fleira sem gerist margOFT á ári ef ekki bara nokkrum sinnum í mánuði segjum við ekkert og brosum bara.

Það að vilja lækka þau um 40% en á sama tíma HÆKKA tímana sem við megum fljúga, taka af okkur hvíldarrétt, taka af okkur yfirvinnu fyrir hátíðardaga, skerða hvíldina okkar, fækka frídögum, láta okkur fljúga bæði innanlands og utanlandsflug og helst 2 ferðir á dag er þetta komið fyrir neðan allar hellur.

Þegar allt er tekið til alls erum við nú þegar jafn mikið og oftast meira að heiman frá okkur á sumrin í vinnu heldur en manneskja í 100% 8-4 dagvinnustarfi.

Ólíkt við dagvinnustarfið er það að við erum að vinna dag, kvöld og nótt, fljúgum yfir tímabelti og ruglum í sólarhringnum okkar nokkrum sinnum í mánuði og það í einu versta starfsumhverfi og lofti sem völ er á. Erum frá fjölskyldum okkar í tíma og ótíma, á afmælum, jólum og frídögum og við eigum rétt á einu helgarfríi í mánuði.“

Auknar líkur á því að fá grafalvarlega sjúkdóma

Þórunn bendir einnig á að starfið hafi mikil áhrif á heilsu, en samt fórni flugfreyjur sér fyrir félagið.

„Nú hafa ótrúlega margar flugfreyjur orðið það veikar að þær hafa þurft að hætta störfum og jafnvel fara í einhvers konar endurhæfingu eftir léleg loftgæði í flugi en ekki eru þær að leka því í fjölmiðla – því við erum svo meðvirk með félaginu sem við erum svo stolt af. „Þessi varð veik á þessari vél í gær“ .. ok ég samt skal fljúga á henni í dag og taka sénsinn – fyrir félagið mitt. Greinilega til einskis.

Við fáum skrá 14 dögum fyrir gildistöku sem þýðir að það að plana frí sé nær ómögulegt.
Við fáum nánast aldrei sumarfrí á umbeðnum tíma (samkvæmt háværustu röddum) og fáum oftar en ekki að vita hvenær við erum að fara í sumarfrí stundum viku áður en að þau eiga að hefjast (þeir sem fá maí).

Til að bæta gráu ofan á svart þá er þessi vinnustaður – í flugvél – þekktur fyrir það að auka líkur á allskyns sjúkdómum til muna. Krabbamein, ófrjósemi, lungavandamál, öndunarfærasjúkdómar svo fátt eitt sé nefnt og ég tala ekki um að vera í geislun í vinnunni. Nú síðast gerði fyrrum trúnaðarlæknir okkar pistil um allt það „slæma“ sem fylgir því að vera flugfreyja – hann starfar ekki lengur hjá flugfélaginu.“

Hún minnist einnig á að það sé ekki af ástæðulausu að flugfreyjur séu um borð, það sé af öryggisástæðum. Þrátt fyrir það séu flugfreyjur ekki tryggðar fyrir óhöppum sem gæti átt sér stað myndu þær lenda í átökum við flugdólga.

„Það er ástæða fyrir því að það séu fjórar flugfreyjur um borð og það er ástæða fyrir því að það séu yfir höfuð flugfreyjur um borð. Það eru ÖRYGGISástæður.

Við erum fyrst og fremst þarna til þess að sinna öryggi og þurfum að fara á námskeið í vatni, eld, skyndihjálp, flugdólga æfingar ásamt öllu hinu 2x á ári nokkra daga í senn. Sem nú á að vera ólaunað – líka á helgidögum. Ég tala nú ekki um að við eigum svo að „berjast við“ flugdólga á okkar vakt ef til þess kemur og ef eitthvað skyldi koma fyrir í því fighti erum við EKKi tryggð.“

Ekki á staðnum bara til að vera sætar

Þórunn segir að flugfreyjur séu ekki á staðnum til þess að brosa, þjónusta og „leyfa“ körlum að slá sig í rassinn. Hún bendir einnig á að flugfreyjur þurfi að vera stífmálaðar og í háhæluðum skóm, sem séu ekki þægilegustu vinnuskilyrðin.

„Við erum ekki bara þarna til þess að vera sæt og brosa til ykkar, gefa ykkur kaffi og te og „leyfa“ einstaka mönnum að slá mann á rassinn. Við erum skikkaðar til þess að vera stífmálaðar hvern vinnudag, við eigum að vera með eyeliner, kinnalit, púður, maskara, meik, sólapúður, varalit og naglalakk – alls ekki of dökkt og ekki of ljóst. Við eigum að féla húðflúr og ef það sést í það fáum við áminningu eða skammir. Að fjármagna það að vera máluð í vinnunni með lakkaðar og vel til hafðar neglur kemur úr eigin vasa. Við eigum að vera í hælum að hlaupa nokkurra km flugstöðvar fram og til baka og alltaf að brosa og vera næs. Strákarnir mega svo ekki hafa of mikið skegg eða of mikið hár. Þeir mega ekki vera með sítt hár – þá skaltu gjöra svo vel að klippa þig ef þú ætlar að vinna þetta fína starf sem það er að vera flugþjónn.

Að því sögðu eru afturfarirnar grátlegar og ef þetta tilboð yrði samþykkt hjá Icelandair – sem það verður aldrei af okkar hálfu. Þá get ég sagt ykkur það að það verður líklegast ekki einn núverandi starfsmaður eftir á línunni. Ætli það sé planið? Að fá okkur til að samþykkja ekki svo þeir geti falið sig bak við það að þeir „urðu bara“ að ráða erlent vinnuafl? Það að samþykkja launaLÆKKUN til 5 ára án möguleika á hækkunum en í leiðinni auka vinnutíma um uþb 40% er með öllu óboðlegt. Ég er ekki svo viss um að neinn sem hefur eða myndi prófa að starfa við þetta myndi samþykkja þennan samning. Á meðan á öllum öðrum vettvöngum er verið að berjast fyrir “lífskjarasamningum með viðeigandi hækkunum og styttingu vinnuvikunnar.“

Málaðar upp sem vondi kallin

Þórunn segir að Icelandair sé að fela sig á bak við COVID-19 til þess að lækka laun þessa fólks. Það sjáist vegna þess að svipað tilboð og flugfreyjurnar fengu hafi verið boðið áður, þegar að heimsfaraldur var ekki í gangi.

„Það sorglega við þetta allt saman er að fyrirtækið nýtir sér svo Covid til þess að fela sig bak við það að við bara verðum að lækka okkur í launum. Annars fer allt til fjandans. NEI. Þetta er sama tilboð og ef ekki skárra tilboð og var lagt fyrst fyrir samninganefnd í lok 2018. Það er ástæða fyrir því að ekki hefur verið samið í um það bil eitt og hálft ár.

Allt í einu er verið að gera okkur, framlínufólkið og oftar en ekki eina fólkið sem almenningur hittir þegar flogið er að einhverjum villains sem eru að berjast fyrir kjörum sínum.

Samt mætum við og brosum – ALLTAF. Það sannaði sig nú bara best hérna síðast í þessu covid ástandi. Við mættum í vinnuna í miðjum faraldri til þess að sinna örygginu svo að fólk kæmist til síns heima.

Að setja okkur undir sama hatt og stétt sem er með á við 3föld eða 4föld laun okkar er svo annað mál og ótrúlega skrítið að það sé einu sinni samanburður. Og þeir eru NB ekki heldur búnir að samþykkja NEITT!“

Þórunn segir að gærdagurinn hafi verið sorgardagur hjá félaginu og segist glöð yfir því að móðir hennar sem vann hjá félaginu í 44 ár sé hætt hjá Icelandair.

„Í gær var sorgardagur í sögu Icelandair þegar yfirmenn okkar sendu 940 af sínum starfsmönnum sem alltaf hafa staðið með fyrirtækinu sínu stórt FOKKJÚ merki. Ég var mjög stolt af því að vera starfsmaður Icelandair. Aldeilis ekki lengur.

Djöfull er ég fegin að mamma mín sem vann hjá þeim í 44 ár sé hætt og þurfi ekki að enda feril sinn í þessari deilu eftir að hafa gert þetta starf að ævistarfi sínu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Guðmundur vill banna þetta á íþróttaviðburðum – „Sendir röng skilaboð til barna og ungmenna“

Guðmundur vill banna þetta á íþróttaviðburðum – „Sendir röng skilaboð til barna og ungmenna“
Fréttir
Í gær

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“
Fréttir
Í gær

Morðin í Neskaupstað – Alfreð Erling murkaði lífið úr hjónunum með hamri

Morðin í Neskaupstað – Alfreð Erling murkaði lífið úr hjónunum með hamri
Fréttir
Í gær

Ekki gefið upp hvort maðurinn sem féll í sjóinn er í lífshættu eða ekki

Ekki gefið upp hvort maðurinn sem féll í sjóinn er í lífshættu eða ekki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

FBI gerði óhugnanlega uppgötvun í Airbnb-íbúð hryðjuverkamannsins í New Orleans

FBI gerði óhugnanlega uppgötvun í Airbnb-íbúð hryðjuverkamannsins í New Orleans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lavrov hótar Dönum að hervaldi kunni að verða beitt gegn þeim

Lavrov hótar Dönum að hervaldi kunni að verða beitt gegn þeim