Egill Helgason fjölmiðlamaður hefur tekið rimmur við kvíðaröskun og þunglyndi í gegn um árin. Hann opnar sig um þessi mál í nýrri færslu á Facebook sem hefur vakið mikla athygli og fólk ýmist sendir honum batakveðjur eða segist sjálft tengja sterkt við lýsingu hans á veikindunum.
Eigin fangi og fangavörður
Færslan er svohjóðandi:
„Kvíði er helvítis melur. Því er líkast að maður sé sinn eigin fangi og fangavörður. Maður er innilokaður, veit að það er leið út í frelsið en hún lokast jafnóðum. Fangavörðurinn innra með manni passar upp á að maður sofni ekki, kveikir skerandi ljósin reglulega, og endurtekur fyrir manni þráhyggjunar sem eru eins og fleygaðar í kollinn á manni. Maður gerir ekki stærri kröfur en að geta gengið sæmilega áhyggjulaus út í vorið – þeir dagar láta bíða eftir sér og tíminn sniglast áfram.“
Þrúgandi skömmin sem fylgir
Í samtali við DV segir Egill að síðasta ár hafi verið sérlega erfitt, allt frá apríllokum í fyrra. Hann hafi verið farinn að ná sér á strik en síðan dottið í slæma niðursveiflu.
Egill vekur athygli á þeirri einsemd og bjargarleysi sem gjarnan fylgir þunglyndi, en líka skömminni við það að maður sé að bregðast ekki bara sínum nánustu heldur öllu og öllum – sjálfum sér og vinnunni og kröfunum sem maður heldur að fólk geri til manns.
Hann segist hafa notað ýmsar leiðir í baráttunni, bæði lyf og hugleiðslu, en leiðin upp á við geti verið torfarin.