fbpx
Laugardagur 04.janúar 2025
Fréttir

Guðmundur metinn hæfastur umsækjenda

Tobba Marinósdóttir, Auður Ösp
Fimmtudaginn 7. maí 2020 22:55

Guðmundur Jónsson fyrrum forstöðumaður Birgisins

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður Byrgisins, hefur rekið tjaldsvæðið á Borg síðan 2017. Þrír sóttu um að leigja svæðið en sveitastjórn valdi Guðmund úr hópi umsækjanda annað tímabilið í röð.

Guðmundur Jónsson, sem á sínum tíma rak meðferðarheimilið Byrgið, hefur frá árinu 2017 sinnt rekstri tjaldsvæðisins á Borg í Grímsnesi. Sér hann um daglegan rekstur svæðisins sem felur meðal annars í sér samskipti við gesti og innheimtu afnotagjalda, auk þess sem hann hefur allar tekjur af rekstri svæðisins og ber allan kostnað. Þá er hann stjórnarmaður í húsnefnd félagsheimilisins á svæðinu. Úthlutun sveitarfélagsins á svæðinu til Guðmundar hefur vakið athygli í ljósi fortíðar hans.

Nýr þáttur um málið

Byrgismálið er eitt umfangsmesta sakamál síðari ára og var á sínum tíma á allra vörum. Málið komst í hámæli eftir afhjúpun fréttaskýringaþáttarins Kompáss á sínum tíma og sneri að grófum kynferðisbrotum Guðmundar gagnvart skjólstæðingum sínum, fjárdrætti og umboðssvikum. Árið 2008 hlaut Guðmundur þriggja ára fangelsisdóm fyrir kynferðislega misnotkun og árið 2010 níu mánaða fangelsisdóm fyrir umboðssvik, fjárdrátt, skattalaga- og bókhaldsbrot. Kynferðisbrotadómurinn var mildaður í Hæstarétti í tvö og hálft ár.

Sigursteinn Másson dagskrárgerðarmaður tók Byrgismálið til umfjöllunar í þáttaröðinni Sönn íslensk sakamál sem kom út á Storytel fyrr á árinu. Í upprifjun þáttarins kemur meðal annars fram að eldmóður Guðmundar hafi smitað fólkið í kringum hann og hann hafi haft nægan sannfæringarkraft til að fá í lið með sér fólk úr ýmsum flokkum. Þess ber að geta að á þeim árum sem Byrgið starfaði að Efri-Brú var Guðmundur áberandi í sveitarfélaginu og stakk víða niður fæti.

Árið 2017 auglýsti Grímsnes- og Grafningshreppur eftir rekstraraðila til að taka að sér tjaldsvæðið á Borg sem er flokkað sem fjölskylduvænt tjaldsvæði. Guðmundur var valinn umfram annan umsækjanda sem ekki fengust svör um hver hefði verið í samtölum við oddvita hreppsins og sveitarstjóra. Aftur var svæðið auglýst til leigu í ársbyrjun 2020. Fram kemur í auglýsingunni að umsækjandi „þurfi að gera grein fyrir reynslu sinni af ferðaþjónustu, gera grein fyrir sýn sinni á rekstur tjaldsvæðisins, hafa reynslu af rekstri, vera reglusamur, vera í skilum með opinber gjöld og lífeyrisiðgjöld starfsmanna“.

Því skal haldið til haga að Guðmundur hefur hlotið dóm fyrir fjárdrátt, skattalaga- og bókhaldsbrot. Sjö árum síðar tók síðan við rekstri í umboði sveitarfélagsins en samkvæmt fyrirspurnum blaðamanns er Guðmundur verktaki hjá sveitarfélaginu. Ekki er skýrt hvort Guðmundur uppfyllir þær menntunar- og hæfniskröfur sem settar voru fram þegar sveitarstjórn Grímsness- og Grafningshrepps auglýsti eftir rekstraraðila.

Aðspurður um málið segir Guðmundur: „Fyrst þegar ég sótti um var ekki óskað eftir reynslu í ferðamennsku en svo var í ár og ég hef þá reynslu enda búinn að reka tjaldsvæðið í þrjú ár.“

Tjaldsvæði á Borg Grímsnesi. Mynd af gogg.is, vef Grímsnes- og Grafningshrepps

Segir fólk þekkja sig

Í fyrra skiptið var Guðmundur tekinn fram yfir einn umsækjanda og í seinna skiptið var hann tekinn fram yfir tvo. Þegar leitað var eftir svörum hjá Ingibjörgu Harðardóttur sveitarstjóra, sem samdi við Guðmund í umboði sveitarstjórnar, um hvernig staðið hefði verið að vali þess sem fengi að leigja svæðið og hvort til væru opinber gögn um hverjir aðrir sóttust eftir svæðinu svaraði hún: „Ekkert eitthvað sérstaklega. Skiptir það einhverju máli?“

Þegar Ingibjörg var spurð hvort óskað hefði verið eftir sakavottorði þeirra sem sóttust eftir rekstrinum svaraði hún: „Það voru sótt öll þau gögn sem sóst var eftir og þau stóðust þær kröfur sem við gerðum. Bókunin stendur bara eins og hún stendur.“

Aðspurð hvað Guðmundur hefði haft umfram hina umsækjendurna svaraði hún: „Það skiptir bara engu máli, þetta var niðurstaða sveitarfélagsins.“

Ingibjörg kvaðst engar frekari upplýsingar myndu veita um málið með orðunum: „Þú getur gleymt því að ég gefi upp nokkrar upplýsingar um nokkuð til DV.“ Hún sleit síðan símtalinu fyrirvaralaust.

Guðmundur sjálfur segist vera með hreint sakavottorð en lögum samkvæmt hverfa brot af sakavottorði eftir tiltekinn tíma, eftir alvarleika brots. Hins vegar fyrnist sakaskrá ekki. Aðspurður hvort hann hafi orðið fyrir aðkasti sökum fortíðar sinnar svarar Guðmundur: „Nei, aldrei.“ Spurður hvort hann telji að gestir svæðisins viti hver hann sé og þekki hans fortíð segir hann: „Það veit nákvæmlega hver ég er.“

Athygli vakti að viðtal birtist á vefsíðu Ríkisútvarpsins síðastliðinn sunnudag þar sem Guðmundur er spurður út í tjaldsvæðið og áhrif kórónaveirunnar á starfsemina sökum fjöldatakmarkana.

„Hann hringdi hingað og spurði mig hvort hann mætti spyrja mig nokkurra spurninga um tjaldsvæðið og ég var svona óviss hvort ég ætti að vera að svara því. Hvort það færi þá ekki bara að koma einhverju enn og aftur af stað. Sem mér heyrist það vera að gera.“

Engin mynd birtist með en útlit Guðmundar hefur töluvert breyst frá Byrgisárunum. Guðmundur er nú með stutt hár og ýmist kallaður Gummi eða Mummi ef marka má umsagnir á Facebook-síðu tjaldsvæðisins.

Hann segist ekki halda að bakgrunnur hans fæli fólk frá svæðinu enda sé þetta aðallega eldra fólk. „Yfirleitt er þetta fólk sem hingað kemur í eldri kantinum. Ekki ungar stúlkur sem þyrftu að óttast það að ég myndi ráðast á þær. Enda nauðgaði ég engum konum,“ segir Guðmundur.

Oddviti sveitarstjórnar segist engar kvartanir hafa fengið undan Guðmundi. DV hafði ítrekað samband við oddvita sveitarstjórnar og óskaði eftir skýrari svörum og upplýsingum um aðra umsækjendur. Við því var ekki orðið.

Umfjöllun um málið má sjá í nýju helgarblaði DV.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Guðmundur vill banna þetta á íþróttaviðburðum – „Sendir röng skilaboð til barna og ungmenna“

Guðmundur vill banna þetta á íþróttaviðburðum – „Sendir röng skilaboð til barna og ungmenna“
Fréttir
Í gær

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“
Fréttir
Í gær

Morðin í Neskaupstað – Alfreð Erling murkaði lífið úr hjónunum með hamri

Morðin í Neskaupstað – Alfreð Erling murkaði lífið úr hjónunum með hamri
Fréttir
Í gær

Ekki gefið upp hvort maðurinn sem féll í sjóinn er í lífshættu eða ekki

Ekki gefið upp hvort maðurinn sem féll í sjóinn er í lífshættu eða ekki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

FBI gerði óhugnanlega uppgötvun í Airbnb-íbúð hryðjuverkamannsins í New Orleans

FBI gerði óhugnanlega uppgötvun í Airbnb-íbúð hryðjuverkamannsins í New Orleans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lavrov hótar Dönum að hervaldi kunni að verða beitt gegn þeim

Lavrov hótar Dönum að hervaldi kunni að verða beitt gegn þeim