„Það er enginn sem lýsir yfir gjaldþroti sér til gamans og því kemur mér alltaf á óvart sá svarti blettur eða „stigma“ sem margir vilja reyna að klína á heiðvirt fólk sem hefur sökum ytri aðstæðna orðið fyrir þessu. Það var enginn sem bjóst við heimsfaraldri. Það voru heldur ekki margir sem bjuggust við alheimskreppu á sínum tíma eða því að tæknibólan myndi springa.
Aðstæður sem þessar koma því miður upp og stundum veðja menn á rangan hest og verða þá að taka því eins og svo mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu í dag. Við eigum hins vegar ekki að úthrópa þá sem hafa orðið fyrir þessu heldur frekar styðja við bakið á þeim því þetta er alls ekki auðvelt.“
Segir Guðmundur sem segist þekkja marga sem eru nú að missa lífsviðurværi sitt af völdum heimsfaraldursins og hann heyri hvað þeim þykir þetta sárt. Það bæti ekki úr skák að aðgerðir stjórnvalda, sem eiga að hjálpa þeim, geri hið gagnstæða.
„Þessar sögur hafa rifjað upp hjá mér sárar minningar þegar mitt eigið fyrirtæki fór í gjaldþrot og langar mig að segja ykkur örlítið frá því.
Félag var og hét Handsal og það félag lenti í miklum fjárhagslegum hremmingum og meðal hluthafa í félaginu voru lífeyrissjóðir sem áttu meira en 70% af hlutaféinu. Mér var boðið að kaupa félagið á hrakvirði og reyna að bjarga því frá gjaldþroti sem ég og gerði. Ég gekkst þar í persónulegar skuldbindingar.
Handsal, endurskírt Burnham International gekk ágætlega fyrstu tvö árin eftir að ég keypti það. Perónulega var ég með um þriðjung hlutafjár í félaginu. Restin af hlutaféinu var í eigu annarra hluthafa en þar voru engir lífeyrissjóðir. Þeir voru á þessum tíma búnir að selja allan sinn hlut.
Ástæðan fyrir velgengninni í upphafi var vegna mikils uppgangs á mörkuðum og sérstaklega í nýjabruminu af netfyrirtækjum. Eftir aldamótin átti sér svo stað bankakreppa þegar fyrirtækjamarkaðurinn með internetfyrirtæki hrundi. Þar sem fjárfestingabók félagsins Burnham var að mestu leyti byggð á slíkum félögum þá hrundi hún með og varð Burnham gjaldþrota skömmu síðar.
Þar sem ég hafði gengist í persónulega ábyrgð, skall gjaldþrotið harkalega á mér sjálfum. Tekið hafði verið veð í mínum helmingi í heimili okkar hjóna sem varð til þess að við urðum að selja ofan af okkur. Þetta var mjög erfið lífsreynsla fyrir mig og mína fjölskyldu.
Segja má að ég hafi lent í lífsins ólgusjó og eftir á að hyggja þá hefði ég gert margt öðruvísi en það þýðir víst ekki að gráta Björn bónda.
Ég kenni engum öðrum en sjálfum mér um ófarir Burnham Int. en þessi reynsla kenndi það mér þá lexíu að ef menn ætla að vera í viðskiptum á Íslandi þá er eins gott að vera við gufugatið en ekki í annarri heimsálfu. Ég tel mig koma margs vísari eftir þessa reynslu og veitir hún mér m.a. skilning á þeim erfiðleikum sem samlandar mínir í fyrirtækjarekstri upplifa nú.”