fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Fréttir

Vilhelm sparkar í ferðaþjónustuna – „Vítaverð uppbygging og græðgi átti sér stað“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 29. apríl 2020 10:29

Mynd: Eyþór Árnason. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhelm Jónsson fjárfestir fer hörðum orðum um ferðaþjónustuna í grein í Morgunblaðinu í dag og segir fráleitt að skattborgurum landsins sé sendur reikningurinn fyrir tekjuhruni greinarinnar þar sem hún hafi fyrir löngu verið komin í vandræði áður en COVID-19 lét á sér kræla.

Í grein sinni fer Vilhelm hörðum orðum um fjárhagslegt ábyrðarleysi Íslendinga sem meðal annars endurspeglist í gegndarlausu kennitöluflakki. Kominn sé tími til að þjóðin sýni ábyrgð í fjármálum. Telur Vilhelm að endurreisn nágrannalandanna eftir kórónuveirukreppuna muni ganga hraðar en á Íslandi vegna mikillar skuldsetningar þjóðarinnar. Hann segir síðan eftirfarandi um ferðaþjónustuna:

„Þó svo að þjóðin sé að fara í gegnum miklar efnahagsþrengingar og það eigi að reyna að halda lífinu í hálfgjaldþrota fyrirtækjum til að atvinnulífið nái viðspyrnu eru takmörk sett hvað sé langt gengið og réttlæti til aðstoðar. Það ber að greina vandann hjá einstaka ferðaþjónustufyrirtækjum áður en frekari fjárhagsaðstoð er veitt, dugi hlutabótaleiðin ekki til. Það er með öllu óraunhæft og óboðlegt að skattborgurum sé sendur reikningur ferðaþjónustunnar, sem var löngu komin í fjárhagsvandræði áður en COVID-19 lét á sér kræla. Vítaverð uppbygging og græðgi átti sér stað.“

Í gær voru kynntar nýjar aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem ættu að gagnast mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum sem eru nánast verkefnalaus þessa dagana, ekki síst hvað varðar aðstoð við að greiða laun í uppsagnarfresti. Vilhelm segir hins vegar að endurreisn ferðaþjónustunnar standi ekki og falli með inngripi ríkisvaldsins:

„Það er mikil einföldun að halda að endurreisn ferðaþjónustu eigi sér ekki stað nema ríkissjóður skuldbindi sig upp í rjáfur. Tóm hótel hverfa ekkert og önnur flugfélög aðlaga sig að markaðinum og þar að auki er nægur tími til að endurskipuleggja ferðaþjónustuna þar til túristinn snýr aftur í einhverjum mæli. Þjóðin ætti að íhuga hvernig komið væri fyrir henni hefðu skuldir WOW air lent á herðum skattborgara þar sem félagið var yfirveðsett og átti aldrei möguleika á að verða sjálfbært. Það er ekki auðvelt að horfa upp á eða leggja til að þúsundir manna missi lífsviðurværi sitt, engu að síður þarf stundum að eiga sér stað kalt mat og líta til heildarhagsmuna. Það eru takmörk fyrir því hverju pínulítið hagkerfi stendur undir.“

Svo virðist vera sem Vilhelm sakni ekki erlendra ferðamanna því hann segir í lok greinar sinnar:

„Þjóðin hefur almennt ekki séð sér fært undanfarin ár að nýta sér veitinga- og hótelgistingu vítt og breitt um landið vegna svívirðilegrar verðlagningar. Það er löngu orðið tímabært að dregið sé úr óhóflegu flæði ferðamanna þar sem innviðir bera ekki þann fjölda sem hefur sótt landið heim seinni árin og ógnar lífi og öryggi landans sem og ferðamanna.“

Fyrirlitning og þórðargleði

Sigrún Elsa Smáradóttir, framkvæmdastjóri Iceland Exclusive Travels, ritar einnig grein í Morgunblaðið í dag sem virkar eins og andsvar við grein Vilhelms þó að svo sé í raun ekki. Sigrún bendir á að djúpir vasar tæmist líka og á þar við að enginn þrauki tekjuleysi til lengdar. Sigrún bendir jafnframt á framlag ferðaþjónustunnar til velsældar þjóðarinnar undanfarin ár:

„Sú fyrirlitning og þórðargleði sem einkennir tal margra sem tjá sig um málefni ferðaþjónustunnar er með öllu óskiljanleg. Ég fullyrði að varla er til sá Íslendingur sem ekki hefur notið góðs af vexti ferðaþjónustunnar á undanförnum árum. Hvort sem það er í byggingargreinum eða vegna aukinnar eftirspurnar eftir vörum og þjónustu af beinum völdum ferðamanna eða þeirra sem starfa í greininni, sterks gengis krónunnar vegna gjaldeyrisinnstreymis sem aukið hefur kaupmátt landsins gagnvart umheiminum og á án efa stærstan þátt í því að verðbólga hefur haldist í skefjum þrátt fyrir fádæma kauphækkanir undanfarinna ára. Ég fullyrði að þessar kauphækkanir frá hruninu 2008 hefðu aldrei komið til ef ekki hefði verið fyrir íslenska ferðaþjónustu og uppbyggingu og vöxt innan hennar.“

Sigrún segir það vera fjarstæðu að vænta þess að innlend eftirspurn muni halda uppi ferðaþjónustunni í sumar. Hún svarar jafnframt röddum sem hafa gagnrýnt ferðaþjónustuna fyrir mikla fjárfestingu:

„Það gefur augaleið að fyrirtæki í þessum geira hafa þurft að fara í fjárfestingar og uppbyggingu. Það er ekki hægt að fara úr því að taka á móti 300 þúsund ferðamönnum í á þriðju milljón ferðamanna á 10 árum án þess að það kalli á verulega innviðauppbyggingu. Það hefur ekkert með græðgi eða fyrirhyggjuleysi að gera, það er heilbrigð skynsemi sem komið hefur öllum efnahag landsins vel undanfarin 10 ár.“

Sigrún fer hörðum orðum um þá sem hún telur að hlakki í yfir óförum ferðaþjónustunnar:

„Það er til marks um skítlegt eðli að benda á fólk sem er að missa lífsviðurværi sitt og í sumum tilfellum allt sitt vegna utanaðkomandi óviðráðanlegra aðstæðna sem enginn gat séð fyrir og hía á það og segja að það geti kennt sér sjálft um, höfum það alveg á hreinu að þessi veirufaraldur er ekki íslenskri ferðaþjónustu að kenna.“

Sigrún bendir á að þjóðin eigi ferðaþjónustunni margt að þakka og ríkissjóður væri ekki svo vel í stakk búinn til að takast á við áfallið núna ef ekki hefði komið til framlag hennar í þjóðarbúið undanfarin ár.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Kvennaathvarfið nýtir gervigreind í nýrri vitundarvakningarherferð

Kvennaathvarfið nýtir gervigreind í nýrri vitundarvakningarherferð
Fréttir
Í gær

Holskefla ofbeldisbrota gagnvart börnum gæti skýrst af kórónuveirufaraldrinum

Holskefla ofbeldisbrota gagnvart börnum gæti skýrst af kórónuveirufaraldrinum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Solaris fordæma ummæli Helga

Solaris fordæma ummæli Helga
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Leiðrétting og afsökunarbeiðni

Leiðrétting og afsökunarbeiðni