Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur talað fyrir því að ríkið gangi inn í rekstur Icelandair og eignist hlut í félaginu. Aðgerðir sem ríkisstjórnin tilkynnti í gær fela í sér að hægt er að sækja um styrk til ríkisins til að fjármagna laun starfsfólks í uppsagnarfresti upp að 633.000 kr. mánaðarlaunum. Ágúst hefur reiknað út að þetta þýði 7 milljarða til Icelandair við að fjármagna laun starfsfólks fyrirtækisins í uppsagnarfresti en Icelandair sagði upp yfir 2000 manns í gær.
Ágúst telur að í ljósi þessara tíðinda væri æskilegt að ríkið eignaðist ráðandi hlut í flugfélaginu og fær þannig með meirihlutavald í stjórnun þess. Birti hann eftirfarandi pistil um málið í morgun:
Stóra málið í dag er Icelandair. Í gær var ákveðið að fjármagna uppsagnir þess fyrirtækis með allt að 7 milljörðum af skattfé og er sá styrkur í raun helmingur af núverandi markaðsvirði Icelandair sem er núna undir 14 milljörðum kr. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort það hefði kannski verið nær að ríkið eignaðist beinlínis eignarhlut í Icelandair samhliða ríkisaðstoðinni?
Þá kemur fram í Fréttablaðinu í dag að fyrirtækið sé að leita sér að nýju hlutafé á umtalsverðum afslætti miðað við núverandi markaðsvirði (sem er nota bene undir 14 ma kr. en var 190 ma árið 2016). Þar kemur fram að fyrirtækinu vantar 22-29 ma kr. Í stóra samhengi ríkisfjármála sem velta 1.000 milljörðum eru 29 ma ekki há fjárhæð eða eingöngu 3% af fjárlögunum.
Í ljósi mikilvægi fyrirtækisins velti ég aftur fyrir mér hvort ekki sé rétt að ríkið eignist hreinlega ráðandi hlut í félaginu. Bjargi félaginu svo ég tali nú bara mannamál, en þannig að almenningur eignist eitthvað á móti ríkisstuðningnum.
Sænska og danska ríkið á nú í SAS, finnska ríkið á í Finnair, hollenska ríkið á í KLM, franska ríkið á í Air France, Nýja-Sjáland á í Air New Zealand og þýska ríkið er að íhuga að eignast í Lufthansa.
Við sem þjóð stöndum nú frammi fyrir neyðarástandi eins og í bankahruninu en þá yfirtókum við bankana, lífæð okkar í fjármálum. Nú er annað þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki að riða til falls, fyrirtæki sem er lífæð okkar í samgöngum.
Með eignarhlut ríkisins í Icelandair væri hægt að verja störf og starfsemi þessa mikilvæga fyrirtækis. Og almenningur hagnast á öflugu félagi, sem getur risið upp á nýjan leik, hratt og vel.