Gunnsteinn Svavar Sigurðsson, lést á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík í gær af völdum COVID-19. Frá þessu greinir miðillinn Bæjarins besta á Ísafirði.
Gunnsteinn var fæddur árið 1938 og búsettur í Bolungarvík. Hann var fyrsti íbúinn á Bergi sem greindist með veiruna.
Tveir íbúar á Bergi eru smitaðir af COVID-19 og er búið að taka sýni af þremur öðrum heimilismönnum. Meirihluti fastra starfsmanna á hjúkrunarheimilinu er sagður vera í einangrun, þar af fimm með staðfest COVID-19 smit.
Aðrir fastir starfsmenn eru flestir í sóttkví og er starfinu nú nær eingöngu sinnt af fólki úr bakvarðarsveit eða öðrum deildum stofnunarinnar.