Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hóf upplýsingafund dagsins um COVID-19 á því að þakka ljósvakamiðlum fyrir frábæra dagskrá um helgina sem hefði hjálpað fólki, þar á meðal honum, að gleyma kórónuveirunni um stund. Þórólfur var sérstaklega þakklátur Helga Björnssyni og Reiðmönnum vindanna fyrir tónlistarflutning þeirra í Sjónvarpi símans.
Þórólfur tók það sérstaklega fram að hann hefði horft á Helga og félaga alsgáður og ekki drukkið áfengi yfir útsendingunni. Þórólfur sagði: „Ég þori ekki að segja Helgi Eff Björns…“
Sextíu og sex voru greindir með sjúkdóminn síðasta sólarhring. Fimm hundruð og tíu sýni voru tekin á veirufræðideildinni og var hlutfall smitaðra 12%. Hlutfall smitaðra í skimun Íslenskrar erfðagreiningar er enn mjög lágt eða um 1%
„Faraldurinn er í hægum línulegum vexti, en ekki í veldisvexti eins og ef hann hefði verið látinn vaxa óheftur. Hann er að fylgja spálíkani síðustu viku. Fjöldi tilfella er að fylgja bestu spá og líklegt er að faraldurinn nái hámarki í byrjun apríl,“ sagði Þórólfur.
Kom einnig fram í tali Þórólfs að fjöldi innlagðra á Landspítalanum er 30, þar af eru 10 í gjörgæslu og 7 í öndunarvél.
Þórólfur sagði að aflétta þyrfti aðgerðum á borð við samkomubann hægt. Ekki var hægt að greina á máli hans að aðgerðir yrðu almennt hertar.