„Sú veira sem kom upp á matarmarkaði í Wuhan í Kína og nú geisar er talin hafa borist frá leðurblöku í svokallað hreisturdýr, sem er mauraæta, og þaðan í mann. Á þessum mörkuðum geta menn fengið ferskt kjöt og orðið vitni að því þegar dýrunum er slátrað og gert að þeim, þar sem blóð, saur og annar úrgangur flýtur oft um gólf þótt reynt sé að skola slíkt í burtu með vatnsslöngu. Þá hefur iðulega sést að verið er að nota sama hnífinn á eitt dýrið af öðru án hanska, svo eitthvað sé nefnt um vinnubrögðin þarna. Í stuttu máli þá er sóðaskapurinn á þessum matarmörkuðum oft og tíðum skelfilegur og ekki fyrir viðkvæma að fylgjast með aðförunum við slátrun og aðgerð á dýrunum. Sumir markaðanna eru undir berum himni og hreinlæti oftar en ekki af skornum skammti og þrifnaður ekki í hávegum hafður. Að geta rústað umheiminum eingöngu með eigin sóðaskap er áhyggjuefni.“
Svona lýsir Jónas Haraldsson lögfræðingur útimatarmörkuðum í Kína í grein í Morgunblaðinu í dag. Jónas, sem hefur kynnt sér markaði af þessu tagi, segir að Kínverjar skuldi heimsbyggðinni skaðabætur vegna kórónuveirunnar. Um það skrifar hann:
„Að lokum má velta því fyrir sér hvort stjórnvöld í Kína hafi hugleitt að bæta þjóðum heims þótt ekki væri nema lítinn hluta af því gríðarlega fjártjóni, sem þessi kínverska veira nr. 2 er að valda og mun valda. Mannfallið verður þó aldrei bætt eða eyðileggingin á daglegu lífi fólks og mannlegum samskiptum.“
Jónas segir að vissulega hafi Kínverjar staðið sig vel varðandi upplýsingaöflun til umheimsins um veiruna en líkja megi því við mann sem er valdur að gífurlegum eldsvoða með tilheyrandi eyðileggingu og tjóni en slekkur sjálfur eldinn í húsinu sínu og veitir upplýsingar um hvernig best sé að slökkva eldinn í öllum hinum húsunum sem eldurinn barst í.