Núna hafa 180 einstaklingar hér á landi greinst með kórónuveiruna. Langflestir eru á höfuðborgarsvæðinu en smit eru farin að láta kræla á sér víðar og hafa greinst í þremur öðrum landshlutum. Þetta kom fram á daglegum upplýsingafundi um COVID-19 í dag. Nákvæma tölfræði um smitin er að finna á vefnum covid.is.
Þrír eru á spítala með sjúkdóminn, þar af tveir á gjörgæslu, en ekki er annars vitað nánar um líðan þeirra.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vildi á fundinum leiðrétta þann misskilning að stefnt væri að hjarðónæmi veirunnar hér á landi, en það skapast ef 60% þjóðarinnar smitast. Takmarkið sé að minnka útbreiðsluna eins og hægt er og hægja á útbreiðslunni. „Við vitum ekki hvað margir sýkjast. Vonandi sem fæstir og þá sérstaklega úr viðkvæmum hópum,“ sagði Þórólfur.