Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, segir það til skammar hvernig sóttvarnalæknir, Þórólfur Guðnason, frestar ákvörðunartöku hvað varðar COVID-19 vírusinn. Frosti löngu komin tími á harðari aðgerðir. Þórólfur sagði á blaðamannafundi áðan að starfshópur væri að skoða málið. Á Facebook segir Frosti:
„Sóttvarnarlæknir segir: Alls 1000 sýni hafa verið rannsökuð og 109 greinst með veiruna. Í sóttkví eru 900 manns. Tveir komnir í einangrun á spítala. Sóttvarnarlæknir segir óljóst hvernig eigi að beita samkomubanni. Segir þetta allt í vinnslu. Heilbrigðisráðherra ákveður það að lokum. Skýrist á allra næstu dögum…“
Hann segir þetta galna hegðun andspænis COVID-19 veirunni. „Þetta úrræðaleysi og frestunarárátta er í raun ákvörðun um að veiran fái næði til að tvöfalda útbreiðslu sína í samfélaginu en það gerir hún á 3-4 daga fresti nema samkomubann sé ákveðið. Fjöldi smita í samfélaginu er óþekktur og afleiðing þess að leyfa þeim að tvöfaldast er áhættusamt. Það getur leitt til þess að heilbrigðiskerfið fari hér á hliðina. Þá verður ekki hægt að veita öllum þá þjónustu sem þörf er á – Ítalskir læknar þekkja þá hörmung sem þá blasir við,“ segir Frosti.
Hann bætir því við að helstu nágrannalönd okkar séu að bregðast örðu vísi við, þó smithlutfallið sé lægra þar: „Danir, Norðmenn, Írar og fleiri þjóðir hafa svarað ákalli Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, þær taka ekki neina áhættu og grípa til harðra aðgerða gegn veirunni. Þetta úrræða- og aðgerðaleysi sóttvarnarlæknis er skelfilegt.“