„Ég heyrði utan af mér að Inga Sæland alþingismaður hefði lagt til að allir Íslendingar sem koma frá Tenerife verði settir í sóttkví í Egilshöll vegna hættu á sýkingu vegna Coronavírussins sem heitir einhverju allt öðru nafni á Íslandi,“ segir Anna á Facebook-síðu sinni en þar heldur hún dagbók um dvölina á Tenerife.
Anna bendir á að í gær hafi 400 farþegar farið frá Tenerife til Íslands með flugfélögunum Icelandair og Norwegian Airlines. „Er Egilshöll nógu stór fyrir 400 manns í einangrun?“ spyr Anna. „Það fór einhver fjöldi til Íslands í síðustu viku og þegar þessir 400 farþegar sem komu í stað þeirra sem fóru til Íslands skila sér aftur til Íslands bætist annar eins fjöldi við. Við erum að tala um þúsundir Íslendinga sem eru að skila sér heim frá Paradís. Gleymdu þessu.“
Þá segir Anna að ofan á þetta bætis við þeir Íslendingar sem koma frá Ítalíu, Austurríki og víðar frá Evrópu. „Hugmyndin er arfavitlaus og Egilshöll rúmar einungis hluta þeirra ferðamanna sem koma til Íslands frá löndum sem hafa kynnst Coronavírusnum.“
„Það er til önnur hugmynd,“ segir Anna en hún tekur fram að hún gæti verið verri en hugmynd Ingu en þó mun áhrifaríkari um sinn. „Það er einfaldlega að loka landinu fyrir öllu flugi frá útlöndum. Setja svo öll skip sem koma frá útlöndum í sóttkví með hafnbanni og skríða aftur inn í moldarkofana.“