Fjölmiðlakonan María Lilja Þrastardóttir gagnrýnir harðlega viðburðinn Milljarður rís sem er á vegum samtakanna UN Women Íslandi. Samtökin lýsa viðburðinum sem „dansbyltingu“ og eru allir hvatir til að „taka afstöðu gegn kynbundnu ofbeldi með því að koma saman á stærsta dansviðburð ársins og dansa“.
María Lilja segir á Twitter að þetta sé gjörsamlega tilgangslaus viðburður fyrir elítu. „Getum við hætt að tala um #milljardurris sem eitthvað annað en riiiisa virtue signalling partí fyrir hvítar millistéttakonur úr miðbænum og annað þotulið sem hefur tök á að skreppa lauflétt úr vinnunni um miðjan dag til að dansa við Kaffibars-DJ’s,“ segir María Lilja og heldur áfram:
„Ég er ekki að reyna að vera leiðinleg (ég er það bara) en heldur einhver í alvöru að karlar hætti bara að berja og meiða konur afþví exklúsívur hópur kemur árlega saman og skakar sér oggupons í glerhúsi á höfninni.“
Hún segir að það sé engin leið að stöðva kynbundið ofbeldi með þessu. „Getiði bara kallað spade a spade og hætt að djamma útaf ofbeldi. Þrátt fyrir alla þessa dynjandi tónlist er líklega fátt taktlausara en þessi gjörningur fólks sem talar svo um að; “senda ofbeldi fingurinn”. Ég veit að þetta á eftir að koma mjög illa við margt fólk sem ég þekki og ég bið ykkur einlæglega að rjúka ekki beint i vörn heldur skoða aðeins hvort þetta sé virkilega hóll þess virði að deyja á,“ segir María Lilja.
Getum við hætt að tala um #milljardurris sem eitthvað annað en riiiisa virtue signalling partí fyrir hvítar millistéttakonur úr miðbænum og annað þotulið sem hefur tök á að skreppa lauflétt úr vinnunni um miðjan dag til að dansa við Kaffibars-DJ’s.
— M. L. Th. Kemp (@marialiljath) February 11, 2020
Viðburðurinn fer fram á föstudaginn og er lýst svo á heimasíðu UN Women: „Milljarður rís hefst klukkan 12.15 að hádegi í Silfurbergi í Hörpu og lýkur klukkan 13.00. Þá fara fram viðburðir á sama tíma á eftirfarandi stöðum: íþróttahúsinu Neskaupstað, félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði, Fosshótel á Húsavík, íþróttahúsinu á Sauðárkróki, íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum, í Hvatastöðinni í Hólmavík, íþróttahúsinu Grundarfirði, íþróttahúsinu Iðu Selfossi, Nýheimum á Höfn í Hornafirði og Hofi á Akureyri.“