fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Jóhanna nefnir hina ástæðuna fyrir því að unga fólkið ætti að halda sig frá sykurlausu orkudrykkjunum

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 5. febrúar 2020 09:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Næringarfræðingar og fleiri hafa varað við neyslu á sykurlausum koffíndrykkjum, meðal annars í ljósi þeirra áhrifa sem drykkirnir geta haft á svefn barna og ungmenna. Þá eru ótalin þau slæmu áhrif sem þeir geta haft á hjarta- og æðakerfið.

Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands, nefnir þó aðra stóra ástæðu fyrir því að fólk ætti að halda sig frá neyslu sykurlausra orkudrykkja. Þeir séu nefnilega alveg jafn glerungseyðandi og þeir sykruðu og því slæmir fyrir tennurnar.

Sjá einnig:
Lára með mikilvæg skilaboð: Vissirðu þetta um orkudrykki?

Jafn slæmir og þeir sykruðu

Nú stendur yfir árleg tannverndarvika Tannlæknafélags Íslands og Embættis landlæknis. „Áherslan að þessu sinni verður vitundarvakning um glerungseyðandi áhrif orkudrykkja. Neysla á slíkum drykkjum hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og þá sérstaklega meðal ungs fólks. Búðahillurnar sem áður innihéldu gosdrykki eru nú uppfullar af nýjum tegundum orku- og íþróttadrykkja,“ segir Jóhanna í grein sinni í Morgunblaðinu í dag.

Hún bendir á að þessir drykkir séu markaðssettir sem heilsuvara og fyrir þá sem hugsa um heilsuna. Tannlæknar hafi þó miklar áhyggjur af þessari þróun enda drykkirnir mjög skaðlegir tannheilsunni.

„Orkudrykkir eru glerungseyðandi og mjög skaðlegir fyrir tennur. Hvort drykkurinn er glerungseyðandi hefur ekkert með sykurinnihald að gera heldur sýrustig. Sykurlausir orkudrykkir eru því jafn glerungseyðandi og þeir sykruðu,“ segir hún.

Harðasta efni líkamans

Jóhanna nefnir svo mikilvægi glerungsins fyrir tennurnar. Hann er ysta lag tannanna, harðasta efni líkamans og í raun varnarskel tannarinnar. Ef hann eyðist þá þynnist tönnin jafnt og þétt. Glerungseyðing geri það að verkum að tönnin verður viðkvæmari fyrir hverskonar áreiti; hita, kulda og tannskemmdum. Þetta er sérstaklega slæmt í ljósi þess að glerungurinn kemur ekki aftur þegar hann eyðist.

„Við neyslu á súrum drykkjum fellur sýrustigið í munni. Við lágt sýrustig eyðist glerungur tanna. Munnvatnið gegnir mikilvægu hlutverki við að koma sýrustiginu aftur í eðlilegt horf. Eftir því sem neyslutímabil drykkjarins er lengra því erfiðara er fyrir munnvatnið að sinna þessu varnarhlutverki sínu,“ segir Jóhanna sem varpar svo ljósi á hvað það er í orkudrykkjum sem gera þá glerungseyðandi.

„Lengi vel var talið að kolsýra væri orsakaþátturinn hvað varðar glerungseyðingu. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að það eru sýrur sem eru notaðar til að auka endingu drykkjanna sem eru glerungseyðandi. Þessar sýrur eru sítrónusýra og fosfórsýra. Ef drykkir innihalda þessar sýrur getur maður gengið að því vísu að þeir hafi lágt sýrustig og eru því að öllum líkindum glerungseyðandi.

Þetta skaltu gera eftir neyslu

Jóhanna segir að rannsóknir sýni að neyslumynstur hafi mikið að segja um hversu mikil glerungseyðing verður. Hún gefur svo lesendum ráð hvernig best er að drekka orkudrykki séu þeir á annað borð drukknir.

„Ef drykkjanna er neytt yfir langt tímabil og sífellt verið að taka sopa og sopa viðhelst súra ástandið í munninum og glerungseyðingin verður meiri fyrir vikið. Best er að sleppa því að drekka súra drykki en ef þeir eru drukknir er best að gera það hratt og með mat. Einnig má notast við rör sem beinir sýrunni frá tönnunum.“

Jóhanna segir fagfólk hafa áhyggjur af því hvernig orkudrykkirnir eru markaðssettir. Þeir séu auglýstir mikið og ekki bæti úr skák að afreksíþróttafólk sé fengið til að auglýsa drykkina. Þeir séu markaðssettir sem heilsuvara og – eins og nefnt er að framan – fyrir fóllk sem er umhugað um heilsuna. Nú sé staðan þannig að ungt fólk fari varla í ræktina án þess að drekka súran drykk.

Alls ekki bursta strax

„Slík markaðssetning er auðvitað mjög villandi og hreint út sagt kolröng. Þessir drykkir hafa skaðleg áhrif á líkamann og alls ekki ætlaðir fyrir börn og unglinga. Mikilvægt er að foreldrar átti sig á skaðsemi orkudrykkja og leiðbeini börnum sínum. Besti, ódýrasti og umhverfisvænasti svaladrykkurinn er auðvitað íslenska vatnið,“ segir hún. Hún hvetur fólk svo að lokum til að huga að nokkrum atriðum eftir neyslu á orkudrykkjum.

„Alls ekki bursta tennur beint eftir neyslu á orkudrykkjum. Strax eftir neyslu er glerungurinn sérstaklega viðkvæmur og tannburstun getur stuðlað að aukinni glerungseyðingu. Eftir neyslu á súrum drykkjum er gott að skola munn með vatni og borða kalkríka færðu eins og ost eða drekka mjólk til að sýrustigið í munninum nái fyrr að komast í eðlilegt horf.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Auglýsingar 20Bet að gera Íslendinga sturlaða – „Ég er við það að hætta alveg að horfa á YouTube“

Auglýsingar 20Bet að gera Íslendinga sturlaða – „Ég er við það að hætta alveg að horfa á YouTube“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Bryggjan brugghús komið á sölu

Bryggjan brugghús komið á sölu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur