„264 þúsund krónur fyrir vaktavinnu, kvöld-, helgarvaktir og rauða daga. Suma daga er ég í vinnunni frá 8–23 af því að það sárvantar mannskap.
Fokk ðis!“
Þetta segir Anna Jóna Heimisdóttir, starfsmaður á hjúkrunarheimilinu Seltjörn, en hún vakti mikla athygli á dögunum þegar hún birti færslu á Facebook þar sem hún tjáði sig um launin sem hún fær fyrir krefjandi starf sitt. Anna Jóna er í stéttarfélagi Eflingar, sem hefur verið á margra vörum undanfarnar vikur í ljósi boðaðra verkstöðvana, sem þegar eru hafnar á völdum vinnustöðum. Tekur Anna Jóna fram að um sé að ræða starfssvið þar sem bugun sé aldrei langt undan og að nauðsynlega þurfi að fá nýjan flöt á málin.
Í samtali við DV segir Anna Jóna að enginn starfsmaður á hjúkrunarheimilinu Seltjörn sé í fullu starfi þótt hún upplifi vaktir sínar eins og yfirgnæfandi yfirvinnu. Anna Jóna er sjálf í 80% starfi og þykir henni fráleitt að enginn sé ráðinn í hærra starfshlutfall.
„Vinnan er andlega og líkamlega erfið og með þessi laun erum við alltaf blönk í lok mánaðar,“ segir Anna Jóna. „Þegar þau laun sem við svo loks fáum ná ekki að dekka reikninga og útgjöld kemur bara yfir mig ákveðin bugun. Ég geri svo sem ekkert ráð fyrir því að nokkuð breytist, en er ekki öll umræða af hinu góða?“
Bætir Anna Jóna við að samstarfsfólkið og skjólstæðingarnir sem hún vinnur með séu ástæðan fyrir því að líðan hennar hafi ekki hríðversnað. „Það er aldrei langt í bugun í svona vinnu, sem þýðir auðvitað að það sé mikil velta á starfsfólki og það býður upp á mikið óöryggi fyrir íbúa,“ segir hún.
„Skítalaun hafa svo sem ekki áhrif á vinnumetnað minn, en það er skítt að vinna alla daga fyrir hugsjónina eina saman. Það er oft sem ég óska þess að mér væri bara skítsama.“
Í stöðufærslunni umtöluðu lýsir hún útlistar hún hvað felist í starfi hennar og segir launin ekki vera mannsæmandi miðað við vinnutíma og álag.
Anna Jóna segir:
Heilar 264 þúsund krónur…
…Fyrir að hugsa um eldri borgara.
…Fyrir að þrífa þegar þau kúka á gólfið, þegar þau pissa út í horn.
…Fyrir að hugga þau þegar þau gráta, fyrir að lesa þau eða syngja í svefn.
… Fyrir að raka og klæða og þvo þeim sem deyja og fyrir að hlusta á og hugga aðstandendur.
…Fyrir að mata fólk sem er hrætt og vill fara heim, fyrir að grípa þau þegar þau detta og fylgja þeim þegar þau eru í göngutúrum á slóðum fortíðar.
Ég hughreysti þau þegar þau vita ekki hvar þau eru, sakna barnanna sinna og löngu dáinna vina, ættingja, maka og þegar þau eru óhuggandi af hræðslu af því þau skilja ekki lengur neitt í kringum sig.
Þau eru hrædd við vatnið í sturtunni, svo ég þvæ þeim með þvottapoka.
Síðustu dagana í lífi fólksins sem skapaði allt sem við höfum byggt á held ég í hendina á þeim, græt með þeim og hlæ með þeim.