„Við erum búin að vinna 20 ár að því að rannsaka erfðir líkamsþyngdar. Hvernig breytileikar í erfðamengi mannsins hafa áhrif á hversu mikla þyngd menn bera með sér, og síðan hvernig þyngdin hefur áhrif á annars konar vandamál og sjúkdóma. Hvernig hún eykur líkurnar á hjartabilun, háþrýstingi og alls konar krabbameinum.“
Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, í samtali við Síðdegisútvarpið en samkvæmt nýlegum rannsóknum er offita algengari á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. „Það má að mörgu leyti líta á offitu sem fíknisjúkdóm,“ segir hann.
„Þá er spurningin hvernig þessir breytileikar í erfðamenginu hafa áhrif á líkamsþyngd. Þessi breytileikar gera það að mestu leyti með því að hafa áhrif á hegðun, offita er að mörgu leyti hegðunarvandamál.“ Breytileikarnir sem hafi áhrif á líkamsþyngd séu flestir í erfðavísum sem eru tjáðir í heila. „Og ætti engum að koma á óvart vegna þess að það sem hefur mest áhrif á hversu þung við erum er hvað við borðum. Það má að mörgu leyti líta á offitu sem fíknisjúkdóm. Vegna þess að offitan markast af endurtekinni hegðun sem er að mörgu leyti svipuð þeirri hjá fíklinum sem sprautar sig með morfíni eða drekkur áfengi.“
„Ofboðslega hættulegt efni“
Kári segir það sé vitað mál að offita hafi mjög mikil áhrif á alvarlega sjúkdóma. Hann þekkir til vísindamanna og fyrirtækja sem séu að þróa lyf sem komi í veg fyrir offitu. Að sögn Kára eru engin góð lyf á markaði til að fyrirbyggja eða lækna offitu.
„Þau lyf sem við þekkjum sem hafa áhrif á að minnka matarlist eru lyf með miklar aukaverkanir eins og amfetamín.“ Amfetamín minnkar mjög matarlist og hefur grennandi áhrif en það er mat samfélagsins að aukaverkanirnar séu það miklar að ekki sé réttlætanlegt að nota það. „Þá er það spurning, er hægt að búa til þannig afbrigði af amfetamíni sem hefur eingöngu þau áhrif að minnka matarlist en ekki þessa miklu fíkn og hækkun í blóðþrýstingi, aukningi á hjartaáföllum og heilablóðföllum, því amfetamín er ofboðslega hættulegt efni. En það hefur ekki tekist.“