fbpx
Miðvikudagur 13.nóvember 2024
Fréttir

Pólitíkin er lífstíðardómur en auðveldur afplánunar

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 31. janúar 2020 20:30

Ögmundur Jónasson. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hokinn af reynslu Ögmund Jónasson þekkja flestir Íslendingar sem fyrrverandi þingmann, ráðherra og formann BSRB. Mynd: Eyþór Árnason

Það er stund lægða á milli grámyglulegan janúareftirmiðdag er blaðamaður bankar upp á í Vesturbæ Reykjavíkur. Húsráðandi verður þó seint kallaður grámyglulegur. Það er hann Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og formaður BSRB, sem kemur snarlega til dyra og býður blaðamanni inn í hlýjuna. Heimili hans hefur sál, sál sem gjarnan fylgir heimilum þar sem fjölskyldur hafa búið um margra ára bil. Hér hefur verið líf, börn, barnabörn, hlátur, grátur, gleði og sorg. Ögmundur er kominn á eftirlaun. En frá hugsjónum sínum fær hann þó engan frið. Þar brennur eldmóðurinn sem aldrei fyrr og nú hefur Ögmundur farið af stað með fundaröð þar sem ætlunin er að takast á við eitt helsta þrætuepli í pönnukökuboðum á Íslandi síðustu áratugi – kvótann.

Ekki barátta við vindmyllur

Er ekki baráttan við kvótakerfið svolítið álíka og barátta Don Kíkóta við vindmyllurnar?

„Undiraldan í samfélaginu er núna að rísa af slíkum þunga að stjórnmálamenn munu sjá sig knúna til að gera róttækar breytingar á kerfinu. Ef ekki, þá þekkja þeir ekki sinn vitjunartíma. Það er einkum tvennt sem er að galopna augu þjóðarinnar þessa dagana. Annars vegar er það spillingarmál Samherja í Namibíu og hins vegar er það nokkuð sem hefur gert  mörgum hverft við, en það er sú staðreynd að Hæstiréttur hefur gefið stórútgerðunum skotleyfi á almenning með dómi í makrílmálinu svonefnda. Stóru sjávarútvegsfyrirtækin í landinu voru ósátt við að fá ekki að sitja ein að makrílnum sem kom í áður óþekktum torfum inn á flóa og firði og bjargaði efnahag landsins eftir hrunið. Hæstiréttur gaf stórútgerðunum þá grænt ljós á skaðabótakröfu á hendur almenningi. Meintur glæpur samfélagsins er sá að þáverandi sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, hafði í samræmi við fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða viljað að smærri útgerðir fengju einhvern aðgang að þessum nýja nytjafiski svo styrkja mætti byggðir um allt land við erfiðar aðstæður. Nei, takk, við viljum allt inn í okkar kvóta, bæði gamalt og nýtt, sögðu stórfyrirtækin og hafa nú heimild Hæstaréttar til að gera fjárkröfu á sjúkrahúsin okkar, bráðamóttökuna, barnaskólana, það er að segja, okkur öll sem skattgreiðendur.“

Að sögn Ögmundar er því svar við spurningu blaðamanns skýrt.

„Ég svara henni alveg tvímælalaust og afgerandi neitandi. Það er ekki verið að berjast við vindmyllur. Það er verið að berjast við veruleika sem ég tel að við sem samfélag viljum breyta og verðum að breyta.“

Til róttækrar skoðunar

Fundir Ögmundar um kvótamálin eru liður í fundaröð á hans vegum – Til róttækrar skoðunar – en um þetta tiltekna málefni hefur hann fengið til liðs við sig Gunnar Smára Egilsson, blaðamann og einn stofnenda Sósíalistaflokksins. Fyrsti fundurinn var haldinn laugardaginn 11. janúar í Þjóðmenningarhúsinu og var þar, að sögn Ögmundar, húsfyllir.

„Þetta var fyrsti fundur af mörgum. Hann var gríðarlega kraftmikill, svo fjölmennur að margir urðu frá að hverfa. Það var engin tilviljun að ég leitaði til Gunnars Smára því hann hefur skrifað um málefnið í langan tíma bæði af gagnrýni og mikilli þekkingu og viti og er nálgun hans auk þess nýstárleg. Það verður fundur á Akranesi laugardaginn 1. febrúar og síðan verður förinni haldið áfram til Þorlákshafnar og við munum svo fara víðar um landið. Þjóðin þarf öll að taka þessa umræðu.“

Ögmundur gefur ekki mikið fyrir kvótakerfið eins og við höfum þekkt það undanfarna þrjá áratugi. En hvað með þau rök, þá réttlætingu sem fylgdi kvótakerfinu? Sjónarmið um vernd fiskistofnanna og til að sporna gegn ofveiði?

Tveir ólíkir þættir kvótans

Umræða um kvóta snýst um tvo ólíka þætti. Annars vegar fiskveiðistjórnunarkerfi til að vernda fiskistofnana og fyrirbyggja ofveiði, og hins vegar kvóta sem hlutdeild í auðlind. Það er seinni þátturinn sem gagnrýni Ögmundar lýtur að. Kvótanum í núverandi mynd var komið á með lögum árið 1990.

„Þau lög hafa reynst okkur mikill skaðvaldur í mörgu tilliti. Kerfið hefur þannig valdið gríðarlegri byggðaröskun. Það hefur valdið misrétti í þjóðfélaginu og svo spillingu líka. Við fáum innsýn í þetta öðru hverju. Við þekkjum það náttúrlega öll hvernig kvótinn hefur færst á milli byggðarlaga, landshorna á milli og þekkjum vel hvernig sala, verslun með kvóta og svo leiga hefur fært mörgum mikinn auð í vasann á meðan  lífsviðurværi annarra hefur verið numið á brott. Svo má bæta því við að verslun með óveiddan fisk, afla morgundagsins sem er þó raungerður í bankakerfinu núna með veðveitingum og fjárfestingum utan greinarinnar, hún færði auð upp úr sjónum, út úr útgerðinni, frá byggðunum og síðan út fyrir landsteinana. Þetta er ein af skýringunum á hruninu, eða það er ég sannfærður um. Þannig að kvótakerfið hefur sitt af hverju á samviskunni.“

Þar með hefur kvótinn í reynd gengið gegn upphafsákvæði laganna sem kveður á um að nytjastofnar séu sameign þjóðarinnar og eigi að styrkja byggðir landsins.

„Á þessari fyrrum glæsilegu verstöð eru aðeins gerðir út tveir litlir bátar“

Ögmundur nefnir fjölda byggða á Íslandi sem kvótinn hefur leikið grátt. Til að mynda Akranes.

„Núna á síðustu 15 árum þá var góður ásetningur þeirra sem voru á bak við sameiningu Haralds Böðvarssonar og Granda, frá Akraness hálfu allavega. En síðan leiddi þetta til þess að Skagamenn missa undirtökin í hinu nýja, sameinaða fyrirtæki og allt hverfur á brott frá Akranesi þvert á loforð og heitstrengingar. Á þessari fyrrum glæsilegu verstöð eru aðeins gerðir út tveir litlir bátar að því er mér er sagt. Ég get nefnt fjölda annarra sveitarfélaga. Allir bæir á Reykjanesi að Grindavík undanskilinni. Þorlákshöfn hefur orðið fyrir hverju áfallinu á fætur öðru, allir bæir á Vestfjörðum nema kannski Bolungarvík. Svo er það Húsavík á norðausturhorninu og dæmin eru víðar. Alls staðar heyrum við sömu söguna. Því var haldið fram að besta leiðin til að tryggja byggðina væri að fá öflugt sjávarútvegsfyrirtæki til að taka yfir útgerðina og kvótann. Stuttu síðar, stundum eftir fáein ár, en stundum eftir aðeins nokkra mánuði var kvótinn hins vegar á burt og með honum vinna fólksins.“

En hvað ef núverandi kvótakerfi verður lagt niður? Væri það strax skárra ef hægt væri að fyrirbyggja að kvótinn safnaðist á hendur fárra? Hvernig sérðu fyrir þér framtíðina án núverandi fyrirkomulags?

„Í mínum huga þarf fyrst að ná kvótanum heim og það er yfirskrift þessara funda sem ég stend fyrir þessa dagana: Gerum Ísland heilt á ný – kvótann heim. Þetta þýðir að tryggt verði ekki bara í orði heldur á borði að sjávarauðlindin sé eign samfélagsins, fólksins sem byggir Ísland. VG var á sínum tíma með hugmynd um fyrningu kvótans og að drjúgur hluti hans færi til byggðanna. Samfylkingin var einnig með fyrningu á sinni stefnuskrá og Frjálslyndir voru beinlínis stofnaðir um afnám kvótakerfisins. Svo voru einstaklingar í öðrum flokkum að beita sér fyrir breytingum. Það er engin ein patentlausn á þessu. En fyrsta skrefið er að rjúfa þessa hefðartengingu sem greinilega er að ná rótfestu í dómskerfinu. Það er illt ef Hæstiréttur landsins ætlar að innsigla ranglætið með lagatúlkun í þágu einkahagsmuna og þá þvert á lagaákvæði sem vísa til byggðasjónarmiða og almannahags. Þar næst þarf að finna út hvernig heimildum til veiða verði ráðstafað og hvernig megi tengja þær  í ríkara mæli við byggðirnar. Sumir vilja allt á uppboð. En þar með væri eftir sem áður óvissan skilin eftir í byggðunum.“

Ísland heilt á ný Ögmundur vill fá kvótann heim til þjóðarinnar. Mynd: Eyþór Árnason

Orkupakkinn

En það eru mun fleiri mál en kvótamálin sem eru Ögmundi hugleikin. Hann var ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir hönd Vinstri grænna og sat þar að auki um árabil á þingi sem kjörinn fulltrúi VG. Hann er hins vegar óánægður með sína gömlu félaga þegar kemur að einu mesta hitamáli síðasta árs, orkupakka þrjú.

„Þetta mál varð mér mikið hryggðarefni. Að ríkisstjórn með VG innanborðs skyldi ekki stöðva það. Ég held að það sé að verða ákveðin afstöðubreyting hjá stjórnmálamönnum á vinstri vængnum, þar sem þeir eru í raun að undirgangast forsendur markaðshyggjunnar. Hugsunin er þá þessi: Nú búum við til sjóð, Auðlindasjóð, og reynum að ná eins miklum arði af auðlindunum og kostur er inn í þennan sjóð. Ef það gengur eftir skiptir minna máli hver það er sem rekur auðlindirnar, hver annast umsýsluna svo lengi sem við fáum nægilegan arð í okkar sameiginlega sjóð.

Svona er hugsað. Ég lít hins vegar svo á að með þessu móti sé verið að byggja inn í kerfið hvata til frekari og frekrar nýtingar á orku og til virkjana, umfram brýna þörf, sem umhverfisverndarsinnar eiga að forðast í lengstu lög. Við eigum að njóta þessara auðæfa, raforkunnar og vatnsins milliliðalaust en ekki með því að deila arði með fjárfestum.“

Heldurðu að arðsemiskröfur ríkisstjórnarinnar séu orðnar of miklar?

„Þessi hugsun um arðsemi og arð, hvort sem er af sjávarauðlindinni eða öðrum auðlindum er rangur vegvísir. Tökum sjávarauðlindina sem dæmi. Hvar hefur ávinningurinn af nýtingu hennar legið? Talsmenn kvótakerfisins segja að sjávarútvegurinn skili meiri arði en nokkurn tímann áður – þetta þýðir á þeirra máli að hægt sé að taka meiri peninga út úr auðlindinni. En mikill arður í vasa fárra er ekki hagkvæmur fyrir þjóðina. Arðurinn eins og ég vil sjá hann er í maganum á þjóðinni. Arðurinn, eða ávinningurinn öllu heldur, er í atvinnustarfsemi sem er rekin í landinu og á að felast í því hvernig þúsundir einstaklinga og fjölskyldna hafa lífsviðurværi sitt og hvernig við í sameiningu nýtum auðlindir okkar til að byggja upp samfélag; með öðrum orðum, ávinningurinn á að birtast í  lífsgæðum okkar allra.“

Stiginn út fyrir flokkakerfi stjórnmálanna

Markaði orkupakkamálið vatnaskil hjá þér, hefur þú sagt skilið við Vinstri græn?

„Ég er vinstrisinnaður sem aldrei fyrr og verð grænni með hverjum deginum, en ég verð varla skilgreindur samkvæmt formúlu stjórnmálaflokks. Það er of þröngt fyrir mig. Ég er stiginn út í grasrótina þar sem ég hey baráttu, sem vissulega er pólitísk og á að gagnast öllum sem berjast fyrir sama málstað. Ég sé þessa baráttu ekki í stofnanalegu samhengi heldur horfi ég til málefna og fagna því sem vel er gert, en gagnrýni það sem ég tel ámælisvert. Ég vil að samfélagið sé vakandi og lýðræðið lifandi. Þá farnast okkur betur.“

Gerði VG mistök þegar flokkurinn hóf stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum?

„Ég var fullur efasemda um það vegna þess að þetta eru flokkar sem gefa sig út fyrir að berjast fyrir gagnstæðum sjónarmiðum og Sjálfstæðisflokkurinn er, auk þess að vera stjórnmálaflokkur, hagsmunabandalag fjármagnsaflanna sem VG vill alls ekki vera. Ég hef alltaf talið að að því kæmi að annar hvor flokkurinn myndi svíkja sína kjósendur. Og það er því miður að gerast.“

Loftslagsmál

Loftslagsmálin eða loftslagsváin er mörgum hugleikin í dag. Ögmundur telur það dæmi um hvernig hugarfar almennings er að breytast í dag og um nauðsyn þess að taka samtalið um gagngerar endurbreytingar á hinum ýmsu lífsháttum og innviðum samfélags okkar.

„Þá komum við aftur að honum Don Kíkóta og vindmyllum, sem eru engar vindmyllur vegna þess að grundvallarviðhorfin í samfélaginu eru að breytast og eiga eftir að breytast mikið meira og stundum í átt til fyrra horfs. Við heyrum þá raddir, úrtöluraddir, sem segja að verið sé að tala máli fortíðarinnar, þegar kallað sé eftir breyttum áherslum í sjávarútvegi þá sé þetta of seint, búið og gert, liðin tíð. En það er ekkert til sem heitir liðin tíð í umgengni við náttúruna. Það er ekkert sem heitir liðin tíð í skipulagningu á atvinnuháttum og það er ekkert sem heitir liðin tíð í aðkomu okkar að landinu og sjónum og lífríkinu þar.“

Um áramótin tóku gildi lagabreytingar sem heimila innflutning á hráu kjöti. Þessi breyting er að mati Ögmundar ekki í samræmi við vönduð umhverfisverndar- og manneldissjónarmið. Ákveðin andstaða Ögmundar við breytingarnar sætti gagnrýni og hún kölluð afturhalds- og íhaldssemi.

„Þetta er engin fortíðarhyggja og íhaldssemi. Tímaglas hinna, sem ætlast til að við flytjum í háloftunum heilar beljur og kindur í flugvélum, jafnvel heimshorna á milli, er að renna út því þetta mun framtíðin ekki leyfa. Framtíðin mun fara fram á að við lifum af nærumhverfi okkar og lífríki.“

Svo í framtíðinni gætum við séð skref aftur á bak til þeirrar sjálfbærni sem fylgdi lifnaðarháttum okkar við upphaf 20. aldarinnar?

„Ég held að það verði raunin, þótt tæknin sem 20. öldin færði okkur geri líf okkar auðveldara og á margan hátt miklu betra en þá var. Það er dapurlegt að stjórnvöld horfist ekki í augu við þennan veruleika. Þau tala mikið um að huga að náttúrunni og loftslagsmálum, en þegar kemur að því að taka ákvarðanir þá eru þær allar meira og minna þvert á hin fögru fyrirheit. Það er verið að opna á innflutning á hráu kjöti og eggjum, slaka á öllum skilyrðum sem lúta að heilnæmi vörunnar. Hvers vegna lyppast ríkisstjórnin og Alþingi niður gagnvart bisnisshagsmunum? Hvers vegna verja þau ekki landbúnað sem notar minnst lyf í heiminum öllum? Hvers vegna er ekki staðið í ístaðinu fyrir okkur og börnin okkar? Svo er hitt sem snýr að meintum nútímamanninum, heimsborgaranum: Ég er búinn að fara á veitingastaði víða í heiminum og aldrei  heyrt nokkurn mann spyrja hvort það sé kindakjöt á matseðlinum. Menn horfa á matseðilinn sem er í boði og leita þá helst að því sem er mest lenska þar í landi. Þegar menn svo koma hingað til Íslands þá heyra þeir að lambið sé villibráð og þjóðarréttur Íslendinga. Þá vilja allir prófa. Ekki að þeir vilji kindakjöt á diskinn flutt um hálfan hnöttinn frá Nýja-Sjálandi. Þau sem þarna telja sig heimsborgara að svara eftirspurn eru einfaldlega heimóttarleg og í reynd viðhafa þau ómerkileg vörusvik. Allt þetta á eftir að breytast og svo við komum aftur að útgangspunktinum með Don Kíkóta og vindmyllurnar, þá eigum við eftir að endurskoða svo margt með róttækum hætti. Ég var með fund í nóvember þar sem bandarískur plöntufræðingur, Fred Magdoff, hélt fyrirlestur sem bar yfrskriftina: Það sem allir umhverfisverndarsinnar verða að vita um kapítalismann. Þar talaði þessi fræðimaður um að við þyrftum að taka efnahagskerfið og forsendur þess til gagngerrar endurskoðunar þar sem kapítalisminn með sinni óseðjandi græðgi réði ekki við þau úrlausnarefni sem heimurinn stendur nú frammi fyrir.“

En -isminn er aldrei góður

Kapítalisminn verður því að víkja fyrir nýrri hugsun, eigi mannkynið að geta tekist á við loftslagsvána. En ef ekki kapítalismi, hvaða -ismi gæti leyst þessi vandamál?

„Að leysa vandamálin er viðfangsefni lýðræðisins og mannlegrar skynsemi. Það er það sem það kostar að vera hugsandi vera, að finna í sameiningu hvaða leiðir við getum farið. Annars er ég skeptískur á -isma yfirleitt. Ég vil sem minnst af -ismum og sem mest af góðri dómgreind. Hún verður til með umræðu og gagnrýni. En -isminn er aldrei góður. Að flokka hluti eftir -isma eða flokkum getur ýtt undir stöðnun. Fólk þarf að vera opið fyrir breytingum, nýrri hugsun og nýjum leiðum. Þar með finnist lausnirnar. Það er það sem ég er að reyna að gera núna í þessum fasa lífs míns, eftir að ég steig út úr stofnanakerfi stjórnvaldanna, Alþingi. Ég er að reyna að örva gagnrýna umræðu í samfélaginu.“

Góð dómgreind gulls ígildi Tilheyrir engum -isma og engum flokki
Mynd: Eyþór Árnason

Heilbrigðiskerfið

Þegar Icesave-málið fræga var í meðförum Alþingis var Ögmundur heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Mikill hiti var í mönnum vegna málsins og Ögmundur var þar á öndverðum meiði við félaga sína úr stjórninni. Til að fylgja sannfæringu sinni sagði hann af sér ráðherraembættinu og er hann einn þriggja sem sagt hafa af sér embættinu án þess að það tengist með einum eða öðrum hætti ásökunum um spillingu. Í kjölfar afsagnar sinnar sagði Ögmundur í fjölmiðlum að hann óttaðist að grófur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu myndi leiða til varanlegs tjóns sem ekki fengist bætt. Í dag telur hann ljóst að ótti hans hafi ekki verið ástæðulaus.

„Þetta er það sem ég óttaðist á þessum tíma og við ríkisstjórnarboðið varaði ég við því að alltof langt væri gengið, einkum í heilbrigðiskerfinu. Við erum að tala um 20 prósent að raungildi í rekstrarútgjöldum sem bitnaði ekki bara á kerfinu til skamms tíma heldur langtíma. Þetta kom ofan í niðurskurð sem hafði átt sér stað nánast frá aldamótunum hjá Landspítalanum og heilbrigðisstofnunum í landinu. Og nú er núverandi heilbrigðisráðherra skammaður fyrir að skammta of naumt. En það á ekki að beina gagnrýninni fyrst og fremst að ráðherra málaflokksins heldur ríkisstjórninni allri og fjárlaganefnd. Heilbrigðisráðherrann er hins vegar ábyrgur fyrir ráðstöfun fjármunanna og þar er Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að standa sig vel.“

Á Kúrdaslóðum

Blaðamaður skenkir sér meira kaffi. Tíminn flýgur frá okkur án þess að við tökum eftir því. Lítil skotta með skólatösku skýst inn án þess að Ögmundur lyfti svo mikið sem brúnum. Greinilega hversdagslegur hlutur að barnabörnin taki stöðuna á afa sínum og ömmu. Í stofu Ögmundar má sjá mikið af skrautmunum og minjagripum frá ferðalögum um heiminn. Þó svo að Ögmundur sé sem stendur með athygli sína á fundum sínum um kvótakerfið, mun athygli hans fljótlega einnig beinast að öðru hugðarefni hans – Kúrdum og stöðu mannréttinda í Tyrklandi. En í febrúar heldur hann í sína fjórðu ferð á Kúrdaslóðir.

„Ég er búinn að fara þrisvar til Kúrdahéraða í Tyrklandi og til landamærahéraðanna sem liggja að Sýrlandi. Í tveimur síðari ferðunum hef ég farið í það sem kallast Imrali-sendiför. Á Imrali-eyju, rétt við Instanbúl er Abdullah Öcalan, leiðtoga Kúrda, haldið föngnum. Honum var rænt árið 1999 og hefur verið haldið síðan í einangrunarfangelsi. Við í sendiförinni erum að reyna að liðka fyrir því að hann sé frelsaður úr prísundinni, en hann er sá maður sem helst hefur verið talsmaður friðsamlegra lausna á þessu svæði og sett fram skynsamlegar og, að ég held, raunsæjar tillögur í því sambandi.“

Það sem hreif Ögmund einna helst við málstað Öcalan er hversu mikinn jöfnuð má finna í hugmyndafræðinni sem hann boðar. Þar er rík áhersla lögð á réttindi kvenna og í bæjum og borgum þar sem þeir stjórna er starfað samkvæmt þeirri hugmyndafræði, þar eru borgarstjórarnir tveir, kona og karl, hvorugt þeirra hærra sett en hitt. Og öll stjórnsýslan er á þeim nótum.

„Það er svolítið merkilegt að sjá þetta á þessu svæði, þar sem konur búa almennt ekki við full réttindi. Öcalan hefur sagt að tómt mál sé að tala um byltingu eða félagslegar framfarir án þess að það ríki jafnrétti með kynjunum. Þetta er gerólíkur  tónn en maður heyrir annars staðar, hvað þá á þessu svæði. Þeir Kúrdar sem lúta leiðsögn Öcalan eru ekki lengur að berjast fyrir sjálfstæði Kúrdistan, heldur fyrst og fremst fyrir menningarlegu sjálfstæði og lýðræði í nærumhverfinu. Síðan er einnig í þessari hugmyndafræði mikil áhersla á umhverfisvernd. Þar gætu margir lært af Kúrdum.“

Í fyrri ferð sinni til Diyarbakır, tyrkneskrar borgar sem litið er á sem höfuðborg Norður-Kúrdistan, var Ögmundur viðstaddur gífurlega fjölmennan útifund þar sem mikill hiti var í Kúrdum.

„Milljón manns var á fundinum. Þarna var ofboðslegur hávaði og tónlist og það var mikið sjokk að heyra ákafann og það sem ég hélt, árásargirni, sem básúnað var um allt hverfið. Ræðurnar voru síðan þýddar fyrir mig og þá kom í ljós að þarna var ekki um árásarhneigð að ræða. Þetta var friðsamlegur boðskapur. Verum huguð, höfum hugrekki til að semja um frið – þetta var boðskapurinn. Ég hef hrifist af þeirri endurnýjun pólitískrar hugsunar sem mér finnst maður finna fyrir þarna meðal þeirra Kúrda sem ég hef hitt.“

Skynsemi, góð dómgreind og velvilji

Öcalan leiddi friðarviðræður við ríkisstjórn Erdogan á árunum 2013–2015 frá fangelsinu á Imrali. Viðræðunum lauk þó skyndilega 2015 þegar Erdogan lokaði á frekari viðræður. Ögmundur telur að nýir tímar kunni að vera í sjónmáli  þar sem Öcalan hafi í maí á síðasta ári, í fyrsta sinn um árabil, fengið að hitta lögmenn sína.

„Og það fyrsta sem hann biður um er að friðarviðræður verði hafnar að nýju. Þetta var hugsunin sem Öcalan vildi öðru fremur koma á framfæri. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort að menn sem sitja svona lengi sviptir frelsi sínu, innilokaðir, í einangrun, eins og Öcalan og Nelson Mandela, fái einhverja sýn eða innsýn í lífið sem við hin höfum ekki; að þeir nái að koma auga á mikilvægi hins sammannlega og á það að við sem manneskjur eigum að virkja skynsemi, góða dómgreind og velviljann við lausn deilumála.“

Í ferðinni munu Ögmundur og ferðafélagar reyna að ná tali af ráðamönnum í Tyrklandi og fá að hitta pólitíska fanga. Þau gagnrýna harðlega tyrknesk stjórnvöld fyrir mannréttindabrot.

„Við erum ekki með neina tæpitungu í þeirri gagnrýni, en við erum jafnframt að taka undir þessi skilaboð velviljans.“

Um málefni Kúrda hefur Ögmundur haldið tvo fundi hérlendis í fyrrnefndri fundaröð sinni. Annars vegar þar sem hann fjallaði um pólitískan boðskap Öcalan, og fékk þá til liðs við sig tvær kúrdískar baráttukonur, og hins vegar fund þar sem Kúrdar, sem höfðu orðið vitni að hrikalegum mannréttindabrotum, deildu sögum sínum.

Pólitískur akuryrkjumaður

Svo virðist sem að Ögmundur hafi fundið sig í fundarhöldum, en hann hefur staðið fyrir fundum um hin ýmsu málefni sem brenna á honum.

„Ég er fyrst og fremst pólitískur akuryrkjumaður. Ég er að plægja jörðina og sá í hana. Þetta gerðu frjálshyggjumenn á 9. og 10. áratugnum og þetta hefur tíðkast í tímans rás. Peningahyggjan flutti  hingað pólitíska akuryrkjumenn af hægri vængnum sem plægðu og sáðu af miklu kappi og svo fengum við uppskeruna á borðið undir aldamótin og höfum fram á þennan dag verið að súpa seyðið af þessum ókræsilegu afurðum. Það er mál að linni og annað korn sé sett í jörðina og að fái að spíra. Það er þetta sem ég er að reyna að gera. Stuðla að betri uppskeru, miklu betri.

Sterk tenging Ögmundur við Ægisíðuna í Reykjavík þar sem afi hans og nafni reri til fiskjar á öndverðri öldinni sem leið
Mynd: Eyþór Árnason

Lífið eftir Alþingi

Lífið eftir Alþingi er bara frábært. Ég er úti á akrinum og líður þar vel. Ég er að passa lítil börn og hef sagt í gamni, kannski smá alvöru líka, að nú sé ég í fyrsta sinn á ævinni farinn að gera eitthvert gagn og ég nýt þessara nýju tíma. Ég sakna Alþingis ekki. En óska öllum sem þar eru velfarnaðar. Ég er hins vegar kominn á nýjan stað, enn á kafi í pólitíkinni, núna úti á akrinum.“

Má segja að pólitíkin sé lífstíðardómur?

Ja, kannski er hægt að orða það þannig. Ef ég tala út frá mínum bæjardyrum þá er það ekki það að ég sæki í pólitíkina vegna þess að mig langi það svo mikið heldur er það hitt, að ég get ekki verið án hennar. Ég get ekki verið áhugalaus um heiminn, hvort sem það er heimurinn hér heima eða utan okkar landsteina. Svo í þeim skilningi er þetta lífstíðardómur, en mér reynist hann ekki erfiður afplánunar og hef snúið honum upp í gleði og ánægju.“

Að þessu sögðu teigar blaðamaður síðasta kaffisopann og þakkar Ögmundi kærlega spjallið. Don Kíkóti lagðist í baráttu við vindmyllur, en andstæðingur Ögmundar er raunverulegur. Íslendingar hafa gagnrýnt og rifist yfir kvótanum allt frá því að honum var komið á fyrir þrjátíu árum. Nú er kannski kominn tíminn til að taka til róttækrar skoðunar hvort við sættum okkur við að rífast yfir honum áfram næstu þrjátíu árin. Ögmundur telur tíma kvótans liðinn. Hlutverkið sem hann hefur tekið sér í baráttunni er akuryrkjan. Að hefja umræðuna, vekja athygli og hvetja landann til að líta þessi mál gagnrýnum augum. Er þetta það sem við viljum um ókomna tíð? Eða er kominn tími til að fá kvótann heim? Líklega hefði blaðamaður getað setið með Ögmundi heilu dagana og samt ekki náð botni í samræðunum um þau fjölmörgu ástríðumál sem brenna á Ögmundi. Það er því með trega sem blaðamaður kveður og hverfur aftur út í grámyglu hversdagsleikans.

Akuryrkjan Mun aldrei fá frið fyrir pólitík.
Mynd: Eyþór Árnason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Lágkúra að reyna að beina sjónunum frá spillingunni með því að hjóla í blaðamenn – „Hrein og klár tilraun til að slá ryki í augu almennings“

Lágkúra að reyna að beina sjónunum frá spillingunni með því að hjóla í blaðamenn – „Hrein og klár tilraun til að slá ryki í augu almennings“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Síbrotamaður fékk neitun hjá Hæstarétti

Síbrotamaður fékk neitun hjá Hæstarétti
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Fékk ekki góð viðbrögð við ósk um ráðleggingar í fjármálum – „Djöfull finnst mér þetta lélegt viðhorf hjá þér“

Fékk ekki góð viðbrögð við ósk um ráðleggingar í fjármálum – „Djöfull finnst mér þetta lélegt viðhorf hjá þér“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Dómurinn í Nýbýlavegsmálinu: Spurði hvort drengurinn vildi fara í „góða heiminn“

Dómurinn í Nýbýlavegsmálinu: Spurði hvort drengurinn vildi fara í „góða heiminn“
Fréttir
Í gær

Trump hefur nú þegar uppfyllt einn heitasta draum Pútíns – Wikileaks voru eins og nytsamur bjáni

Trump hefur nú þegar uppfyllt einn heitasta draum Pútíns – Wikileaks voru eins og nytsamur bjáni
Fréttir
Í gær

Allt stefnir í að rekstrarfélag Kolaportsins verði úrskurðað gjaldþrota á morgun – Skuldar borginni 200 milljónir í leigu

Allt stefnir í að rekstrarfélag Kolaportsins verði úrskurðað gjaldþrota á morgun – Skuldar borginni 200 milljónir í leigu
Fréttir
Í gær

Foreldrar á Selfossi í hár saman vegna bréfs sem segir verkfallið ólöglegt – „Það er mjög sárt að lesa þetta bréf sem kennari“

Foreldrar á Selfossi í hár saman vegna bréfs sem segir verkfallið ólöglegt – „Það er mjög sárt að lesa þetta bréf sem kennari“
Fréttir
Í gær

Reynir birti samtal við heimildamanninn fyrir mistök í pistli þar sem sparkað var í Snorra

Reynir birti samtal við heimildamanninn fyrir mistök í pistli þar sem sparkað var í Snorra