Aðdáendur verslunarinnar Kosts, sem starfrækt var um átta ára skeið við Dalveginn í Kópavogi, geta tekið gleði sína að einhverju leyti á ný því verslunin er snúin aftur í breyttri mynd.
Vefsíðan Kostur.is er búin að opna en þar má finna amerískar vörur rétt eins og var aðalsmerki Kosts þau ár sem verslunin var starfrækt. Á vefnum kemur fram að frí heimsending sé á pöntunum yfir 9.998 krónum. Þarna má meðal annars finna matvöru, sælgæti, heimilisvörur og snyrtivörur.
Á vefnum kemur fram að félagið Smartco ehf. sé skráð fyrir vefsíðunni en eigandi þess er Tómas Gerald Sullenberger, sonur Jóns Gerald Sullenberger.
Kostur lokaði stórri verslun sinni á Dalveginum í desember 2017 og sagði Jón Gerald Sullenberger, stofnandi og framkvæmdastjóri Kosts, að tilkoma Costco á markaðinn sama ár hafi breytt aðstæðum. Nú er Kostur hins vegar snúinn aftur og mun að líkindum eingöngu einbeita sér að netverslun.