Sif Sigmarsdóttir, einn þekktasti pistlahöfundur landsins, segir í pistli í Fréttablaðinu í dag að það hafi verið alvarleg mistök að samþykkja væntanlegt 17 hæða hótel á horni Skúlagötu og Vitastígs. Hún segir að það muni skyggja á helsta kennileiti Reykjavíkur, fjöllinn hinum meginn við fjörðinn.
„Fyrir nokkru rakst ég á mann í London sem var nýkominn úr ferðalagi til Íslands. „Var ekki magnað að alast upp undir norðurljósunum?“ spurði hann. Ég hváði. „Við pældum ekki mikið í því – þau voru bara þarna.“ Á Höfn í Hornafirði stendur röð húsa við sjávarsíðuna. Þeir sem þar búa njóta magnþrungins útsýnis úr stofum sínum og görðum yfir úfið Atlantshafið og Vatnajökul í fjarska. Fyrir áratug dvaldi ég í einu húsanna við skriftir. Ég fór daglega í göngutúr með fram sjónum í leit að innblæstri. Eitt húsanna við ströndina vakti athygli mína. Íbúi þess hafði reist háan steinvegg við enda garðsins, svo háan að ekki var nokkur leið að sjá hvað var hinum megin. Ég skildi svo sem hvað íbúanum gekk til; með veggnum tryggði hann sér skjól frá forvitni þeirra örfáu sála sem gengu eftir ströndinni. En næðið þótti mér dýru verði keypt. Rétt eins og óviðkomandi sá ekki inn, sá íbúinn ekki út. Hann hafði múrað fyrir eitt magnaðasta útsýni sem fyrirfinnst í veröldinni,“ segir Sif í pistlinum.
Hún veltir fyrir sér hvað veldur því að menn hagi sér svona. „Hvað fær fólk til að loka sig af frá svo einstakri náttúrufegurð? Eftir að hafa búið erlendis í tuttugu ár greip mig nýverið skyndileg löngun til að sjá norðurljósin. Í heimsókn til Íslands um jólin fylgdist ég daglega með norðurljósa- og veðurspá í von um að berja augum sjónarspilið sem laðar til Íslands milljónir ferðamanna ár hvert. Einn myrkan morgun ók ég út í Gróttu með krosslagða fingur. Þar var hins vegar ekkert að sjá annað en svartnætti. Vonbrigði mín reyndi ég að kæfa á norðurljósasýningu í Perlunni ásamt hinum túristunum,“ segir Sif.
Hún rifjar þetta upp vegna fyrrnefnds hótels. „Nýverið las ég um það í blöðunum að ráðgert er að nýtt 17 hæða, 203 herbergja Radisson-hótel muni rísa á horni Skúlagötu og Vitastígs á næsta ári. Er hótelið hannað af „þekktum skoskum arkitekt sem hannaði meðal annars hæsta turn Rússlands“ og var að sögn markmið hans „að skapa nýtt og spennandi kennileiti fyrir Reykjavík“. Við lestur fréttarinnar fékk ég lamandi „déjà vu“. Árið 2014 ráfaði ég um götur Reykjavíkur í óvæntri febrúarsól. Á Frakkastíg gekk ég í flasið á hópi fólks sem horfði í lotningu niður götuna eins og endurkoma Messíasar hefði átt sér stað þarna beint fyrir utan sjoppuna Drekann. Sumir voru með myndavélarnar á lofti. „Hvað er um að vera?“ spurði ég. Það kom í ljós að fólkið var túristar frá hinum ýmsu heimshornum. Einn þeirra benti. „Sjáðu.“ Ég fylgdi fingrinum með augunum í leit að engli sem svifi um loftin og boðaði þeim mikinn fögnuð. Í fyrstu sá ég ekki neitt. En svo kom ég auga á það,“ segir Sif.
Hún segir að nú þegar hafi þetta útsýni verið eyðilagt að einhverju marki. „Þótt ég hefði oft gengið Frakkastíginn og oft séð fjalla- og sjávarútsýnið sem blasir við óskert frá Skólavörðuholtinu hafði ég í raun aldrei séð það í alvöru. Ég hafði aldrei virt fyrir mér sveiginn í fjallgarðinum sem minnir á skakkt bros, velt mér upp úr fjarlægðarbláma öldugangsins sem kallaðist á við himininn á heiðskírum degi, eða í alvöru tekið eftir listaverkinu Sólfarinu sem vakti yfir þessum sköpunarverkum eins og lítill Chihuahua-hundur sem hélt sig vera bolabít. Það þurfti hóp túrista til að vekja athygli mína á þessari náttúrufegurð sem hafði fyrir mér verið sveipuð huliðsskikkju hversdagsleikans.
„Háhýsin í Skuggahverfinu, tónlistarhúsið Harpa og lúxushótelið við hlið þess hafa nú þegar höggvið stórt skarð í fjalla- og sjávarútsýni Reykjavíkur. Skipulagsyfirvöld eru eins og íbúinn á Höfn í Hornafirði sem var greinilega búinn að búa þar svo lengi að hann var hættur að taka eftir því hve einstakt útsýnið var út um stofugluggann hjá honum. Reykvíkinga vantar ekki nýtt kennileiti. Kennileiti Reykjavíkur eru fjallgarðarnir og hafið sem nú er keppst við að múra af.“