fbpx
Miðvikudagur 13.nóvember 2024
Fréttir

Sólveig segir ótrúlegt að Árni Páll hafi lækað „kvenfyrirlitningu“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 20. janúar 2020 10:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skýtur fast á bæði Þröst Ólafsson hagfræðing og Árna Pál Árnason, fyrrverandi formann Samfylkingarinnar, í pistli sem hún birtir á Facebook. Hún segir að gagnrýni Þrastar á Eflingu einkennist af kvenfyrirlitningu. Árni Páll fær svo á baukinn fyrir að hafa lækað þá gagnrýni en hann lækaði færslu Þrastar.

Þröstur Ólafsson var áður aðstoðarmaður Jóns Baldvins Hannibalssonar í utanríkisráðherratíð hans og um tíma framkvæmdastjóri þingflokks Alþýðuflokksins. Á föstudaginn hjólaði Þröstur í Eflingu og skrifaði: „Þegar stórtíðindi eru í aðsigi þá er betra að hlusta vel.Þegar Starfsgreinasambandi skrifaði nýverið undir nýja kjarasamninga við Samninganefnd sveitarfélaganna skar sig eitt aðildarfélag Strafsgreinasambandsins, Efling, út úr samflotinu. Neitaði að semja við borgins á sömu nótum og önnur verkalýðsfélög höfðu samið. Þó skilst mér að Starfsgreinasamb. hafi gert samning á svipuðum nótum og Efling hafði gert áður við SA.“

Þröstur sagði enn fremur að þessi stefna myndi leiða til gengisfellingar. „Síðan birtist i fjölmiðlum upplýsingar um kröfugerð Eflinga á hendur borginni. Þar voru allar tölur og hlutföll margfalt hærri en þeir samningar voru,sem Starfsgreinasambandið og samninganefnd sveitarfélaganns höfðu samið um. Samhliða þessari kröfugerð var vitnað í greinargerð sem fylgdi, sem var bólgin af fúkyrðum og gömlum slagorðum frá upphafsárum evrópskrar verkalýshreyfingar í árdaga síðust aldar. Er þetta strategía nýja Sósíalistaflokksins ? Brjóta upp lífskjarasamninginn með því að einangra baráttuna við einn viðsemjanda (borgina) sem er stór, en er jafnframt með fjölda félagsmanna Eflingar í mjög viðkvæmum umönnunarstörfum (leikskólunum). Nota á ungabörn sem eins konar gísla til að brjóta upp kjarasamninga á landsvísu og fá yfir okkur eina sæta gengisfellingu. Krónan mun ekki aðstoða Sósíalistaflokkinn í þessum skollaleik. Það hlaut að koma að því að stóru slagorðin frá 2018 yrðu virkjuð að lokum,“ sagði Þröstur.

Sögð „nota ungbörn sem gísla“

Í gær brást Sólveig svo við þessum skrifum. Hún bendir á að Þröstur hafi áður verið háttsettur maður í verkalýðshreyfingunni en hann starfaði sem framkvæmdarstjóri Dagsbrúnar. „Nú höfum við, samninganefnd Eflingar við Reykjavíkurborg, gerst sek um mikinn glæp og af honum munu svo leiða margir aðrir stórglæpir. Enda ætlum við að nota ungbörn sem gísla til að brjóta upp kjarasamninga á landsvísu. Blóðþyrstari tæfur en okkur í Eflingu eru víst vandfundnar; við, fólkið sem hefur helgað sig umönnunarstörfunum, við, fólkið sem gætir barna samfélagsins og menntar, við, fólkið sem annast og aðstoðar gamalt fólk; á endanum erum það við, láglaunafólkið, vinnufólkið, mestmegnis konur, sem að skemmum allt. En ekki hvað, þessar helvítis kellingar alltaf til vandræða,“ segir Sólveig.

Hún segir að að hitt rétta sé að tilboð Reykjavíkurborgar til Eflingar hafi verið lélegt. „Þröstur hefur ákveðið að mikil svívirða sé í því fólgin að við höfum ekki skrifað undir um leið og félögin innan Starfsgreinasambandsins. Ég veit auðvitað ekkert hvað Þröstur veit en ætli hann geri sér grein fyrir því að enn er ekki komin niðurstaða í það hvernig stytting vinnuvikunnar mun koma út fyrir vaktavinnufólk? Afstaða Eflingar-fólks í viðræðunum er sú að ekki komi til greina að skrifa undir samninga fyrr en að allt er frágengið. Getur verið að í veröld Þrastar sé það stórkostlegur glæpur? Virkuðu hlutirnir svoleiðis inn í hreyfingunni þegar hann og samferðamenn hans voru við völd? Og ætli hann geri sér grein fyrir því að tilboð Reykjavíkurborgar til Eflingar var lélegra en lífskjarasamningurinn svokallaði? Tilboð sem hannað var af annarri fyrrum háttsettri manneskju innan hreyfingarinnar, en samninganefnd Reykjavíkurborgar er leidd af fyrrum hagfræðingi Eflingar,“ segir Sólveig.

Segir Árna Pál læka kvenfyrirlitningu.

Hún segir þessi skrif einkennast að gífurlegri kvenfyrirlitningu. „Ég veit að það er algjörlega tilgangslaust að velta fyrir sér þankaganginum á bak við þá ótrúlegu andúð á baráttu okkar sem skín í gegnum skrifin en ég stenst ekki mátið. Kvenfyrirlitningin og stéttahrokinn eru svo ótrúleg og stórkostleg, og merkilegt að sjá fyrrum ráðherra Samfylkingarinnar, Árna Pál, láta sér líka við skrifin í Þresti. Halda þessir hrokafullu karlar í alvöru að félaga mínir í samninganefndinni, sá stóri hópur heiðursfólks og dugnaðarforka, séu að fylgja strategíu sem ekki er ákveðin af þeim sjálfum? Kröfugerð Eflingar var samin af fólkinu sem að vinnur vinnuna, fólkinu sem að þekkir nákvæmlega og innilega hvað það þýðir að vera láglaunamanneskja í reykvísku hírarkíunni, með borgastjóra sem sinn æðsta yfirmann. Samninganefnd Eflingar er mönnuð fólki sem að vinnur við undirstöðustörfin í borginni, fólki af leikskólunum, úr skólunum, sorphirðunni, heimaþjónustunni. Hversu ömurlegt er að verða vitni að því að fyrrum valdamaður úr hreyfingu vinnandi fólks skuli leyfa sér annað eins þvaður og aðra eins illmælgi gagnvart vinnuaflinu,“ segir Sólveig.

Hún telur það andstyggilegt að reyna að skemma fyrir leikskólakennurum. „En svona er þetta; ekki aðeins gerðu karlarnir ekkert fyrir okkur láglaunakonurnar þegar þeir réðu, þeir ætla í andstyggilegheitum sínum að gera sitt til að sabótera baráttu okkar fyrir réttlæti og virðingu. Því við erum í þeirra huga ekkert nema vinnu-hryssur, brúkaðar ókeypis í gegnum aldirnar og fáránlegt að borga okkur neitt meira en skít, fáránlegt að leyfa okkur að éta matinn sem að við eldum, fáránlegt að leyfa okkur að komast í gegnum æfina með smá pening til að eyða í okkur sjálfar, fáránlegt að leyfa okkur sjálfum að ákveða hvernig við berjumst og fyrir hverju,“ skrifar Sólveig.

Forréttindablinda

Sólveig lýsir svo veruleika „vinnuhryssa“. „Við hryssurnar sem að frá unga aldri höfum hlaupið hratt og hraðar, við hryssurnar sem að höfum þolað niðurskurð og fjársvelti, við hryssurnar sem að höfum lifað í þeim efnhagslega veruleika að fá útborgaðar 280.000 krónur á mánuði, þrátt fyrir að geta státað af margra áratuga starfsreynslu í umönnunarstörfunum, við hryssurnar sem fengum ekki einu sinni súkkulaðimola í jólagjöf frá borgarstjóra árum saman, við hryssurnar sem að höfum lifað í þeim efnahagslega veruleika að vera á leigumarkaði og eiga eftir 20.000 krónur af launum okkar þegar leigan hefur verið greidd, við hryssurnar sem að höfum þurft að fara í vinnu númer tvö til að eiga möguleika á því að láta enda ná saman og sjá fyrir okkar eigin afkvæmum,“ segir Sólveig.

Hún segir að menn eins og Þröstur vilji að vinnuhryssunnar sætti sig við þetta. „Við hryssurnar eigum auðvitað bara að halda áfram að hlaupa hraðar og halda kjafti, sætta okkur við stöðu okkar í stigveldinu, sætta okkur við að Þröstur og vinir hans í valdastéttinni hafa ákveðið, nú líkt og ávallt, hvað við megum fá og hvað ekki, hvað við megum segja og hvað ekki. Hvað við eigum að láta okkur nægja og hvað ekki,“ segir Sólveig.

Að lokum fagnar hún því að Þröstur sé ekki lengur við völd: „Forréttindablindan er mögnuð, hræðslan við upprisu láglaunakonunnar algjör. Svona álíka mögnuð og algjör og harmur atvinnurekenda hlýtur að vera þegar þeir þurfa að horfast í augu við að menn eins og Þröstur eru ekki lengur við völd í félagi láglaunafólks. Hlýtur að vera agalegt að sá tími sé liðinn og komi aldrei aldrei aftur“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Nýbýlavegsmálið: Lögmaður móðurinnar segir að málinu verði áfrýjað til Landsréttar – „Alvarleg andleg veikindi“

Nýbýlavegsmálið: Lögmaður móðurinnar segir að málinu verði áfrýjað til Landsréttar – „Alvarleg andleg veikindi“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Lágkúra að reyna að beina sjónunum frá spillingunni með því að hjóla í blaðamenn – „Hrein og klár tilraun til að slá ryki í augu almennings“

Lágkúra að reyna að beina sjónunum frá spillingunni með því að hjóla í blaðamenn – „Hrein og klár tilraun til að slá ryki í augu almennings“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Gunnar Smári varar við fjárlagafrumvarpinu – Segir þetta þekkta leið til að gefa bröskurum skattfé almennings

Gunnar Smári varar við fjárlagafrumvarpinu – Segir þetta þekkta leið til að gefa bröskurum skattfé almennings
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Fékk ekki góð viðbrögð við ósk um ráðleggingar í fjármálum – „Djöfull finnst mér þetta lélegt viðhorf hjá þér“

Fékk ekki góð viðbrögð við ósk um ráðleggingar í fjármálum – „Djöfull finnst mér þetta lélegt viðhorf hjá þér“
Fréttir
Í gær

Formaður BÍ segir málatilbúnað Jóns skólabókardæmi um þöggunartilburði og atlögu að tjáningarfrelsi blaðamanna

Formaður BÍ segir málatilbúnað Jóns skólabókardæmi um þöggunartilburði og atlögu að tjáningarfrelsi blaðamanna
Fréttir
Í gær

Foreldrar á Selfossi í hár saman vegna bréfs sem segir verkfallið ólöglegt – „Það er mjög sárt að lesa þetta bréf sem kennari“

Foreldrar á Selfossi í hár saman vegna bréfs sem segir verkfallið ólöglegt – „Það er mjög sárt að lesa þetta bréf sem kennari“