Guðmundur Freyr Magnússon situr nú í gæsluvarðhaldi í Torrevieja á Spáni og á yfir höfði sér ákæru um morð á kærasta móður sinnar og líkamsárás á móður sína. Voðaverkið var framið um síðustu helgi. Í gær lýsti móðir Guðmundar Freys því hvernig sonur hennar hafi verið viti sínu fjær af fíkniefnaneyslu.
Gamall vinur Guðmundar Freys, útvarpsmaðurinn Ómar Úlfur Eyþórsson, stígur fram á Fésbókinni í gær og birtir opna færslu um félaga sinn. Hann vill ekki afsaka meintar gjörðir Guðmundar sem hann segir hafa verið meinlausan dreng. Síðar hafi Guðmundur farið af brautinni. Textinn er svohljóðandi:
Árið 1986 byrjaði ég í fyrsta bekk í Hvolsskóla hjá henni Gyðu. Einn samnemanda minna var Gummi Freyr sem þá var í fóstri rétt fyrir utan Hvolsvöll. Blíður og góður drengur sem varð vinur okkar í bekknum. Ég man ekki hversu lengi Gummi var með okkur en lengi framan af vissi maður af honum og hitti af og til. Rótleysið og flakkið var mikið. Snemma á unglingsárum fluttist Gummi með mömmu sinni og bróður rétt fyrir utan Hvolsvöll. Þá kynntumst við strákarnir þeim bræðrum í gegnum skellinöðrustúss og annað. Einfaldir og sauðmeinlaus strákagrey sem höfðu gaman af hlutum sem sögðu brumm alveg eins og við hinir.
Í gegnum árin hefur maður svo frétt af Gumma af og til og greinilegt að þeir bræður fóru snemma útaf brautinni sem að þeir fengu samt aldrei tækifæri að fóta sig á. Ég ætla ekki að afsaka gjörðir Gumma en þegar ég sé þessar sorglegu myndir þá langar mig að knúsa þennan blíða strák sem að ég þekkti 1986. Hann fèkk aldrei tækifærin sem við öll eigum skilin.