Hátt í annað hundruð manns hafa beðið eftir jólagjöfum, nánar til tekið rafmagnshjólum sem seld voru í gámatilboði hjá vefversluninni Hópkaup.is. Tíminn leið, hátíðirnar og áramótin komu og fóru en ekkert bólaði á rafmagnshjólunum, sem framleidd eru af Enox. Ástæðan ku vera sú að tollurinn hafði ekki veitt heimild fyrir afhendingu hjólanna.
Þetta kemur fram á vefsíðu verslunarinnar en tilboðið hófst undir lok sumars. Samkvæmt heimildum DV eru viðskiptavinir ekki sáttir við þá töf sem hefur orðið á afhendingu hjólanna og hafa ófáir netverjar viðrað þá kenningu að um svindl hafi verið að ræða hjá versluninni til þess eins að selja fleiri hjól fyrir jól.
Ekki náðist í Guðmund Magnason, forstjóra Hópkaupa, við vinnslu fréttarinnar en vefverslunin sendi frá sér tilkynningu og baðst velvirðingar á óþægindunum. Ástæðan var þá sögð tilkomin vegna seinkunar flutningaskips sem flutti hjólin frá Rotterdam. Þyrftu viðskiptavinir jafnframt að sækja rafmagnshjól sitt beint í gáminn við afhendingarmiðstöðina að Flatahrauni.
Upphaflega stóð til stóð að afhenda hjólin um miðjan desember. Eftir fjölda fyrirspurna var viðskiptavinum tilkynnt að hjólin kæmu ekki til lands fyrr á Þorláksmessu. Viðskiptavinum var þá tilkynnt að afhending færi fram á milli jóla og nýárs, en sú reyndist ekki raunin.
Samkvæmt heimildum eru hjólin enn óhreyfð í tollinum.