Ung íslensk kona varð á dögunum fyrir hrollvekjandi upplifun sem sýnir að allur sé varinn góður á stefnumótaforritum svo sem Tinder. Konan, köllum hana Guðrúnu, vill ekki koma fram undir nafni en hún greinir frá upplifun sinni innan hópsins Stöndum Saman – Stefnumótaforrit á Facebook.
Guðrún segist hafa byrjað að spjalla við mann á Tinder og þó henni hafi þótt hann skemmtilegur þá fann hún á sér að eitthvað var ekki með feldu. „Ég var að spjalla við mann á Tinder og síðan Snapchat. Við fórum á deit fyrir nokkrum dögum, bara út að borða og ekkert meir eftir það en hann var mjög áhugasamur að hitta mig aftur.“
„Mér fannst hann skemmtilegur og fínn gaur en samt eitthvað pínulítið off við hann áður en við hittumst. Meira off við hann á deitinu, og sú tilfinning fyrir honum varð bara sterkari með hverjum degi eftir deitið. Ég ætla ekki að benda á hvað það er sem var off þar sem hann gæti þá bara breytt taktíkinni sinni ef hann skyldi sjá þetta, sem ég hef ekki hugmynd um ef gerist,“ lýsir Guðrún.
Hún segist hafa ákveðið að gúggla manninn, sem heitir Ingi, og þá kom fortíð hans í ljós. „En í gærkvöldi blokkaði ég hann í snatri eftir að ég ákvað að fylgja tilfinningunni minni og googla manninn. Þar sem ég er mjög lífsreynd kona að þá þekki ég ansi margt og veit eitt og annað og er góð í að lesa fólk, og er næm fyrir fólki í þokkabót. Eftir gúgglið kom í ljós að hann ásamt öðrum manni fengu 3 ára dóm árið 2016 fyrir að hópnauðga konu,“ lýsir Guðrún.
Hún segir því gott að hafa vaðið fyrir neðan sig. „Það er alltaf gott að fara varlega gott fólk. Hvort þessi maður hefur nauðgað umfram það sem þessi dómur kveður á um veit ég ekki. Kannski er þetta eina skiptið sem hefur farið fyrir dóm eða hann ekki komist upp með, maður veit það ekki. En það er algengt að hægt sé að rekja fleiri skipti til þeirra manna sem sem beitt hafa kynferðislegu ofbeldi eða ofbeldi in general. Og vona ég að hann leiti sér hjálpar hjá sálfræðingi sem vinnur einmitt með svona vanda hjá fólki,“ segir Guðrún.