Morguninn eftir er Páll kominn með 40 stiga hita. Hann náði varla andanum og var mjög veikur. Þá fara þau aftur á bráðamóttökuna, Páll er lagður inn og honum er haldið í tvær nætur. „Þá kemur læknir sem metur það þannig að hann sé orðinn hress, hann þurfi ekki lengur súrefni og við megum bara fara heim,“ segir Bryndís.
„Á leiðinni út í bíl þarf hann að fara heim í fjórum hollum af því að hann nær ekki andanum. Hann er mjög veikur ennþá. En við förum heim og hann liggur í rúminu í tvo daga, mjög lasinn, og kemst eiginlega ekki á klósett af því að hann þarf að fara í tveimur eða þremur hollum fram á klósett til þess að komast alla leið, af því að hann nær ekki andanum. En síðan á sunnudagsmorguninn deyr hann. Hann bara kafnar í höndunum á mér.“
„Ég minntist á það að minnsta kosti fjórum sinnum“
Páll fór fyrst á bráðamóttökuna á mánudeginum 18. nóvember. Hann var sendur heim um nóttina en kom aftur á þriðjudeginum 19. nóvember. Á fimmtudeginum þannn 21. nóvember var Páll sendur aftur heim en hann lést í rúminu heima hjá sér á sunnudeginum 24. nóvember. Samkvæmt Bryndísi leiddi krufning það í ljós að Páll hafi verið með tvo stóra blóðtappa í lungum.
Bryndís segir að þau hjónin höfðu grunað að það Páll væri með blóðtappa. „Ég minntist á það að minnsta kosti fjórum sinnum, þar sem voru fjórir læknar sem komu að honum, að hann hafi fengið blóðtappa í fótinn,“ segir Bryndís. Aðspurð segir hún að það hafi verið mjög mikið að gera á bráðamóttökunni þegar þau voru þar.
Bryndís fór að hitta Má Kristjánsson, yfirlækni Landspítalans, nokkrum dögum eftir að Páll lést. „Hann í rauninni biðst bara afsökunar, að hann hafi útskrifað hann of fljótt. Og í rauninni segir hann við mig að aðstæðurnar hafi verið þannig, og honum fannst það mjög leitt, að það er bara krafa um að fólk sé útskrifað. Og hann hafi bara verið ranglega greindur og útskrifaður of snemma.“
Hún vill að heilbrigðiskerfið læri af þessu máli. „Já. Og kannski að hann hafi ekki dáið til einskis.“