fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fréttir

Dramadrottning, ekki nettröll: „Ég var oft niðurlægður og hafður að fífli“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 5. janúar 2020 10:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Friðjón Valtýr Sigurðsson, oft kallaður Fribbi, er virkur í athugasemdum og hefur lengi verið bendlaður við hugtakið nettröll. Hann hefur verið umdeildur á mörgum spjallsvæðum Íslendinga í ríflega áratug og var sérstaklega þekktur innan samfélagsins á Barnalandi þegar það var upp á sitt besta á árum áður. En hver er maðurinn á bak við notandanafnið? DV sló á þráðinn til Fribba sem rakti erfiða reynslu sína af einelti, samfélagsmiðlum og lífinu.

Þolandi eineltis

„Ég er Reykvíkingur og hef búið lengst af í Breiðholti. Ég vek kátínu hvar sem ég kem við sögu, enda mikill húmoristi. Minn helsti kostur er að koma öðru fólki til að hlæja. Ég hef lengi verið þekktur sem Fribbi. Fyrst var ég reyndar kallaður Frikki, síðar Friddsi og að endingu Fribbi.“

Fribbi varð fyrir miklu einelti í Breiðholtsskóla þegar hann var yngri. Hann var með gleraugu, fjarsýnn og með sjónskekkju, með athyglisbrest og talgalla, einrænn og vinafár.

„Ég var auðvelt skotmark fyrir gerendur mína. Ég var oft niðurlægður og hafður að fífli. Vegna þessa reyndi ég oft að skrópa í skólanum og leið aldrei vel þar. Ég þorði þó aldrei að segja foreldrunum frá og neyddi mig frekar í skólann, ég átti ekki annan valkost. Ég var oft neyddur til að gera asnalega hluti sem ég sé eftir enn þann dag í dag.“

Sem dæmi um það einelti sem hann var beittur nefnir hann að hann hafi verið skilinn útundan, uppnefndur, valinn síðastur í íþróttir, tyggjói klínt í hárið á honum, eigur hans eyðilagðar, og mynd tekin af honum nöktum í sturtu.

„Ég bara þakka guði fyrir að netið var ekki til á þessum tíma, því þá hefði myndin örugglega verið send á hefndarklámsíðu þar sem nektarmyndum er dreift í óþökk þolandans. Eineltið mótaði manninn sem ég er í dag. Ég er var um sjálfan mig og passa mig enn í dag á því að vera ekki blekktur, eða hvort verið sé að reyna að hafa mig að fífli.“

Virkur í athugasemdum

Fribbi var 25 ára þegar hann hóf þátttöku á opnum spjallsvæðum á netinu. Fyrst á síðunni strik.is, síðan nulleinn.is, hugi.is, minnsirkus.is og barnaland.is.

„Ég tók þátt í ýmsum umræðum, um stjórnmál, kynlíf og sérstaklega öllum umræðum sem hétu Nöldur, en ég á það til að tuða og tauta um ansi margt. Mér fannst mjög spennandi að taka þátt í slíku enda voru umræðurnar þar oft mjög áhugaverðar. Svörin sem ég fékk frá fólki voru oft skítkast og alls konar stælar. En ég var þarna orðinn harður maður eftir allt eineltið og lét því ekkert stoppa mig eða hræða. Ég hóf þá bara skítkast á móti og gaf ekkert eftir.

Núlleinn.is var eiginlega unglingasamfélag, og þar var ég einn af elstu notendunum. Á þessum árum var ekki mikið um fullorðið fólk á svona samfélagsvefjum, heldur voru þetta aðallega krakkar undir 18 ára aldri. Ég varð því sér á báti þar sökum aldurs. Ég var ansi duglegur að mæta daglega þar til að taka þátt í umræðum. Flestum notendur á núlleinum þótti ég bæði fyndinn og leiðinlegur. En þegar maður er mikill einfari og hefur ekkert annað að gera á daginn þá eyðir maður oft tímanum í að spjalla við krakkana á nulleinn.is. Ég átti það til að skamma unglingana þar ef mér þótti þeir fara yfir strikið. Sjálfur fór ég þó líka yfir strikið, til dæmis þegar ég lýsti minni fyrstu kynlífsreynslu á kynlífsþræðinum þar. Ég hefði að sjálfsögðu átt að halda bara kjafti.“

Eftirminnilegur og umdeildur á netinu

Fribbi segir að hann hafi alla tíð verið mikið fyrir athygli, athyglissjúkur jafnvel. Þrátt fyrir að vera feiminn og lokaður.

„Ég þótti einum of opinskár og einlægur í samræðum á núlleinum. Ég veit vel að mörgum blöskraði oft hvernig ég talaði um allt sem mér lá á hjarta. En þetta gerði mig jú mjög eftirminnilegan á netinu og ég varð því strax mjög umdeildur. Síðan hoppaði ég yfir á hugi.is. Mér fannst það flókin síða til að byrja með en ég hafði mjög gaman að því að blogga þar. Reyndar byrjaði ég að blogga í fyrsta skipti um leið og bloggið á núlleinum kom til sögu. En þar vakti ég einmitt mikla athygli þegar ég fór að skrifa fyrstu skáldsöguna mína. Ég þótti líka ansi flinkur að gera flotta bloggsíðu. Sérstaklega þegar ég var að byrja í fyrsta skiptið mitt á blogcentral.is.“

Fribbi segir að hann hafi bloggað mikið um sjálfan sig og það stuðlaði enn frekar að því hversu umdeildur hann varð.

Fyrirfór sér vegna eineltis á hugi.is

Á hugi.is lenti Fribbi aftur í einelti. „Bæði frá stjórnendum og notendum síðunnar. Eineltið var á tíðum farið að ganga ansi langt þar. Einn stjórnandi síðunnar hringdi í mig einu sinni úr partíi og fékk stúlku undir lögaldri, sem var blindfull, til að reyna við mig. Ég var ekki hrifinn af þessari kynferðislegu áreitni og kvartaði við vefstjóra. Í kjölfarið var þessi tiltekni umræðustjórnandi rekinn af hugi.is. Ég frétti svo seinna meir að einn annar notandi hugi.is hafi framið sjálfsmorð vegna eineltis sem hann varð fyrir þar.“

Eftir hugi.is tók við minnsirkus.is. „Þar kom ég í fyrsta sinn fram undir réttu nafni. Á þeirri síðu varð ég nokkuð vinsæll. Þá voru jafnaldrar mínir og fleiri eldri farnir að stunda samfélagssíðurnar. Það gladdi mig mikið. Ein ástæða þess að ég hafði orðið umdeildur og ógleymanlegur á hinum vefjunum var sú að ég var einn af þeim eldri og krökkunum annaðhvort líkaði það eða ekki. En ég held reyndar að krökkunum hafi samt þótt vænt um mig, þrátt fyrir allt dramað og stælana í mér. Ég tel að mér hafi verið fyrirgefið allt dramað sem ég var með þar, enda hlýt ég að hafa skapað skemmtilegustu og ógleymanlegustu augnablikin á þessum síðum. Alveg sama hvar ég kem við sögu, þar vek ég athygli. Ég varð eftirsóttur bloggari á minnsirkus.is og lenti í öðru sæti þegar valdir voru bestu bloggararnir á þeirri síðu. Á minnsirkus.is kynntist ég líka Ásdísi Rán.“

 

Bland.is

Fribbi varð síðar hundleiður á framangreindum síðum. En þá kynntist hann síðu sem átti eftir að breyta lífi hans til frambúðar, er.is sem síðar varð bland.is.

„Ég byrjaði á bland.is með miklum látum. Ég byrjaði á því að snöggreiðast út í einstaklinga sem höfðu grafið upp myndband sem ég gerði á YouTube og deilt á umræðuþræði. Mér blöskraði svívirðingarnar sem ég sá þar og fann mig tilneyddan til að skrá mig þar inn og skamma fólkið sem var að skíta yfir mig. Ég vildi ekki vera umtalaður þarna, ég var líka ókunnugur þessu fólki og líkaði ekki við að það væri að draga fram myndbönd eftir mig til að gera mig að skotmarki eineltis. Síðan þróaðist þetta yfir í að ég var orðinn fastagestur á síðunni og átti eftir að vekja enn meira umtal um sjálfan mig, sem ég ætlaði mér aldrei að gera. Ég sé mikið eftir því að hafa skráð mig á þessa síðu.“

Fribbi segist hafa orðið að eins konar dramadrottningu á öllum spjallrásum. Alltaf í þeim tilgangi að vekja athygli á sjálfum sér. Á bland.is hafi hann lent í því að aðrir vöktu athygli á honum, óþarfa athygli og sumir jafnvel fengið hann á heilann.

„Fólk annaðhvort dýrkaði mig eða hataði. Eineltið sem ég varð fyrir á þessari síðu er það versta sem ég hef lent í, mikið verra en í grunnskóla. Ég var uppnefndur geðsjúklingur, barnaperri, þroskaheftur, svo sagði fólk að ég ætti að verða fyrir bíl eða að ég ætti að hengja mig. Sumir notendur gengu það langt að ég fór upp á lögreglustöð til að kæra tvo einstaklinga. Lögreglumaðurinn bað mig að ná frekar sáttum við þessa einstaklinga. Annar notandinn er þekkt karlremba og hefur í gegnum tíðina verið mjög dónalegur við kvenfólk á bland.is. Hann er alltaf að ljúga. Þessi maður var farinn að áreita mig mikið á netinu með hótunum og reiðipóstum. Ég hef margreynt að blokka hann, en hann býr þá til nýjan aðgang til að setja sig í samband við mig. Ég veit að hann fylgist enn með mér í dag.“

Við það að missa tökin á eigin lífi

Fribbi hætti á bland.is fyrir tveimur árum. Hann hefur verið bannaður á síðunni og getur því ekki skráð sig inn nema með því að stofna nýjan aðgang.

„Ég vakti jú mikið umtal á bland.is þegar ég hótaði því að fremja sjálfsmorð vegna eineltis sem var þarna farið að ganga ansi langt. En ég á enga vini og var alltaf sjálfur þar í vörn til að verja mig fyrir eineltinu sem ég varð fyrir þar. Ég gat bara ekki höndlað þetta meir og var að missa tökin á mínu lífi. Ég veit að ég á ekki að láta fólk úti í bæ brjóta mig svona mikið niður, en því tókst það ansi oft. Og þá jukust sjálfsvígshugsanirnar. Ég var 19 ára þegar ég reyndi fyrst að svipta mig lífi. Ég átti enga vini og var þá ekki byrjaður á netinu. Ég hafði flosnað upp úr framhaldsskóla vegna eineltis og fannst eins og líf mitt væri að hrynja. Ég var sífellt að valda sjálfum mér og fólkinu mínu vonbrigðum. Ég var kominn með mikinn lífsleiða og vildi að ég hefði aldrei fæðst. Ég var bara kominn með nóg og var að gefast upp á öllu saman.“

Fribbi hefur einnig glímt við langvarandi atvinnuleysi sem reynir mikið á sálarlífið.

„Langvarandi atvinnuleysi getur hreinlega gert út af við mann. Maður verður miklu félagslega einangraðri og upplifir meiri depurð, jafnvel lífsleiða.“

Fribbi segir að samfélagsvefir hafi opnað fyrir honum nýjar víddir og aðstoðað hann við að kynnast fólki. Hann þakkar slíkum síðum meðal annars að hann hafi misst sveindóminn.

Leikferill

Fribbi hefur gaman af leiklist og hefur meðal annars komið fram í þáttunum Leitin að strákunum, auglýsingum, bíómyndum og sjónvarpsþáttum.

„Mig dreymdi um að vera sjónvarpsstjarna. Ég var að gera myndbönd á YouTube, lék í auglýsingu fyrir Landssímann, var statisti í sjónvarpsleikritinu Rót, statisti í myndinni Astrópía, fór með nokkur hlutverk í fyrstu þáttaröð af Stelpunum. Einu sinni vann ég meira að segja við að skúra í Sambíóunum. Ég var nefnilega orðinn svo heillaður af því að vera á hvíta taldinu. Svo ákvað ég að gerast statisti líka í Borgríki 2. Hins vegar gufaði þessi áhugi upp eftir að ég var fenginn til að vera blaðamaður í atriði í Grimmd. Ég var klipptur út og nafn mitt komst ekki einu sinni á kreditlista. Ég var orðinn þreyttur á að vera notaður, því ég veit að ég hef leikhæfileika og náði ég að sýna þá í Strákunum. Þó að mitt spunaatriði hafi valdið vonbrigðum þá náði ég samt að senda skilaboð með því. Erfiðasta áskorunin í Leitinni að strákunum var að sjálfsögðu að koma fram nakinn í sjónvarpinu og fara í freyðibað með ókunnugum strák.“

Krabbamein og freyðibað

Á sama tíma og hann tók þátt í Leitinni að strákunum gekk Fribbi í gegnum erfiðan tíma í einkalífinu.

„Þessi áskorun kom á versta tíma fyrir mig persónulega, en þegar ég var valinn einn af tíu bestu umsækjendunum þá mættu Sveppi og Auddi heim til mín. Ég var sem betur fer ekki sofandi enda löngu vaknaður og beið áhyggjufullur eftir foreldrum mínum. Þennan morguninn leið yfir pabba minn og hann þurfti því að fara á spítala. Hann kom ekki aftur heim þennan dag. Mér brá þegar ég sá svo myndavélina og Sveppa og Audda og Huga þegar þeir bönkuðu upp á heima hjá mér. Svo kom að fyrstu tökunum og pabbi minn var enn á spítalanum, á leið í uppskurð, og ég hafði því meiri áhyggjur af honum en af sjálfum mér.“

Þegar kom að því að draga áskorun upp úr fötu þá kom á daginn að Fribbi þyrfti að fara í freyðibað með einum keppinaut sínum. „Á sama degi og ég var að gera þessa áskorun þá var komið að því að skera upp pabba minn. Eftir vel heppnaða áskorun fór ég heim, en þá tók við næsta sjokk.“

Læknar höfðu þá fundið krabbamein í föður Fribba. „Ég sagði þá við hann að ég ætlaði að gera hann stoltan af mér. Hann vissi að ég hefði komist áfram í Leitinni að strákunum en ég gat ekki sagt honum frá sjálfri áskoruninni. Það hefði alveg farið með hann þá. Ég var ekki með allan hugann á þessum þætti. Ég skammaðist mín það mikið fyrir að hafa tekið þátt. En auðvitað vildi ég standa við orð mín og reyna að standa mig eins og hetja á meðan ég var í keppninni. Helst langaði mig bara að detta út. En alveg óvænt komst ég áfram. Þá kom að því að gera skets, en þá gat ég loksins sýnt leikhæfileika mína. Pabbi minn var þá nýkominn heim af spítalanum og þess vegna var ég allur að lifna við í þættinum. En það var um seinan. Ég var ekki með nógu gott atriði fyrir Pétur og Skara skrípó. “

Aðalsprautan

Fribbi datt út úr þáttunum í 8. sæti. Aðrir keppendur voru spurðir hver ætti að detta út og voru flestir sammála um að það væri Fribbi. Þetta upplifði Fribbi sem einelti. Honum hafði reyndar ekki samið vel við hina keppendurna, en hann telur að eftir að hann var rekinn úr þáttunum hafi vinsældir þáttanna minnkað. „Ég virtist vera aðalsprautan í þessum þáttum og sló í gegn í fyrsta þætti. Þá var ég með hugann allan við keppnina og gerði mitt besta til að heilla dómnefndina með látbragði mínu og húmor. Auddi Blö, Sveppi og Pétur grenjuðu af hlátri og Pétur þurfti oft að þurrka tárin af gleraugunum. Svo komst ég líka að því að hann er með svipaðan athyglisbrest og ég er með. Hann átti það til að detta út og vera með hugann við allt annað. Pabbi minn dó síðan úr krabbameini 2008. En ég náði að fara með honum á fyrstu myndina sem ég birtist í á hvíta tjaldinu, nefnilega Astrópíu. Ég náði því að gera pabba stoltan af mér.“

Dramadrottning, en ekki nettröll 

Myndir þú kalla sjálfan þig nettröll ? 

„Nei, það er ég alls ekki. Þótt ég hafi átt það til að prakkarast og vera með aulabrandara í kommentunum og í stríði við suma notendur, þá er ég ávallt mjög prúður og kurteis. Ég á það samt til að vera stríðinn og með smá dass af kaldhæðni, en ég stunda það ekki að áreita neinn eða spamma á netinu. Það má vel vera að ég fari ansi oft í taugarnar á sumu fólki og ummæli mín hljómi eins og algjört þvaður og bull. Ef ég verð sjálfur fyrir áreitni á netinu af alvöru nettröllum reyni ég alltaf að forðast þau. Ég bara hreinlega nenni ekki að lenda í þrasi við nettröll. Ég er meira svona dramadrottning, en alls ekki nettröll. Ég er ekki maðurinn sem býr til leiðindi. Það er hins vegar fólkið sem er með neikvæð viðhorf til mín og reynir að brjóta mig niður.“

Hvað er það sem heillar mest við samfélagsmiðla?

„Afþreyingarefni fyrst og fremst. Það er svo gott að geta látið hugann reika yfir það sem maður hefur mestan áhuga á. Ég heillast mest af tónlistarmyndböndum og skemmtilegum myndböndum, áhugaverðum skoðunum frá áhugaverðu fólki í „virkum í athugasemdum“. Og skemmtilegum fréttum, að sjálfsögðu. Þar sem er drama er alltaf gaman!“

Samsiptin þyrfti að laga

Hvernig myndir þú lýsa sjálfum þér í 10 orðum eða færri?

„Töffari, listrænn, umdeildur, húmoristi, ógleymanlegur, dramadrottning, virkur í athugasemdum, snillingur, prakkari og einstakur.“

Hvað heldur þú að kæmi fólki, sem þekkir þig eingöngu af samfélagsmiðlum, mest á óvart ef það fengi að kynnast þér?

„Það mun komast að því að ég er með gleraugu og án filters og ekki eins svalur og skemmtilegur og ég er á netinu. Það kemst að því líka að ég er bara leiðinlegur maður sem það ætti ekki að vera að eyða miklum tíma í að spjalla við.“

Hvað þyrfti helst að bæta í menningunni á samfélagmiðlum í dag?

„Samskiptin þarf helst að laga. Mér finnst áberandi hve margt fólk sem er virkt í athugasemdum leyfir sér oft að vera dónalegt og er oft ausandi ógeðslega ljótum, ofbeldisfullum orðum á þann sem er til umtals í fréttum. Fólk þarf að fara að taka meira til hjá sjálfu sér og fara meira út og anda að sér meira súrefni til að hafa meiri stjórn á reiði sinni. En það sem ég hef lært af öllum þeim samskiptamiðlum sem ég hef verið á er að fólk á víst mjög erfitt með að hafa hemil á skapinu og eys oft úr sér óþarfa reiðilegum ummælum á netinu. Það virðist hafa sjúka þörf fyrir að láta oft vel í sér heyra.

Þetta gerir fólk aðallega til að vekja meiri athygli á sjálfu sér. Sjálfur hef ég oft fengið að kenna á því þegar ég eys minni reiði í kommentakerfunum. En ég er samt alltaf mjög rólegur yfirleitt þegar ég kommenta. Maður verður samt alltaf að ná að hafa hemil á sjálfum sér áður en maður ýtir á ENTER-takkann. Annars þarftu að taka afleiðingunum. Fólk á það til að hafa gaman af því að atast í litla manninum á netinu. Þótt ég sé 179 sentímetrar á hæð þá er ég oft lítill í mér á netinu og því oft verið mjög auðvelt skotmark fyrir einelti. Þess vegna segi ég aftur; samskipti og hegðun á netinu þarf að laga. Ég þarf líka að sjálfsögðu að bæta mína hegðun. Maður er sífellt að þroskast. Eigum við ekki bara að segja að batnandi manni er best að lifa?“

Hvernig eru samskiptareglur á netinu ólíkar þeim reglum sem gilda í raunheimi? Myndir þú segja að öðruvísi siðferði ríki í samskiptum fólks á internetinu?

„Já, fólk er opinskárra á netinu en í raunheimi. Þú segir ekki alltaf sömu hlutina og þú segir á netinu. Netheimur birtir oft falska mynd af raunveruleikanum. Ég þyki oft svalur töffari og mikill húmoristi og snillingur á netinu. En í raunheimi er ég eins og skjaldbakan sjálf. Dreg mig inn í skel og loka mig alveg frá umheiminum. Ég eyði líka mestum hluta lífs míns í tölvuleikjum og þvæling á netinu. Er algjör slóði. Ég þarf jú svo sannarlega að taka mig á í þessu og fara breyta þessum lífsstíl á næsta ári.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Landflótta norðurkóreskir hermenn segja norðurkóresku hermennina í Úkraínu vera úr úrvalssveitum

Landflótta norðurkóreskir hermenn segja norðurkóresku hermennina í Úkraínu vera úr úrvalssveitum
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Eigandi rússnesks skips segir að því hafi verið sökkt vísvitandi – „Hryðjuverk“

Eigandi rússnesks skips segir að því hafi verið sökkt vísvitandi – „Hryðjuverk“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Voru gerð mistök við val á íþróttamanni ársins? – „Mér brá óneitanlega mikið í kvöld“

Voru gerð mistök við val á íþróttamanni ársins? – „Mér brá óneitanlega mikið í kvöld“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“