Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt tvo karlmenn í fangelsi fyrir innflutning á töluverðu magni af kókaíni til landsins. Talið er að mennirnir hafi verið burðardýr, að því er segir í dómi.
Sorin Sarban var dæmdur í fimm ára fangelsi en bróðir hans, Georgian-Alin Sarban, fékk fjögurra ára dóm. Báðir dómarnir eru óskilorðsbundnir.
Mennirnir voru stöðvaðir í Leifsstöð þann 11. september síðastliðinn við komuna frá Dusseldorf í Þýskalandi. Við leit í farangri Georgian fundust tæplega 2,5 kíló af kókaíni og í fórum Sorin fundust tæplega 3 kíló af kókaíni. Efnin voru að meðaltali 85-86% að styrkleika.
Mennirnir játuðu báðir sök fyrir dómi þegar málið var þingfest þann 20. desember síðastliðinn. Í dómi segir að fyrirliggjandi gögn bendi til þess að þeir hafi verið burðardýr, ekki eigendur fíkniefnanna eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra. Þeir hafi í raun aðeins samþykkt að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.
Í dómi segir:
„Af framburði ákærða Sorin má og ráða að hann hafi fengið ungan bróður sinn, meðákærða Georgian-Alin, til aðstoðar við innflutning efnanna og meðákærði lítið vitað um raunverulegan tilgang ferðarinnar. Verður litið til þessara atriða við ákvörðun refsingar, sem og til játningar beggja ákærðu og ungs aldurs ákærða Georgian-Alin,en hann var aðeins 19 ára á brotadegi. Á hinn bóginn verður ekki framhjá því horft að ákærðu frömdu umrætt brot í félagi, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940og fluttu til landsinsverulegt magn af sterku kókaíni, sem ætlað var til söludreifingar hér á landi. Að öllu þessu virtu þykir refsing ákærða Georgian-Alin hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár og refsing ákærða Sorin fangelsi í fimm ár.“
Til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem bræðurnir sættu frá 12. september síðastliðnum.