Lögmaðurinn Saga Ýrr Jónsdóttir, sem er réttargæslumaður konu sem kært hefur lektorinn Kristján Gunnar fyrir kynferðisbrot, hefur brugðist við fréttaflutningi þess efnis að hún hafi brotið trúnað í málinu með upplýsingagjöf til fjölmiðla, og að mögulega eigi að leysa hana undan störfum. Frétt þessa efnis birtist í Fréttablaðinu í morgun. Í yfirlýsingu sinni segir Saga Ýrr að hún hafi gagnrýnt verklag lögreglu í málinu en í þeirri gagnrýni hafi hún ekki brotið trúnað. Hvorki hún né lögreglan séu undanþegin gagnrýni.
Segir Saga Ýrr jafnframt að vilji lögreglan að hún verði leyst undan störfum sem réttargæslumaður vegna gagnrýni hennar á störf lögreglu í málinu þá segi það allt sem segja þurfi um gagnrýni lögreglunnar á hana.
Yfirlýsing Sögu Ýrr er eftirfarandi:
„Í morgun birtust fréttir í fjölmiðlum þess efnis að undirrituð hafi mögulega brotið starfsskyldur sínar sem réttargæslumaður og að lögreglan skoðaði fyrir helgi hvort tilefni væri til að þess yrði krafist að ég yrði leyst undan störfum í máli vegna brota á starfsskyldum mínum, m.a. þagnarskyldu.
Ég hef sinnt störfum mínum af heilindum og með hagsmuni umbjóðanda míns að leiðarljósi. Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum gagnrýndi ég tiltekna þætti í verklagi lögreglu en með þeirri gagnrýni minni braut ég hvorki þagnarskyldu né starfsskyldur mínar að öðru leyti. Ég stend föst á því að þessi gagnrýni átti fullan rétt á sér enda vakti ég máls á því í fjölmiðlum að verklag og vinnubrögð lögreglu í aðdraganda handtöku hins grunaða væri mögulega ábótavant og þarfnaðist nánari skoðunar. Jafnframt tók ég fram að vel hafði verið staðið að rannsókn málsins að öðru leyti. Eftir stendur að gagnrýni undirritaðrar á störf og verklag lögreglu í málinu er enn ósvarað.
Hvorki lögreglan né önnur opinber yfirvöld eru hafin yfir gagnrýni á störf sín og er það réttur minn, sem og annarra þegna landsins, að setja fram gagnrýni með það fyrir augum að auka gagnsæi og aðhald til að unnt sé að gera úrbætur á störfum og þjónustu á þeim sviðum sem þörf er. Ef rétt reynist að viðbrögð lögreglunnar hafi verið á þann veg að vilja fá mig leysta undan störfum mínum sem réttargæslumaður, vegna gagnrýni á verklag og vinnubrögð lögregluembættisins, þá dæma slík viðbrögð sig sjálf að mínu mati. Ég er ekki, frekar en lögreglan, hafin yfir gagnrýni en veit að ekkert tilefni er til að leysa mig undan störfum og tel að þetta útspil lögreglunnar, að reyna gera störf mín tortryggileg í fjölmiðlum, sé léleg tilraun til að beina kastljósi fjölmiðla frá vinnu embættisins sjálfs í málinu. Fórnarlömb ofbeldis eiga skilið að hafa sterka málsvara sem standa með þeim af fullum krafti og þora að gagnrýna störf þeirra sem eiga að vernda þau, sé tilefni til. Það hef ég gert í þessu máli og mun gera áfram ef þörf krefur.“