Kort yfir menn sem hafa hlotið dóm fyrir barnaníð verður birt í næsta helgarblaði DV, sem kemur út á morgun, föstudaginn 20. september. Er þetta fyrsta umfjöllun í röð umfjallana um íslenska barnaníðinga. Allir þeir brotamenn sem DV birtir á kortinu hafa hlotið dóm fyrir kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum. Upplýsingar DV eru unnar upp úr opinberum gögnum, úr þjóðskrá og staðfestum heimildum. Kortið verður birt í tveimur pörtum, sá fyrsti á morgun og sá seinni viku seinna.
Í umfjöllun DV er velt upp þeirri spurningu hvort almenningur eigi rétt á að upplýsingar um aðsetur og afdrif barnaníðinga séu opinberar eða aðgengilegar, líkt og tíðkast víða í heiminum.
Barnaníðingar sem DV birtir á korti sínu eiga það allir sameiginlegt að brotaþolar hafa verið fleiri en einn í öllum tilfellum nema einu. Einn barnaníðingur sker sig úr á kortinu sem hefur viðurkennt að hafa misnotað allt að fimmtíu börn. Hann var dæmdur í sjö ára fangelsi og var sleppt í fyrra. Hann býr í miðbæ Reykjavíkur, með útsýni yfir leikvöll.
Samkvæmt upplýsingum DV búa flestir dæmdir barnaníðingar á höfuðborgarsvæðinu en athygli vekur einnig að þriðjungur dæmdra, íslenskra barnaníðinga hefur flúið land og hefur aðsetur erlendis.
Þetta er aðeins brot af viðamikilli umfjöllun DV um íslenska barnaníðinga. Eins og áður segir birtist fyrsti hluti umfjöllunarinnar í næsta helgarblaði DV. Kortið í næsta helgarblaði inniheldur ekki tæmandi lista, en haldið verður áfram að birta aðsetur barnaníðinga í öðrum hluta umfjöllunarinnar.