fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Gunnar Rúnar: Dæmdur morðingi en lifir að miklu leyti eins og frjáls maður

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 19. júlí 2019 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég reikna ekki með því,“ sagði Gunnar Rúnar Sigurþórsson er blaðamaður DV gekk að honum fyrir utan áfangaheimili Verndar að Laugateigi 19 og falaðist eftir viðtali. Gunnar var þá að stíga út úr bíl sínum við annan mann, laust fyrir klukkan níu á þriðjudagskvöldið, rétt áður en útivistartíma fanga sem dvelja að Vernd lýkur. „En væri þú til í að svara einni spurningu?“ spurði blaðamaður þá. „Nei,“ sagði Gunnar og gekk inn í húsið.

Útlit fólks kann að vera smekksatriði en blaðamaður fullyrðir þó að Gunnar líti mun betur út en árið 2009 þegar hann birti í frægu myndbandi á Youtube ástarjátningu sína til Hildar, unnustu Hannesar Helgasonar. Hann lítur líka mun betur út núna en á ljósmyndum sem teknar voru af honum eftir morðið á Hannesi Helgasyni og í tengslum við réttarhöld yfir honum á árunum 2010 og 2011.

Þetta þriðjudagskvöld, um miðjan júlí, var Gunnar klæddur í snotra, prjónaða peysu, vatterað vesti og íþróttabuxur. Hann var hreinn og snyrtilegur. Rautt hárið snöggklippt en ekki snoðað. Hann var með gleraugu með þunnri umgjörð. Þess skal einnig getið að Gunnar var engan veginn óvinsamlegur við blaðamann þrátt fyrir að afþakka viðtal og þó að ávarpið kæmi honum eðlilega á óvart virtist honum ekki ýkja mikið brugðið.

Gunnar, sem varð Hannesi Helgasyni að bana með afar kaldrifjuðum og hrottafullum hætti árið 2010, hefur ekki lokið afplánun. Hann hefur ekki einu sinni lokið lágmarksafplánun af dómi sínum, sem er tveir þriðju af dómi í þeim brotaflokki sem afbrot hans fellur undir. Fréttir þess efnis að Gunnar sé skráður á stefnumótaforritið Tinder hafa vakið mikla athygli og umræður um réttmæti þess að fangar með jafn alvarleg afbrot á samviskunni og hér um ræðir geti átt kost á öðrum afplánunarúrræðum en fangelsi.

Í vor bárust fjölmiðlum ábendingar um að sæist til Gunnars á ferli í Hafnarfirði. Þær sögur fengust aldrei staðfestar. DV hafði þá samband við Pál Winkel, forstjóra Fangelsismálastofnunar, sem tjáði DV að fangar með afbrot á borð við þetta á bakinu þyrftu að afplána tvo þriðju hluta af dómi í það minnsta. Hins vegar væru alls konar úrræði í boði til að afplána utan fangelsis að hluta fyrir fanga sem sýndu af sér fyrirmyndarhegðun. Páll sagðist þá hafa góðan skilning á því að fólki væri illa við að sjá á ferli dæmda morðingja sem ekki væru búnir að afplána dóm, en þarna væru að vegast á ólíkir hagsmunir, því úrræði á borð við til dæmis ökklaband eða dagleyfi úr fangelsi gætu verið hluti af betrun og aðlögun manna út í samfélagið.

Fyrir utan áfangaheimili Verndar. Bíllinn sem Gunnar ekur sá ljósgrái

Vekur ótta fólks

Hér vegast á hagsmunir um betrun fanga annars vegar og rétt eftirlifenda til að þurfa ekki að mæta morðingja ástvinar síns á förnum vegi hins vegar. Raunar var glæpur Gunnars Rúnars svo sérstaklega kaldrifjaður, óvenjulegur og hrottafullur, að margir óttast manninn þó að þeir þekki ekki til hans og lesendur sem sent hafa DV ábendingar um að til hans hafi sést á almannafæri, til dæmis í verslunum (óstaðfestar ábendingar, vel að merkja, og án sönnunargagna) hafa lýst yfir ótta við að vera í návist hans.

Gunnar hefur aðsetur á áfangaheimili Verndar, í reisulegu húsi að Laugateigi 19. Á heimasíðu Fangelsismálastofnunar segir svo um skilyrði afplánunar á áfangaheimili Verndar:

„Afplánun á áfangaheimili, skv. 31. gr. laga um fullnustu refsinga, felur í sér afplánun hluta fangelsisrefsingar utan fangelsis, þar sem viðkomandi dvelur á sérstakri stofnun eða heimili og er þar undir eftirliti. Áfangaheimili Verndar er það áfangaheimili sem Fangelsismálastofnun hefur gert samkomulag við og langflestir dómþolar sem uppfylla skilyrði afplána á. Fangi skal dvelja á áfangaheimilinu milli kl. 23:00–07:00 alla daga vikunnar, að auki skal hann vera á heimilinu milli kl. 18:00–19:00 á virkum dögum og skal hann fylgja öllum húsreglum sem þar gilda. Jafnframt ber fanga að stunda vinnu, nám, starfsþjálfun eða meðferð sem forsvarsmenn Verndar hafa samþykkt.“

Við þetta er að bæta að DV hefur heimildir fyrir því að fangar á Vernd eigi að vera komnir í hús fyrir klukkan níu á kvöldum virkra daga en klukkan ellefu um helgar.

Af framangreindu er ljóst að Gunnar hefur ríflegan tíma utan áfangaheimilisins sem hann getur nýtt að vild. Er því ekki að undra að fólk telji sig hafa orðið vart við hann.

Gunnar ekur um á silfurgráum Suzuki SX4, árgerð 2010. Þrátt fyrir nokkuð háan aldur lítur bíllinn vel út og er með skoðun. Bíllinn er í eigu rúmlega fimmtugrar móður Gunnars. Gunnar hefur lögheimili hjá móður sinni  í Hafnarfirði og þangað virðist hann venja komur sínar reglulega. Gunnar er fæddur árið 1987.

Gunnar starfar í fatasöfnunardeild Rauða kross Íslands. Myndir af Gunnari að störfum þar fylgja fréttinni.

Faðir Gunnars svipti sig lífi að honum viðstöddum

Faðir Gunnars, Sigurþór, fæddur árið 1962, framdi sjálfsvíg árið 1996 á heimili sínu. Það gerði hann í viðurvist Gunnars sem var aðeins níu ára gamall. Feðgarnir munu hafa verið mjög nánir og eins og nærri má um geta var atburðurinn Gunnari gífurlegt áfall. Gunnar er sagður hafa orðið félagslega einangraður í kjölfar atburðarins. Þetta kemur meðal annars fram í frétt Vísis af málinu árið 2011. Þar segir að einangrun hans hafi verið rofin þegar hann kynntist Hildi, unnustu Hannesar. Gunnar varð sjúklega ástfanginn af henni sem leiddi til þess að hann fór að hugleiða að myrða Hannes.

Í yfirheyrslum hjá lögreglu skömmu eftir morðið sagði Gunnar: „Ég elskaði Hildi. Hún átti að vera hjá mér. Hún átti ekki að vera með honum.“

Geðlæknir greindi Gunnar með ástsýki – amor insanus – og var hann dæmdur ósakhæfur í héraðsdómi. Þeim dómi var hins vegar hrundið í Hæstarétti þar sem Gunnar var úrskurðaður sakhæfur og dæmdur í 16 ára fangelsi.

Helgi í Góu. Mynd af syni hans, Hannesi, í ramma í baksýn.

Gunnar stakk Hannes, sem veitti viðnám, 19 sinnum með hnífi. Vegna þess hvað morðið var einstaklega kaldrifjað og hrottalegt þykir mörgum ótækt að hann skuli nú, níu árum síðar, ganga um á meðal fólks. Faðir Hannesar, Helgi Vilhjálmsson – Helgi í Góu – , sagði um þetta í viðtali við DV fyrir stuttu:

„Menn sem setja svona lög og reglur – hafa þeir einhvern tíma lent í svona sjálfir? Að sonur þeirra eða dóttir sé myrt að yfirlögðu ráði, með köldu blóði? Það efast ég um. En hafa þeir rætt við þá sem lenda í slíku og sett sig í spor þeirra? Það efast ég líka um.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“