Hótelstjóri í Neskaupstað réð ungt erlent par sem umsjónarfólk á Cliff hótel í bænum í vor. Í maí tók parið sig til og birti kynlífsmyndband af sér á einni stærstu klámsíðu heims, Pornhub, og fór ekki á milli mála að myndbandið var tekið inni á hótelinu.
Hótelið var áður Eddu hótel, en heitir í dag Cliff hótel og á veturna er þar heimavist fyrir nemendur Verkmenntaskóla Austurlands.
„Indælisfólk og ekki skrifað utan á þau að þetta væri hobbíið þeirra. Duglegt fólk, það vantaði ekki og ráðin til að vera húsráðendur á hótelinu,“ segir heimildarmaður í samtali við DV. „Það skiptir engu þótt þetta sé hobbíið þeirra, en ekki fara að blanda hótelinu í málið. Þetta er viðkvæmt þar sem hótelið er heimavist á veturna.“
Hákon Guðröðarson tók við rekstri hótelsins í vor, en hann á Hótel Hildibrand í Neskaupstað, sem hann hefur rekið í nokkurn tíma við mjög góðan orðstír.
„Ég held að það sé búið að taka myndbandið niður,“ segir heimildarmaður, „ég horfði ekki á það sjálfur, hafði hreinlega ekki áhuga á því, en veit að margir hér í bænum horfðu á það.“
Parið var rekið úr starfi um leið og málið komst upp og er farið af landi brott. „Um leið og þetta komst í loftið þá voru þau bara farin. Ég held að það sé öllum sama þó að fólk sé að gera svona heima hjá sér og pósta á netið, en þegar það sést nákvæmlega hvar þetta er tekið og þau eru bara að mynda um allt hótel, gangandi nakin um gangana, svo er það eldhúsið og pool-borðið. Viðbrögð hótelstjórans sýndu að hann samþykkir ekki svona athæfi starfsmanna.“
Í samtali við DV segir Hákon Guðröðarson að myndbandið sé ekki lengur til. „Þetta myndband var fjarlægt, þetta fólk var rekið og þetta mál er búið. Okkur finnst þetta mál mjög miður.“